Skip to: Site menu | Main content

Þarfagreinir

Bless snjór

Þá er snjórinn farinn. Hann entist ekki lengi.

Hins vegar munu nagladekk þeirra sem slógust næstum því til að ná sér í slík hinn sama morgun og hvítt sást á jörðu væntanlega endast aðeins lengur.

Mafía

Ég er orðinn forfallinn mafíuspilari.

Fyrir þá sem ekki vita hvað ég á við, þá er þetta ágætislesefni:

http://en.wikipedia.org/wiki/Mafia_%28game%29

http://www.mafiascum.net/wiki/index.php?title=Main_Page

Skammarhjálmurinn

Ég gerði mistök í vinnunni – þannig að ég þarf að bera hinn svokallaða skammarhjálm í klukkutíma. Þetta er appelsínugulur verkamannahjálmur. Hressandi.

Fjárinn

Ég skrifaði færslu á afmælisdaginn minn þar sem ég lýsti yfir því að þetta hefði verið mjög góður dagur; ég fékk morgunverð í rúmið og snæddi með fjölskyldunni á Asíu um kvöldið, og var því mjög saddur og sæll í dagslok. Anna gaf mér síðan frábærar gjafir; USB-minnislykil sem heitir Firefly, ásamt bókum.

Þessi færsla var hins vegar vistuð sem uppkast og birtist því aldrei. Pirr.

Sófi

Langar einhvern í þennan sófa? Hann fæst gefins og er frekar nýlegur; úr IKEA.

Ugh

Algrímur hefur ekkert sést síðan á miðvikudaginn. Alltaf eitthvað vesen á þessum köttum.

Tilkynning

Anna er að flytja inn til mín. Það var orðið tímabært.

Kveðjustund

Anna fór með ‘boðflennuna’ til dýralæknis í dag. Ég er augljóslega ekki svo glöggur, þar sem þetta reyndist vera fress, og með eyrnamerkingu í þokkabót. Hægt var að rekja heimili hans til húss við mína götu. Anna hafði samband við eigandann, sem var að vonum feginn að heyra að greyið hafi fundist – enda hafði hann verið týndur í um mánuð.

Það var gaman að hafa þennan gest í skamma stund, og líka gaman að hann hafi farið aftur til eigandans eftir þetta langa flakk.

Aukakisi

Tveir kisar

Þegar ég kom heim í gærkvöldi sá ég kött í bakgarðinum, rétt fyrir framan bakdyrnar hjá mér. Hann sat bara og vældi hátt og ámátlega. Ég hugaði að honum og sá að hann var grindhoraður og þvældur. Hann var algjörlega ómerktur; meira að segja ekki með neitt innan í eyrunum. Ég ákvað því að taka hann með mér inn og hlúa að honum. Algrímur var ekkert sérstaklega sáttur við þessa boðflennu í fyrstu; hvæsti og urraði og starði.

Þessi köttur sýnist mér vera læða, og hún er ennþá ansi hvumpin og væskilsleg. Í morgun þegar ég fór út virtist þó aðeins vera að hlýna á milli þeirra Algríms – hann er meira smeykur við hana núna en árásargjarn, og vildi til dæmis hlaupa út í morgun. Því miður fyrir hann var hellidemba úti, þannig að skutlaði honum inn aftur. Þegar ég fór úr húsi í morgun var staðan eins og hún sést á meðfylgjandi mynd.

Ég veit ekki alveg hvað ég geri við þessa nýju kisu. Fyrsta skrefið er væntanlega að auglýsa fundinn á síðu Kattholts. Ef það ber ekki árangur er víst annað hvort að gefa hana eitthvað annað – eða þá bara halda henni. Það gæti verið gaman að hafa tvo ketti til að halda hvor öðrum félagsskap yfir daginn. Það er að segja ef þau ná að vingast …

Eftirsjá

Eftirsjá er eitt það versta sem til er – sérstaklega ef hún er réttmæt.

Það er ekki hægt að breyta hinu liðna, og stundum hafa ákvarðanir manns miklu geigvænlegri áhrif en maður hafði ímyndað sér. Maður sem hefur ekki vanist því að vera ýkja merkilegur gerir sér ekki endilega grein fyrir því hvað hann getur skipt suma miklu máli.

Ég veit það alla vega núna …

Og það eina sem ég get gert er að vona að mér verði fyrirgefið.