Þá er einræðisherrann gamli farinn. Hann var látinn hanga. Þetta kemur ekki beinlínis á óvart, né heldur viðbrögð Búsksins, sem fagnar þessum merka áfanga á leið Íraka til lýðræðis. Áhugaverðar túlkanir á hugtökum hjá honum alltaf hreint. Dauðarefsingar virðast í hans grautarhausi vera nátengdar lýðræði.

Annars hef ég svo sem ekki mikið um þetta mál að skrifa. Þetta er lítið annað en enn eitt sorglegt dæmi heimsósómans, sem mér er farið að leiðast að hugsa um.

Í gærkvöldi rambaði ég alveg óvart á Omega þegar ég var að horfa á imbann. Þar voru saman komnir tveir gamalgrónir kappar, þeir Guðmundur Örn Ragnarsson og Ólafur Jóhannsson. Með sér höfðu þeir ungan mann að nafni Sigurður, sem ég hef ekki séð þarna áður og hvers föðurnafn ég heyrði ekki. Sá hafði verið langt niðri þegar hann fór í Byrgið og fann Drottinn, og telur sig nú vera kominn á beinu brautina. Ekkert nema gott um það að segja, og einnig um þær samræður sem þarna fóru fram í heildina – þær voru yfirvegaðar og vinalegar. Þeir tóku þá skynsamlegu ákvörðun að dæma hvorki til né frá í skandalsmálinu sem upp er komið í Byrginu, og töluðu mest um sína lífsreynslu og hvernig þeir komust í kynni við Jesú Krist og svo framvegis. Óttalega notalegt allt saman.

Engu að síður þykir mér alltaf dálítið ónotalegt að heyra hann Guðmund Örn tala, allt frá því að ég heyrði predikun hans fyrir örfáum vikum síðan. Þar tók hann á málefnum kvenna á vægast sagt ógeðfelldan hátt. Það er ekki laust við að hrollur hafi farið um mig við að hlýða á þau orð. Óhætt er að segja að afstaða hans er afdráttarlaus. Að mati Guðmundar eiga konur ekkert erindi í opinbert líf, punktur. Þeirra eina hlutverk er að vera heima og sinna fjölskyldunni. Auðvitað passaði hann sig á því að mæra þetta göfuga starf, húsmóðurstarfið. Það er nefnilega ekkert ómerkilegra en ‘karlastörfin’ sko … Guð hefur hlutverk handa öllum, og þau eru öll jafnmikilvæg. Þau eru bara svolítið mismunandi, sérstaklega milli kynja. Annað sem fram kom í sömu predikun, þó minna svaðalegt sé, var það viðhorf að enginn af núverandi Alþingismönnum eigi í raun erindi í að stjórna landinu, þar sem enginn þeirra er ‘réttlátur’, það er að segja frelsaður.

Guðmundur þýðir ‘hönd Guðs’. Ef Guðmundarnir tveir, þessi og forstöðumaður Byrgisins, eru dæmigerð dæmi um hendur Guðs, þá held ég að hann þurfi að fara að þvo sér um hendurnar.

P.S. Guðmundur Örn sagðist í þessu spjalli í gærkvöldi eitt sitt hafa starfað sem kennari í Byrginu. Skyldi hluti þeirrar kennslu hafa farið í miðlun á ofangreindum viðhorfum? Maður spyr sig.

Jóladagur

Jólin hafa verið mjög fín hingað til, eins og við var að búast. Ég fékk ýmsar góðar gjafir og hef étið vel. Í dag fór ég í mat hjá frændfólki mínu uppi í sveit. Á leiðinni heim keyrði systir mín bílnum mínum, og var það í fyrsta sinn sem ég sat í bíl með hana undir stýri. Hún stóð sig bara vel. Merkilegt hvernig tíminn líður.

Aðfangadagur

Það er alls ekki amalegt að vera vakinn með eggjum og beikoni í rúmið. Ég mæli með því. Restin af deginum held ég að verði alls ekki síðri; aðfangadagur er einn af mínum uppáhaldsdögum. Það er svo gaman að snæða góðan mat með fjölskyldunni og taka síðan upp pakkana saman.

Gleðileg jól!

Blóð mitt reyndist boðlegt, þannig að ég fór í gær og lét pumpa dálitlu af því úr mér. Ég var fyrirfram dálítið kvíðinn yfir því að ég yrði dasaður á eftir, en þetta reyndist afskaplega auðvelt mál. Ég varð þó þreyttur frekar snemma um kvöldið, sem er nokkuð sem gerist sjaldan, þannig að ég tel mjög líklegt að blóðgjöfin hafi valdið því. Það er þó vægt gjald að greiða þykir mér.

