Jæja, þá er orðið nokkuð ljóst að fjármál Byrgisins voru í algjöru rugli. Hvort það var vísvitandi eða herfileg og ófyrirgefanleg mistök gildir einu; þetta var alls í ekki lagi. Sú staðreynd liggur fyrir að skattfé var dælt í starfsemi sem var í fjárhagslegum molum, og engra spurninga spurt.
Hvað segja svo pólitíkusarnir við þessu? Að þetta hafi verið einsdæmi, og að engin ástæða sé til að gera almenna úttekt á fjármálum meðferðaraðila. Að það sé ekkert að kerfinu.
Hvurs lags andskotans bull er það eiginlega? Hundruðir milljóna af skattfé runnu í einhvers konar botnlausa hýt; til aðila sem kunnu augljóslega ekkert með féð að fara og skiluðu ekki einu sinni bókhaldi. Þeir hefðu eins getað brennt þessa peninga – pólitíkusarnir hefðu ekkert veður fengið af því. Nema þá kannski helst ef þeir færu að finna undarlega lykt í loftinu.
Hljómar þetta eins og að kerfið sé í fullkomnu lagi? Að það þurfi ekkert að bregðast við að öðru leyti en því að stöðva starfsemi þessa ‘fráviks’?
Það er eins og menn hafi einfaldlega hugsað: ‘Við erum að setja x milljónir í meðferðarmál. Okkur er alveg nákvæmlega sama hvernig þeim er varið, svo lengi sem við getum sagt kjósendum okkar þessa upphæð. Það er algjör óþarfi að hafa eitthvert eftirlit með þessum fjármunum, það er bara óþarfa kostnaður og fyrirhöfn.’
Ég vil sjá allsherjarúttekt á bókhaldi og annarri starfsemi meðferðaraðila og allra annarra líknarfélaga sem þiggja skattfé. Þetta eru að hluta til mínir peningar, og ég vil vita að þeir renni í góð málefni, en ekki í eitthvað kjaftæði. Síðan vil ég sjá almennilegt eftirlit með slíkri starfsemi og skýrar reglur þar að lútandi. Hér er bákn sem ekki er hægt að segja að sé óþarft, þó svo að slíkt virðist viðhorf ráðamanna vera. Ég er viss um að undir þetta geta flestir aðrir skattgreiðendur tekið.
Mér er spurn: Hvaða tryggingu höfum við eiginlega, að öllu óbreyttu, fyrir því að aðrir meðferðaraðilar fari rétt með það fé sem þeim er treyst fyrir, og að þannig muni það verða um ókomna framtíð?
Ríkisvaldið er ekki laust undan ábyrgð á skattfé þó að það sé búið að koma því í hendur þriðja aðila. Svo einfalt er það.