Ég var að uppgötva að ég get stofnað reikninga í netbankanum mínum. Þetta er víst ný virkni. Ég nýtti mér þetta til að stofna verðtryggðan sparnaðarreikning með löngum binditíma – er ég ekki skynsamur? Þá er bara að sjá hvernig ég stend mig í að leggja inn.

Mér er bara farið að þykja helvíti vænt um þennan netbanka, enda líklega eðlilegt þar sem ég á smávegis í honum núna.

Hann á bara eftir að verða betri; því get ég lofað.

Ég mun kjósa Samfylkinguna í vor. Ég íhugaði á tímabili að kjósa hin Vinstri grænu, þar sem þaðan hefur margt gott komið undanfarið, en á mig runnu sko aldeilis tvær grímur um síðustu helgi – þær hafa ekki horfið enn og gera það varla í bráð.

Vinstri græn virðast vera einum of stjórnsamur og ófrjálslyndur flokkur fyrir minn smekk … þó markmið þeirra séu göfug í hið heila þykir mér aðferðirnar sem þau leggja til í mörgum tilfellum allt of róttækar og óraunhæfar. Þetta á sérstaklega við tillögur þeirra í kvenfrelsismálum, sem meira að segja mörgum konum sem ég þekki þykir glapræði. Það ætti að segja sitthvað um gæði þeirra. Tillagnanna þá, ekki téðra kvenna.

Það auðveldar líka valið allverulega að mamma er í framboði fyrir Samfylkinguna, og það meira að segja í mínu kjördæmi.

Gott að þetta er komið á hreint.

Guðni Ágústsson landbúnaðráðherra lýsti því yfir nýverið að bandarísk yfirvöld hafi tekið einhliða ákvörðun um að setja Ísland á lista hinna staðföstu þjóða. Ég ætlaði að leita að þessari frétt á netinu en fann hana hvergi, þannig að ég neyðist víst til að skrifa eftir minni. Ég vona bara að mig hafi ekki dreymt þetta.

Þrátt fyrir að aðrir, svo sem Sigurður Kári Kristjánsson, hafi blásið á þessi ummæli Guðna er ég sannfærður um að þetta er rétt. Ég tel næsta víst að yfirvöldin í BNA hafi aldrei borið það undir hérlend yfirvöld hvort þau vildu láta birta ‘Iceland’ á þessum lista, eða þá yfir höfuð haft fyrir því að láta vita af því að til stæði að birta slíkan lista. Ég held að þetta hafi átt við um mörg þau lönd sem þar birtust, enda eru Bandaríkjamenn með herstöðvar í merkilega mörgum þeirra, og því líklegt að þeir hafi talið sér óhætt að nota nöfn þeirra í þessum tilgangi. Könunum þótti mjög mikilvægt að skapa þá ímynd að breið alþjóðleg samstaða væri um innrás í Írak, og þá skipti auðvitað öllu máli að koma sem flestum löndum á listann, með öllum nýtilegum brögðum.

Auðvitað vill enginn hérlendur pólitíkus viðurkenna að svona hafi þetta gerst. Íslensk stjórnvöld litu þá út eins og valdalaus og vanhæf peð í blekkingaleik Kananna, sem ég held raunar að þau hafi verið alla þá tíð sem Könunum hætti að skipta það máli hvort þeir væru með herstöð hér eða ekki. Guðni fær því plús í kladdann fyrir að hafa haft kjark til að segja frá þessu. Þetta er nefnilega nokkuð sem ég hafði ímyndað mér að væri mögulegt, en vildi engu að síður ekki trúa, sérstaklega þar sem enginn hafði sagt það áður. Það er illskárra að telja að Davíð og Halldór hafi tekið ákvörðun um þetta einir en að trúa því að enginn Íslendingur hafi nokkuð haft um það að segja að nafn Íslands var notað í þessum ljóta tilgangi.

