Steini Plastik benti mér á þetta:

Svo skemmtilega vill til að ég var einmitt að byrja að kynna mér Ruby í gær, og get því talið sjálfan mig æðri öllum öðrum vefforriturum.

Annars finnst mér þetta skema ekki taka nægilega vel á þeim tilfellum þegar fólk forritar í fleiri en einu máli. Er það þá með minnimáttarkennd og mikilmennskubrjálæði í senn?

Í gærkvöldi fór ég á þorrablót í boði verkefnisstjórans míns. Merkilegt nokk þá gat ég komið ýmsu þarna ofan í mig. Meira að segja hákarlinn var vel ætur, alla vega með brennívíni til að skola honum niður. Ég sem hafði verið þeirrar skoðunar alllengi að þetta væri óætt ógeð eftir að ég lenti í slæmri reynslu í æsku þar sem ég kúgaðist við að finna lyktina af þessu.

Alltaf er víst hægt að skipta um skoðun.

Ég er að horfa á Kastljósið. Þar er verið að ræða ágreining sem upp er kominn milli þeirra sem ætla að standa að framboði öryrkja og aldraðra á næsta ári. Ég verð að segja að ég botna hvorki upp né niður í ástæðum þessa ágreinings. Þetta er afskaplega skrýtið allt saman. Í fyrsta lagi á ég bágt með að sjá tilganginn með þessu framboði, þó svo að auðvitað sé bráðnauðsynlegt að gera miklar úrbætur í kjörum þessara tveggja hópa. Hins vegar tel ég sérframboð af þessu tagi fyrirfram dauðadæmt; það er afar hæpið að eitt slíkt framboð næði nægilegu fylgi til að koma fólki inn, hvað þá ef þau verða tvö. Einu áhrifin verða þau að þessi framboð taka atkvæði frá hinum óánægðu, sem hefðu annars án efa kosið einhvern af núverandi stjórnarandstöðuflokkum. Mér þykir klofningurinn þar alveg nógu mikill og leiðinlegur þar fyrir; fleiri flokkar þýðir lélegri nýtingu atkvæða. Þess fyrir utan skil ég ekki allan þennan gríðarlega málefnaágreining hjá stjórnarandstöðunni, þar sem ég held að grundvallaratriðin séu augljós og einföld.

Ætli þetta sé ekki bara sú sama gamla saga að allir vilja reyna að komast í feit ráðherraembætti, og þar sem það er takmörkuð auðlind, þá vill fólk helst vera ofarlega á listum til að eiga möguleika á slíku. *Andvarp*

Úbbs – Ísland er ekki á þessum lista. Eru þetta ekki enn ein rökin fyrir því að taka upp evru?

Almennt séð sýnist mér vera ansi erfitt að stunda alþjóðleg viðskipti á alnetinu ef maður er Íslendingur. Miðað við hversu evran kemur oft fyrir í ofangreindum lista, þá grunar mig að eina ástæðan fyrir því að Ísland er ekki þarna sé sú að hér er notaður gjaldmiðill sem enginn nema við, þessar 300 þúsund hræður, könnumst nokkuð við.

Svo maður tali nú ekki um að algjörlega ómögulegt virðist vera að fá tekjur í gegnum Paypal hérlendis (Ísland er þarna rétt undir miðju, í hópi örfárra landa þar sem einungis er hægt að fá greitt inn á bandarískan bankareikning). Reyndar held ég að þetta skýrist alla vega af einhverju leyti af því að Paypal hefur orð á sér að sitja á peningum eins og dreki á gulli og vera gríðarlega strangt og smámunasamt þegar kemur að því að greiða þá út, samanber til að mynda þessa frétt. Reyndar gæti aðalástæða reglugerðarugls á borð við þetta vel verið sú að Bandaríkin eru farin að líkjast lögregluveldi sífellt meira – ég held að þar sé orðið ekki hægt að taka út peninga fyrir kaffibolla án þess að gefa upp DNA-sýni. Annars, grínlaust, þá þurfti ég tvisvar að gefa upp fingraför þegar ég fór þangað í sumar; í fyrra skiptið við komuna til landsins, og í annað skipti þegar ég þurfti að taka út peninga út á kreditkortið mitt í banka þar sem debetkortið mitt var runnið út.

Nú er þetta orðinn mun almennari pistill en ætlunin var í upphafi. Ætli það sé ekki bara best að klikkja út á þeim mjög svo almennu nótum að segja að margt er skrýtið í kýrhausnum?

Slimcat

Algrímur er allt í einu orðinn miklu léttari. Hann var einhverra hluta vegna orðinn ansi mikill um sig, og eins og Furða benti á þá var hann það massífur að hann var ekki einu sinni með háls. Núna er hann hins vegar það léttur að ég finn hann ekki einu sinni síga í þegar hann liggur á bringunni á mér.

Og já, ég keypti líka búr handa honum í dag sem honum leist strax vel á. Það var alveg nauðsynlegt að gefa honum fast bæli sem hann getur verið í þegar hann vill slappa af.

