Gat nú verið að Heimdellingar væru á móti tillögum um fjármál stjórnmálaflokka.

Ég ætla ekki að tjá mig um aðra þætti málsins en þann að Heimdellingarnir setja sig á móti því að styrkir til flokka verði gerðir opinberir; það má segja sitthvað um hinar tillögurnar, en þetta er algjört grundvallaratriði. Það er löngu, löngu, löngu tímabært mál að almenningi sé gert kleift að sjá hverjir styðja hvaða flokka og um hversu mikið. Allt andskotans röfl um að það sé ‘aðför að lýðræðislegum rétti’ að meina einhverjum að gefa leynilega til flokkanna er svo bjánalegt að það er ekki einu sinni fyndið.

Þetta er mjög einfalt:

Í lýðræðisríkjum er leynilegur kosningaréttur. Það þýðir að enginn annar en viðkomandi kjósandi veit hvað hann kaus. Ekki einu sinni flokkurinn veit það. Þetta er vel – það þýðir að þegar allt kemur til alls er það kjósandinn sjálfur sem ákveður hvað hann kýs, og hann getur ekki sannað fyrir neinum að hann hafi kosið tiltekinn flokk og farið fram á einhverja sérmeðferð þess vegna.

Leynileg greiðsla til stjórnmálaflokks er hins vegar annað mál, og ég skil ekki af hverju svona erfitt er að skilja það. Þegar einhver greiðir til flokks veit flokkurinn af því líka. Þetta hlýtur að skapa ákveðna spennu, sérstaklega ef upphæðin er há. Það er algjört lágmark að almenningur viti af slíkum greiðslum og geti metið það sjálfur hvort um óeðlileg tengsli flokka og fyrirtækja eða einstaklinga er að ræða. Heimdellingar vilja að þetta fari í gegnum einhverja stofnun, sem „færi með framlögin sem persónuupplýsingar en gæti beitt sér ef grunur leikur á um að verið sé að reyna að hafa óeðlileg áhrif á stjórnmálaflokka eða menn“. Hvernig í andskotanum á að meta hvort svo er? Hvaða viðmið á að nota? Þarf að setja sérstakar reglur um það? Og hvað á þá að gera ef þessi grunur kemur upp? Ég sem hélt að Heimdallur væri almennt á móti ríkisbáknum og afskiptasemi ríkisyfirvalda …

Langeinfaldast og réttlátast er að hafa greiðslur til stjórnmálaflokka eins opinberar og hægt er. Hagsmuni hverra skerðir það, ef mér leyfist að spyrja? Hver sem er myndi enn geta borgað hvað sem er til hvaða flokks sem er … almenningur myndi bara einfaldlega vita af því. Þannig á opið og lýðræðislegt þjóðfélag að vera. Leynimakkið á bara að vera í kosningunum sjálfum, enda fer lokauppgjörið fram þar. Ef þessar reglur verða til þess að flokkarnir fá minna, þá verður bara að hafa það. Hagsmunir hins almenna kjósanda vega að mínu mati miklu mun þyngra.

P.S. Ég veit ekki betur en að fyrirkomulag á borð við það sem ég lýsi hér sé hið langalgengasta í lýðræðissamfélögum. Er þá verið að traðka á rétti einstaklinga og fyrirtækja þar? Er Ísland eitt af fáum lýðræðislöndum í heiminum þar sem ‘rétturinn’ til að moka peningum leynilega í stjórnmálaflokka er virtur?

P.P.S. Ég sé heldur ekki betur en að téð fyrirkomulag minni um margt á hefðbundin markaðslögmál. Ef kjósendur meta það sem svo að einhver flokkur sé óhóflega mikið á framfæri annarra sem gætu haft ‘óeðlileg áhrif’ á flokkinn, þá geta þeir sleppt því að kjósa hann, og flokknum er þá sjálfkrafa refsað fyrir að þiggja háar fjárhæðir. Ef kjósendum er sama, þá getur flokkurinn haldið þessu áfram og allir eru sáttir. Hvað sem öðru líður þá finnst fyrr eða síðar jafnvægi í þessum málum út frá vilja kjósenda. Af hverju að búa til enn eitt ríkisbáknið til að stýra þessu handvirkt?