Í gær fékk ég veður af því hjá Galdrameistaranum að liðinn Kompásþáttur hafi verið allsvaðalegur; þar væri fjallað um mjög alvarlegar ásakanir á hendur Guðmundi Jónssyni, forstöðumanni Byrgisins. Ég leitaði því þáttinn uppi á alnetinu og horfði á þann hluta hans sem lýtur að þessu máli. Þetta var ansi truflandi allt saman, sérstaklega myndsímamyndskeiðið þar sem maðurinn er að perrast, einhverra hluta vegna hálfpartinn á sænsku. Það er nokkuð sem mun seint líða mér úr minni, því miður. Mér þótti skrýtið að hann hafi ekki verið spurður út í myndskeiðið í viðtali, enda er það sterkasta sönnunargagnið. Kannski var hann ‘yfirheyrður’ áður en það barst …

Ég skil annars vel það sjónarmið að umfjöllunin hafi verið einhliða. Það er ekki margt jákvætt sem stendur eftir að áhorfi á þáttinn loknu, nema þá helst það, sem tekið er fram í þættinum, að Guðmundur hefur náð miklum og góðum árangri í að bjarga langt leiddum fíklum upp úr ræsinu. Það má hann eiga, og líka það að hann er auðvitað saklaus uns sekt er sönnuð. Ég vil fá að sjá rannsókn á fjármálum Byrgisins í kjölfar þessa, enda er það alvarlegt mál ef upp kemur grunur um að verið sé að misnota fé sem á að fara í meðferðarúrræði. Í besta falli mun slík rannsókn hreinsa Guðmund alla vega af gruni um misferli þar.

Ég vil nefna eitt í lokin, þó ég kunni að hljóma hér eins og argasti rógberi sem grípur tækifærið til að sparka í liggjandi mann. Ég nefni þetta aðallega af því að mér þykir það skondið, og umfjöllunin um manninn minnti mig á það. Málið er sum sé að ég hef séð Guðmund koma fram á hini stórmerkilegu sjónvarpsstöð Omega, sem ég horfi við og við á mér til skemmtunar. Margt af því sem hann hefur sagt það hefur verið ákaflega skrautlegt, svo ekki sé minna sagt. Það sem helst stendur upp úr er prédikun þar sem hann fullyrti að Kína væri Gog eða Magog (ég man ekki hvort), og að sú þjóð ætti eftir að ‘fara upp með Efratfljóti’ og ráðast á Ísrael. Eftir því sem mig minnir þá gaf hann engan rökstuðning fyrir þessari fullyrðingu aðra en þá að ‘Kína dýrkar drekann – þar er dreki í öllu’. Drekinn er þá auðvitað Dýrið. Að ýmsum krassandi prédikunum sem ég hef séð á þessar stöð, þá er þessi sú allra svaðalegasta.

Já, það er margt skrýtið í kýrhausnum.

Klór

Algrímur er óvenjugjarn á að klóra þessa dagana. Auðvitað er þetta allt bara leikur fyrir honum, en ég hef nokkrum sinnum æpt upp yfir mig þegar ég hef verið að leika við hann og hann hefur farið ómjúkum loppum um hendina á mér. Ég æpti þó ekki þegar hann danglaði í nefið á mér fyrr í dag, en það blæddi alveg merkilega mikið út frá því. Uss.

Ég fór á tónleika með betri helmingnum í gær. Þar flutti hljómsveitin Dúndurfréttir nokkur lög Pink Floyd í um það bil tvo klukkutíma. Þetta voru fantagóðir tónleikar; spilagleði þeirra félaga er gríðarleg, og ekki er tæknileg færni þeirra síðri. Þeir hafa stundað þetta lengi og hafa augljóslega slípað settið sitt í klessu. Gaman var að heyra ýmis lög sem ég sem viðvaningur í Pink Floyd fræðum vissi ekki einu sinni að voru til. Þar ber helst að nefna hið epíska dogs af plötunni Animals, sem var 17 mínútur og þrjár sekúndur í flutningi, eins og Pétur Örn Guðmundsson hljómborðsleikari og söngfugl mældi það. Svei mér þá ef maður fer ekki loksins að kafa almennilega í þessa sveit. Pink Floyd meina ég þá.

Jæja, ætli ég þurfi ekki að fara að huga að því að kaupa jólagjafir bráðum?

Í fyrra var mjög einfalt að kaupa gjafir – ég fór í vinnuferð til Skotlands rétt fyrir jólin með viðkomu í London á leiðinni til baka, þar sem ég hafði nægan tíma til að spreða aurum á Oxford Street. Ég keypti einfaldlega hrúgur af DVD-myndum og bókum sem ég deildi á fólk. Ég sé ekki fram á að það muni endurtaka sig þetta árið, þannig að þetta verður hugsanlega vandasamara núna. Minna úrval og hærra verð …

Ekki bætir úr skák að ég á alveg nógu erfitt með að velja hluti handa sjálfum mér; hvað þá handa öðrum.
Til að einfalda mér lífið hef ég ákveðið að bjóða lesendum mínum einstakt tækifæri: Þið getið gefið mér hugmyndir að því hvað ég á að gefa ykkur, sem ég tek síðan til umhugsunar. Auðvitað set ég fyrirvara á verð og fýsileika þess að útvega vöruna í tæka tíð.

Skrifið nú eins og vindurinn!

P.S. Sjálfur hef ég engar sérstakar óskir um gjafir, en áðurnefndan varning (DVD-myndir og bækur) þigg ég venjulega með miklum þökkum.