Skip to: Site menu | Main content

Þarfagreinir

Vesturferð

Síðustu viku var ég á Vestfjörðum með föður mínum og bróður. Það eru æskustöðvar pabba, og þaðan hef ég góðar minningar. Það var gott að bæta við þann sarp. Veðrið var yndislegt allan tímann, og hæfði það félagsskapnum vel.

Þá vitið þið ástæðuna fyrir því að ég var ekkert á gagnvarpinu allan þennan tíma.

Annars saknar maður þess merkilega lítið, svona þegar maður tekur kalda kalkúninn.

Vinstri fóturinn minn

… er illa farinn. Aðfaranótt laugardags steig ég feilspor í mannfjöldanum. Nú á ég erfitt með gang.

Það er ekki tekið út með sældinni, þetta galeiðulíferni.

Long Way Home

Well I stumbled in the darkness
I’m lost and alone
Though I said I’d go before us
and show the way back home
Is there a light up ahead
I can’t hold on very long
Forgive me pretty baby but I always take the long way home

Money’s just something you throw
off the back of a train
I got a head full of lightning
And a hat full of rain
And I know that I said
I’d never do it again
And I love you pretty baby but I always take the long way home

Ólympíuleikar

Fyrstu þrjá daga þessarar viku voru haldnir svonefndir Ólympíuleikar á vinnustaðnum mínum. Þeir náðu hámarki í gær, þar sem keppt var í (að mínu mati) skemmtilegustu greinunum.

Má þar til að mynda nefna tvítafl, en í því keppa tveir á móti tveimur í hvert skipti – tvær skákir samhliða. Þeir sem eru saman í liði eru alltaf með hvor sinn litinn, og menn sem annar þeirra nær að drepa má hinn setja inn í taflið hjá sér og nota. Afskaplega skemmtileg og súrt afbrigði. Þetta unnum við svartir, og var ég annar þeirra sem keppti í þessari grein.

Einnig var keppt í svonefndu Pöbbakvissi, og þar keppti ég ásamt tveimur öðrum. Sú keppni skiptist í tvær umferðir; hefðbundna Pöbbakvissaumferð þar sem lesnar voru upp spurningar, og liðin skrifuðu svörin niður á blað. Mitt lið var efst eftir þá umferð, og þá tók við bjölluspurningakeppni, þar sem hlaupa átti að bjöllu til að ná svarréttinum. Sú umferð var tvísýn, þar til upp var borin spurning um Íslandsvin nokkurn sem kom hingað frá Spáni árið 1998, og sem naut að sögn töluverðrar kvenhylli. Ég er viss um að spurningin átti að verða lengri, en einhverra hluta vegna kveikti ég strax þarna, rauk til, og giskaði á Kio Briggs – og það reyndist rétt. Það var sérstaklega viðeigandi að þetta svar hafi tryggt okkur sigurinn, þar sem ég var í svarta liðinu. Að vinna á spurningu um svartan mann var því auðvitað afskaplega ljúft.

Verðbætur

Í rúmt ár hef ég safnað aurum inn á verðtryggðan reikning, þar sem ég taldi það vera öruggasta sparnaðinn til lengri tíma litið.

Þetta þýðir að bankinn leggur mánaðarlega inn á reikninginn verðbætur til að vega upp á móti áhrifum verðbólgu. Þessi upphæð er þá í beinu hlutfalli við verðbólguna hverju sinni.

Um síðustu mánaðamót voru þessar verðbætur 2.291 kr.

Til samanburðar má nefna að áður höfðu verðbæturnar hæst farið í 808 kr. – en þá var höfuðstóllinn töluvert lægri en hann er núna.

Ég held að þetta segi allt sem segja þarf um efnahagsástandið.

Ég er því nokkuð ánægður með að hafa alla vega safnað þessum aurum til hinna mögru ára – sem nú eru svo sannarlega upp runnin.

Illt í veskinu

Ég tók bensín í dag hjá Atlantsolíu – 144 krónur lítrinn. Það hitti svo vel á að ég var orðinn tómur, einmitt þegar miklar hækkanir gengu í garð hjá nokkrum olíufélögum (upp í 150 krónur). Ef maður þekkir þetta rétt munu öll hin fyrr eða síðar fylgja í kjölfarið, og þá er nú betra að vera með fullan tank.

Ástandið er vægast sagt ekki gott. Allt sem vont er að lækki lækkar (gengi krónunnar, úrvalsvísitalan), en allt sem er vont að hækki hækkar (verðbólgan, verðlagið).

Það er merkilegt hversu lítið maður veltir svona hlutum fyrir sér þegar þeir eru í góðu lagi. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur, býst ég við.

Er ekki annars ráð að taka upp aðra mynt? Ég sé fá alvöru rök fyrir því að hafa þessa litlu krónu önnur en eitthvað þjóðerniskenndarraus.

Þegar ég fékk að líða fyrir það hverra manna ég er

Já, þetta er langur titill.

Þannig er mál með vexti að í tengslum við ákveðna nýlega þjóðfélagsumræðu var ég að rifja upp gamla sögu. Hana má rekja til þess þegar ég tók þátt í framhaldsskólakeppninni Morfís fyrir hönd Fjölbrautaskólans í Breiðholti. Ekki náði mitt lið nú miklum árangri í þau tvö ár sem ég tók þátt í keppninni, en þetta var áhugaverð reynsla.