Jæja … bíómiðinn kominn upp í 900 kall. Og auðvitað er það sama verð alls staðar, eins og venjulega. Ég held að það séu bara þrjár ‘blokkir’ sem reka kvikmyndahús hér á landi núorðið … og þær eru allar samtaka í verðlagningu. Sú verðlagning hækkar alltaf reglulega, en lækkar aldrei. Rökin sem eru gefin fyrir því eru misjöfn, ef þau eru þá gefin yfir höfuð. Þó eiga þau það oftast sameiginlegt að þau eru vafasöm.

Lúxussalirnir eru síðan saga út af fyrir sig – það kostar 1900 krónur í þá nú til dags, sem er meira en tvöfalt verð sem er smánarlega hátt fyrir. Það sem fæst fyrir þessar auka 1000 krónur eru þægilegri sæti, meira pláss, og ókeypis popp og kók sem þó þarf að bíða í venjulegri röð eftir. Popp og kók er síðan, eins og kunnugt er, hræódýrt. Er þetta eðlilegt?

Ég sé enga aðra leið til að mótmæla þessu kjaftæði en að fara ekki í bíó, sem er miður. Ég held líka að hækkun verðlags muni ekki hafa slæm áhrif á aðsóknina – ástæðan fyrir því að verðið er alltaf hækkað við og við hlýtur að vera sú að fólk lætur sig bara hafa það.

Það er frekar skítt að það skuli ekki vera nein raunveruleg samkeppni í þessum bransa? Hvað er þá til ráðs? Undirskrifasöfnun? Tekur nokkur mark á slíku?

Blóð

Ég fór í heimsókn í blóðbíl áðan þar sem tekið var sýni af dreyranum mínum. Ef allt fer að óskum mun ég geta gefið af honum í alvöru eftir hálfan mánuð eða svo. Það ætti að vera ágætisjólagjöf.

P.S. Blóðþrýstingurinn minn er 134/75 og púlsinn er 89. Er það eðlilegt?

Hljómsveitin Kóbalt, hverja ég er víst rótari fyrir, hefur gefið út á alnetinu lagið Baggapó, sem fjallar um Baggalút og Gestapó.

Hljómsveit þessa skipa Anna Panna, Ívar Sívertsen, og Galdrameistarinn. Texti lagsins er eftir Skarpmon Skrumfjörð. Bangsímon kom eitthvað að hljóðvinnslunni, en maður sem ber einungis raunheimanafnið Hálfdán Haraldsson sá aðallega um hljóðblöndunina ásamt Galdrameistaranum.

Laginu má hala niður hér.

Til að vista lagið á tölvunni má hægrismella á hlekkinn og velja Save Target As, Save Link As, eða hvað sem slík aðgerð nefnist í vafranum. Í IE vistast lagið undir réttu nafni, en í Eldrefnum og Safari þarf maður víst að gefa því sjálfur nafnið baggapo.mp3 í stað index.php.

Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og sjálfstæðisbáráttufrömuðarnafni, viðurkennir loksins að það hafi kannski ekki verið alveg rétt ákvörðun að styðja Kanana í árás þeirra á Írak. Ég fagna þessari yfirlýsingu hans, þó að mér finnist að hann hefði átt að segja þetta um leið og hann tók við sæti formanns Framsóknarflokksins. Það er lítil dirfska fólgin í því að tala á þessum nótum nú þegar jafnvel Kanarnir sjálfir viðurkenna upp til hópa að innrásin hafi ekki átt rétt á sér. En hvað um það; betra er seint en aldrei.

Málið er hins vegar að þetta voru alls engin mistök, alla vega ekki af hálfu Kanastjórnvalda. Þeir vissu nákvæmlega hvað þeir voru að gera – innrásin snerist aldrei um hugsanleg gereyðingarvopn Saddams eða tengsl hans við hryðjuverk, enda var það Kanastjórn nokkuð ljóst að tilvist hvors tveggja var ávallt í besta falli afar hæpin. Sorglegt nokk þá ákvað þessi stjórn að þyrla ryki í augu sinna eigin þegna og erlendra stjórnvalda; blekkja vísvitandi til að fá sínu framgengt.

