Það er ekkert launungarmál að Bubbi Morthens er mjög á móti niðurhali á afþreyingarefni á netinu. Pistill hans í dag kom mér því lítið á óvart en þó kom mér á óvart að þarna virðist hann ráðast ekki bara gegn ókeypis dreifingu tónlistar heldur gegn því að fólk kaupi sér hana löglega með leiðum sem honum hugnast sjálfum illa. Það kemur mér líka á óvart hvað rökin varðandi það eru slöpp og byggðar á veikum fullyrðingum.

Til dæmis hefur hann eftir David Byrne hversu lítið Daft Punk fengu í sinn hlut vegna spilunar á laginu Get Lucky á Spotify (sem er reyndar tala sem má draga í efa) og heldur því fram að þeir piltar væru milljónamæringar ef þeir hefðu gefið lagið út sem smáskífu. Það er alveg hreint ótrúlega óheppilegt dæmi þar sem þetta eru með ríkustu tónlistarmönnum veraldar, og megnið af því ríkidæmi varð til á mjög netvæddum tímum. Þeir nýta einfaldlega tæknina til að koma tónlist sinni á framfæri og græða. Get Lucky og platan sem það er á, Random Access Memories, eru til á YouTube og þar getur hver sem er hlustað á það hvenær sem er algjörlega ókeypis. Allt er það löglegt enda er YouTube duglegt við að fylgja höfundarréttarlögum eftir. Samkvæmt þeim rökum að slíkt ókeypis aðgengi grafi gríðarlega undan tekjutækifærum tónlistarmanna ætti í raun að vera ótrúlegt að Daft Punk séu að græða eitthvað yfir höfuð í gegnum veitur á borð við Spotify.

Einnig má í þessu sambandi nefna að það er í raun ekkert nýtt að milliliðir taki óhóflega mikið af tónlistarmönnum og þeim finnist þeir hlunnfarnir. Dr. Gunni hefur til að mynda rakið hvernig STEF hefur gagnast honum (eða ekki) við að innheimta tekjur af útvarpsspilun. Að gera tæknina að blóraböggli er því mjög ósanngjarnt gagnvart þeim sem nýta sér hana á heiðarlegan hátt, hvað þá þegar talað er um þjófnað í slíku samhengi eins og Bubbi gerir leynt og ljóst. Nú er ekki þar með sagt að þessari nýju tækni fylgi ekki ákveðin efnahagsleg vandamál og siðferðileg álitamál, sérstaklega á jafn litlum markaði og sá íslenski er – en svona málflutningur er ekki gott innlegg í umræðu um þau.

Hið furðulegasta í pistlinum er þó líklegast þessi fullyrðing:

Ef ég kaupi málverk eftir Kjarval og geri síðan eftirprentanir og býð öllum sem vilja að fá sér eintak þá yrði ég stöðvaður og ákærður.

Hér er Bubbi greinilega að halda því fram að sá sem myndi dreifa eftirprentunum af Kjarvalsmálverki ókeypis til allra sem vilja yrði handtekinn og ákærður. Ég ætla því einfaldlega að láta reyna á þá þetta með því að birta hér slíka eftirprentun og bjóða hverjum sem vill að afrita og dreifa áfram eins og viðkomandi sýnist:

Johannes_S._Kjarval-i_Moskvu

 

Þetta eintak bjó ég annars ekki til sjálfur heldur fékk ég það bara einfaldlega af netinu, þar sem til eru margar eftirprentanir af verkum Kjarvals fyrir. Þeir eru því greinilega margir, glæpirnir á netinu.

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

You may use these HTML tags and attributes:

<a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>