Sagan varðar það, þegar við kepptum við ræðulið Menntaskólans í Reykjavík (sem einnig hefur verið nefndur Lærði skólinn af þeim, sem þykja það sjálfvirk meðmæli með menntastofnun að hún sé eldri en allir nemendur hennar samanlagt) . Umræðuefnið var Nektardansstaðir. Mitt lið átti að tala með þeim búllum.

Þar sem Menntskælingar voru andmælendur, steig liðsstjóri þeirra annar í pontu, á eftir liðsstjóra okkar Fjölbreytinga, og rétt á undan mér. Hann endaði kynningu sína á að draga fram úr pússi sínu lesendabréf sem foreldrar mínir höfðu sent DV nokkru áður, í því skyni að segja upp áskrift sinni af blaðinu, sökum þess að í því birtust ósiðsamlegar myndir. Ekki var hægt að túlka þennan gjörning á aðra vegu en þá, að þarna ætti að koma mér í bobba – setja mig þá í leiðu stöðu að ég væri að fara að mæla nektardansstöðum bót rétt eftir að sýnt hafði verið fram á, að slíkar búllur væru varla nokkuð sem foreldrar mínir styddu.

Svo vildi hins vegar svo skemmtilega til, að mín eigin ræða hafði verið skrifuð í kringum það þema, að ég byrjaði á því að lýsa svörtum iðnaði sem þrífst á Íslandi – iðnaði sem hefði jafnvel tvístrað fjölskyldum, og sem engum þætti í raun gaman að vinna við. Fleira í þeim dúr. Meiningin var sumsé að fá fólk til að lyfta brúnum yfir því, af hverju ég, meðmælandinn, væri að bölsóttast yfir nektarbúllunum. Brellan fólst hins vegar í því, að þegar ég var búinn með innganginn að ræðunni, þá upplýsti ég að ég var í raun og veru að tala um sjávarútveginn. Út frá því leiddi ég síðan, að það væri til fleira slæmt en nektarbúllurnar. Eitthvað í þá veru.

Þessi lúalega, en þó frekar skondna brella Menntskælinganna misheppnaðist því frekar illa. Bæði vegna þess að ræðan mín hófst á svo óhefðbundinn hátt, og vegna þess að ég er svo svalur.

Árslok

Þetta gengur auðvitað ekki. Hvílík fjárans leti.

Annars er ekkert í fréttum nema að yfir jólin hef ég sofið og étið afskaplega mikið. Hef ég við hið fyrrnefnda notast við náttbuxur sem Anna gaf mér í jólagjöf (ásamt öðru reyndar). Ég hef aldrei notast við náttföt áður, en verð að segja að þetta venst vel. Það er ansi þægilegt að þurfa ekkert að fara í ‘alvöru’ föt þegar maður er í fríi.

Upprisa

Þið verðið að afsaka bloggletina; ég hef heldur ekki verið duglegur á Moggablogginu undanfarið, en þó duglegri þar en hér.

Það er helst í fréttum að um helgina var ég dreginn með í svokallað ‘LAN’ úti á landi, með tveimur vinnufélögum og það sem reyndist vera gamla LAN-liðið úr FB. Það kom skemmtilega á óvart að hitta þá alla saman eftir allan þennan tíma. Það er allt í lagi að grípa í tölvuspil við og við, þó áhugi minn á slíku sé ekki nærri því jafn mikill og hann var þegar ég var lítill.

Annað sem er að frétta er að ég skráði mig loks á Facebook nýlega, eftir að hafa haft mikla fordóma fyrir því og þrjóskast við alllengi. Þar villti draslið Myspace mér sýn, en ég féll hins vegar kylliflatur fyrir Facebook þegar ég sá hversu miklu mun betur hannaðra og fjölbreyttara það er en sá sori.

Þetta tvennt tengist síðan skemmtilegt nokk; ég hef núna bætt við nokkrum af þeim gömlu FB-ingum sem ég hitti um helgina í vinasafnið á Fésbókinni. Meiri nostalgían hjá mér þessa dagana …

Hal Turner og vinir hans

Fregnir hafa borist af íslenskri rasistasíðu, skapari.com (ég hlekkja viljandi ekki yfir á þessa síðu; geri þeim sem hana reka ekki það til geðs). ‘Skemmtilegt’ nokk þá er víst maður nokkur tengdur henni sem er mér kunnugur annars staðar frá. Sá heitir Hal Turner og heldur meðal annars úti útvarpsþætti þar sem hann fer ófögrum orðum um litað fólk og gyðinga. Ég komst að þessum tengslum sjálfur þegar ég heyrði af síðunni fyrst með því að fletta henni upp í WHOIS – þá sá ég að hún er skráð í hans nafni. Síðan sá ég að fleiri hafa dregið sömu ályktun, meðal annars visir.is.

Hal þekki ég annars í gegnum síðu sem ég hef skoðað við og við um nokkurt skeið, 4chan.org. Sú síða er alræmt athvarf nafnlausra vitleysinga. Þessir vitleysingar ákváðu nefnilega fyrir ekki svo löngu að ofsækja Hal þennan Turner, og úr því varð mikið drama. Um þetta má lesa í ítarlegu máli hér (þessi síða er því miður oft frekar hæggeng; sýnið biðlund). Niðurstaðan af þessu öllu saman var víst að maðurinn er erkifífl. Það þarf víst ekki að koma á óvart, en mér þykir engu að síður ansi skondið að sjá hann síðan birtast sem einhvers konar stuðningsmann og átrúnaðargoð nafnlausra íslenskra rasista. Já, hann virðist koma víða við, karlanginn.