Íslensk stjórnvöld drógust með inn í þessa hringavitleysu. Á því eru tvær skýringar mögulegar. Annað hvort létu þau blekkjast af skrípaleik Kanastjórnar, eða þau ákváðu að taka þátt vitandi hversu hæpnar ‘sannanirnar’ voru, þá vegna annarra hagsmuna. Í báðum tilfellum koma þeir sem ákváðu það fyrir okkur Íslendinga að við skyldum styðja innrásina afar illa út. Sumir, eins og Drífa Hjartardóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, vilja meina að íslensk stjórnvöld hafi einungis brugðist við þeim upplýsingum sem fyrir lágu – þær hafi síðar reynst rangar. Hið rétta í stöðunni, miðað við gefnar upplýsingar, hafi verið að styðja innrás. Þá er mér spurn: Af hverju brugðust þá fjöldamargar aðrar ríkisstjórnir öðru vísi við nákvæmlega sömu upplýsingum? Af hverju voru íslensk stjórnvöld þarna í minnihluta meðal ‘siðaðra’ þjóða? Mér þykir þetta afskaplega aum afsökun, því miður. Meira að segja mér var ljóst að eitthvað vafasamt var þarna á ferðinni … ég treysti Búski og félögum ekki fyrir fimm aura þá, og enn síður nú. Fjölmargir aðrir voru sömu skoðunar: 80% íslensku þjóðarinnar var á móti innrásinni. Af hverju var ekkert hlustað á okkur? Af því að stjórnin vissi þetta miklu betur en við? Ef hún hélt það á sínum tíma þá ætti hún að sjá það núna að henni skjátlaðist hrapalega.

Svo eru það kappar á borð við Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra og sjálfskipaðan sérfræðing í utanríkis- og varnarmálum. Hann spilar alltaf þá biluðu og gatslitnu plötu að stjórnvöld hafi bara verið að styðja okkar ‘hefðbundnu samstarfsaðila í öryggis- og varnarmálum’. Ég hef sagt það áður og segi það aftur að þetta eru bjánaleg og vægast sagt ömurleg rök; maður á ekki alltaf að gera það sem vinir manns segja bara af því að þeir eru vinir manns. Þetta hefði Björn átt að læra í æsku. Nú bætir Björn reyndar öðrum vinkli við málið. Hann segir meðal annars:

Það ber vott um yfirþyrmandi minnimáttarkennd eða ótrúlega mikilmennsku að telja sér trú um, að afstaða ríkisstjórnar Íslands hefði skipt einhverju um það, hvort ráðist yrði inn í Írak.

Þar höfum við það. Þar sem ríkisstjórn Íslands hefði ekki getað haft nein bein áhrif á hvort innrás hefði verið gerð eður ei, þá var bara best að lúffa og styðja hana í þeirri viðleitni að Kanarnir myndu þá kannski gera eitthvað fyrir okkur í staðinn. Eða er það ekki það sem þú ert að segja, Björn? Eða var þessi ákvörðun kannski bara tekin í einhverri rælni? Krónu kastað? Það er alla vega nokkuð ljóst að hún var lítils virði í ljósi þess að hún gat engin áhrif haft á neitt. Þú virðist sumsé aðhyllast þá hugmyndafræði að ef afstaða stjórnvalda geti ekki haft nein praktísk áhif, þá skipti hún engu máli og sé í raun tilgangslaus. Ætli hið sama gildi þá ekki, í þínum augum, um afstöðu almennra borgara? Það myndi alla vega útskýra af hverju þið félagarnir í ríkisstjórn ákváðuð að hundsa hana algjörlega í þessu máli. Þið hafið kannski hugsað sem svo: „Þó að þegnar landsins séu upp til hópa á móti innrás í Írak, þá breytir það engu um það að við munum styðja hana. Þess vegna er tilgangslaust fyrir almenning að hafa afstöðu í þessu máli.“