Bundentagen

Í gær var bóndadagur. Það þýddi að ég fékk rós í vinnunni frá konunum í upplýsingatæknisviði, og síðan báru tvær konur í mig mat og drykk um kvöldið. Reyndar deildi ég þeim notalegheitum með öðrum bónda, en þetta var ekki síður notalegra fyrir það.

Mikið er gaman að svona dögum. Meira af þessu takk!

Jæja, þá er orðið nokkuð ljóst að fjármál Byrgisins voru í algjöru rugli. Hvort það var vísvitandi eða herfileg og ófyrirgefanleg mistök gildir einu; þetta var alls í ekki lagi. Sú staðreynd liggur fyrir að skattfé var dælt í starfsemi sem var í fjárhagslegum molum, og engra spurninga spurt.

Hvað segja svo pólitíkusarnir við þessu? Að þetta hafi verið einsdæmi, og að engin ástæða sé til að gera almenna úttekt á fjármálum meðferðaraðila. Að það sé ekkert að kerfinu.

Hvurs lags andskotans bull er það eiginlega? Hundruðir milljóna af skattfé runnu í einhvers konar botnlausa hýt; til aðila sem kunnu augljóslega ekkert með féð að fara og skiluðu ekki einu sinni bókhaldi. Þeir hefðu eins getað brennt þessa peninga – pólitíkusarnir hefðu ekkert veður fengið af því. Nema þá kannski helst ef þeir færu að finna undarlega lykt í loftinu.

Hljómar þetta eins og að kerfið sé í fullkomnu lagi? Að það þurfi ekkert að bregðast við að öðru leyti en því að stöðva starfsemi þessa ‘fráviks’?

Það er eins og menn hafi einfaldlega hugsað: ‘Við erum að setja x milljónir í meðferðarmál. Okkur er alveg nákvæmlega sama hvernig þeim er varið, svo lengi sem við getum sagt kjósendum okkar þessa upphæð. Það er algjör óþarfi að hafa eitthvert eftirlit með þessum fjármunum, það er bara óþarfa kostnaður og fyrirhöfn.’

Ég vil sjá allsherjarúttekt á bókhaldi og annarri starfsemi meðferðaraðila og allra annarra líknarfélaga sem þiggja skattfé. Þetta eru að hluta til mínir peningar, og ég vil vita að þeir renni í góð málefni, en ekki í eitthvað kjaftæði. Síðan vil ég sjá almennilegt eftirlit með slíkri starfsemi og skýrar reglur þar að lútandi. Hér er bákn sem ekki er hægt að segja að sé óþarft, þó svo að slíkt virðist viðhorf ráðamanna vera. Ég er viss um að undir þetta geta flestir aðrir skattgreiðendur tekið.

Mér er spurn: Hvaða tryggingu höfum við eiginlega, að öllu óbreyttu, fyrir því að aðrir meðferðaraðilar fari rétt með það fé sem þeim er treyst fyrir, og að þannig muni það verða um ókomna framtíð?

Ríkisvaldið er ekki laust undan ábyrgð á skattfé þó að það sé búið að koma því í hendur þriðja aðila. Svo einfalt er það.

… var fín. Föstudagurinn var einstaklega afslappaður, enda fór ég snemma á fætur á laugardagsmorgni til að mæta á langan starfsdag í vinnunni. Hann var áhugaverður; þarna fluttu ýmsir stjórnendur og annað starfsfólk áhugaverða fyrirlestra um starfsemi upplýsingatæknisviðsins. Svo mætti Jón Gnarr og hélt hugvekju sem var bæði fyndin og fræðandi. Inntakið í henni var að það er gott að gefa af sér. Það get ég tekið heilshugar undir.

Starfsdeginum lauk með mat og drykkju í Bláa lóninu, en ég þurfti að sleppa því til að vera viðstaddur afmælisveislu Önnu, sem hafði auðvitað forgang. Þar prófaði ég Singstar í fyrsta skipti og fékk það staðfest endanlega að ég kann ekki að syngja. O jæja. Víst lítið við því að gera. Flutningur minn á The Final Countdown mældist reyndar sæmilegur, þó að hinar söngtilraunir mínar hafi verið lakari að mati Singstar.

Að teitinu loknu héldum við í bæinn en stöldruðum ekki lengi við þar. Mér finnst miklu skemmtilegra heima hjá mér en þar á þvælingi þessa dagana. Ætli ég sé ekki bara farinn að reskjast?

Your Social Dysfunction:
Schizotypal

You display social deficits and oddities of thinking. Your perception and communication are similar to those of a schizophrenic.

Take this quiz at QuizGalaxy.com

Please note that we aren’t, nor do we claim to be, psychologists. This quiz is for fun and entertainment only. Try not to freak out about your results.

Ég held að sú staðreynd að ég er að taka þetta próf í miðju teiti hljóti að renna enn frekari stoðum undir þessar niðurstöður. 😛