Nei, Jón Sigurðsson var ekki að vísa til þess að ákvarðanir íslenskra stjórnvalda hefðu getað breytt einhverju um gang mála. Þetta snýst um grundvallaratriði á borð við að ákvarðanir og yfirlýsingar stjórnvalda endurspegli vilja þjóðarinnar, og að þær séu vel ígrundaðar og siðlegar. Ákvörðunin um að styðja innrás í Írak uppfyllti engin þessara skilyrða. Hún fékk mig til að skammast mín fyrir það að vera Íslendingur. Ég vona að svona svívirða verði aldrei nokkurn tímann endurtekin. Pólitíkusar á borð við Björn Bjarnason sem virðast bara ekki fatta svona einfalda hluti þykja mér afar ódýr pappír.

Berið saman þetta og þetta.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Microsoft hermir algjörlega eftir því sem einhver annar hefur gert í von um að stela sneið af markaðnum af viðkomandi, eða þá bara allri kökunni. Einfaldasta leiðin til að gera þetta finnst þeim auðvitað að kaupa fyrirtæki sem hefur framleitt það sem þeir þurfa. Stefna þeirra virðist vera að ráða algjörlega yfir öllum tölvutengdum mörkuðum. Það er afskaplega fátt sem Microsoft býður ekki upp á … stýrikerfi, skrifstofuhugbúnaður, vefvafri, vefpóstur, ‘IM’, netleitarvél og öll önnur virkni sem Google býður upp á, hugbúnaðarþróunartól, leikjatölva … listin er ótæmandi. Ég verð að segja að mér þykir þetta býsna ískyggileg þróun mála. Verst er auðvitað að fyrirtækið notar gríðarlegt fjármagn sitt til að bókstaflega kæfa heilu markaðina og yfirtaka þá. Þessi Google-eftirherma þeirra er ein lúalegasta tilraunin til þess sem ég hef nokkurn tímann séð.

Stuttleg úttekt á ofantöldu: Pirr pirr pirr …

Tímamót

Fagnaðartilefni! Algrímur fær að sofa í rúminu mínu á nóttunni núna, þar sem hann er alveg hættur að míga í það. Sko hann.

Ég heyri oft af fólki sem er að bisa við að reyna að ná í Office-pakkann frá Microsoft með einhverjum ólöglegum leiðum, sem er svo sem vel skiljanlegt þar sem þetta er rándýr fjári. Oftast er þetta auðvitað bara svo að fólk geti fengið Word til að geta skrifað ritgerðir í einhverju skárra en draslinu WordPad.

Í hvert skipti sem ég er spurður út í leiðir til að útvega þennan Skrifstofupakka, þá bendi ég á OpenOffice. Það er ókeypis (og meira að segja líka frjáls) pakki sem er mjög svipaður þeim frá Microsoft. Persónulega þykir mér hann alls ekkert síðri, og hann uppfyllir allar mínar þarfir.

Til hvers að vera að bisa við að ná sér í eitthvað ólöglega þegar sambærileg vara er til ókeypis? Ég bara spyr …

Uss

Ég var að frétta að Kántrísveit Baggalúts kom fram á síðustu árshátíð fyrirtækisins sem ég vinn núna hjá. Ég hefði betur hafið störf hér fyrr … en svo má auðvitað alltaf vona að sveitin endurtaki leikinn næst.

Í dag er allt undirlagt af snjó í höfuðstaðnum. Því miður þurfti ég að ná í bílinn minn í dag eftir að hafa yfirgefið hann í gærkvöldi sökum ölvunar. Ekki tókst heimferðin betur en svo að ég festist í beygju inn á Miklubrautina, og var ég alls ekki einn um það. Þessi beygja var orðin að hálfgerðri félagsmiðstöð á tímabili – allir komnir út úr bílunum að hjálpa hver öðrum við að komast úr snjónum. Eftir að kall nokkur á stórum jeppa hafði dregið mig inn á Miklubrautina var afgangur ferðarinnar áfallalaus.

Eitt er gott við snjóinn: Hann er fallegur.