Mig langar í lokin til að taka aðeins fyrir það sem Sigurður Kári sagði, þó ég verði enn og aftur að notast við minni mitt eingöngu. Ég man eftir tvennu: Í fyrsta lagi sagði hann að fjölmörg önnur lýðræðisríki hafi verið á þessum lista, og í öðru lagi sagði hann að deila mætti um hvort þær upplýsingar sem lágu fyrir hafi verið réttar. Fyrri staðhæfingin er ótrúlega grátbrosleg í ljósi þess að hér á Íslandi var nákvæmlega ekkert lýðræðislegt við það ferli sem leiddi til þess að Ísland birtist á listanum; því getur enginn neitað. Svo má ekki gleyma því að um 80% þjóðarinnar voru mótfallin innrás í Írak. Merkilegt að sú staðreynd hefur aldrei verið rædd af þeim sem hér hafa völdin. Nei, reyndar ekki – það hefur aldrei skipt þá sérlega miklu máli hvað meirihluti þjóðarinnar vill. Varðandi síðari staðhæfinguna þá er hún í besta falli kjánaleg, og í versta falli gríðarlega heimskuleg. Deila má um hvort upplýsingarnar hafi verið réttar?? Þetta bull hefði kannski virkað fyrir tveimur árum, en núna er orðið svo sorglega ljóst að nánast ekkert af því sem Kanarnir héldu fram í aðdraganda innrásarinnar hélt vatni. Alveg hreint ótrúlegt að enn virðist þörf á því að ræða það.

Þá er ljóst að ekkert verður af ‘klámráðstefnunni’.

Hér er skemmtileg greining á því hvernig fólk skiptist í hópa í afstöðu sinni í þessu öllu saman; hún varð mér tilefni til vangaveltna sem urðu loks að þessari bloggfærslu.

Mér þótti ekki síst athyglisvert að sjá hvernig fólk virðist skiptast nánast undantekningalaust í tvo andstæða hópa í afstöðu sinni til kláms almennt.

Í öðrum hópnum er fólk sem sér nákvæmlega ekkert athugavert við það og fullyrðir að allir sem leika í klámi eru vel launaðir og hamingjusamir í starfi.

Í hinum er fólk sem finnur þessum bransa allt til foráttu og segir hann órjúfanlega tengdan mansali, vændi, og alls konar mannlegri eymd.

Ég held að báðir hóparnir hafi sitthvað til síns máls, og leiðinlegt er að sjá hversu óhagganlegir margir eru í sínum skotgröfum. Sérstaklega leiðinlegt er talið um ‘feminasista’ sem virðist vera grundvallað í algjörum misskilningi og ofsóknarbrjálæði – allt of margir taka svona umræðu þannig að meiningin sé að sverta allt karlkynið; að feminismi grundvallist á karlahatri. Auðvitað eru þetta í langflestum tilfellum karlar, oftast ungir hugsjónamenn. Það er nefnilega svo afskaplega auðvelt fyrir okkur að lifa bara í okkar skýjaborgum þar sem allir eru algjörlega jafnir og allt fer fram á skynsemisgrundvelli. Öllu ‘væli’ um ‘eymdina’ sem fylgir vændi, klámi, og öllu því getum við hæglega vísað á bug sem ’tilfinningarökum’. Þetta er bara einfaldlega ekki neitt sem við þekkjum til. Okkar reynsluheimur er tiltölulega áfallalaus karlaklúbbur, svo það sé bara sagt hreint út.

Maður þarf hins vegar ekkert að leita langt til að fá innsýn í annan reynsluheim. Maður þarf bara einfaldlega að þekkja konur. Þá á ég við að þekkja þær, sem alvöru vini. Þá kemst maður að því að það er nefnilega oft á tíðum ekkert auðvelt að vera kona. Svo mjög vægt dæmi sé tekið, þá er það ekki beinlínis tekið út með sældinni að bara vinna í þjónustustarfi ef maður er aðlaðandi kvenmaður – þá þarf maður að finna fyrir ósæmilegum aðgangi alls kyns ógeðslegra karla. Þetta eru ekki tilfinningarök; þetta er staðreynd. Ég get nefnt mörg fleiri dæmi, en ég hef ekki beinlínis lyst á því. NOTA BENE ATH: Með þessu er ég EKKI, endurtek EKKI, að dæma alla karlmenn, heldur bara þá sem hegða sér á þennan hátt. Ótrúlegt að taka þurfi slíkt fram, en ég held að ég neyðist engu að síður til þess.

Ég neita því ekki að ég er hugsjónamaður sem lítur á kynin sem algjörlega jöfn og metur fólk fyrst og fremst á einstaklingsgrundvelli. En að halda því fram að þjóðfélagið virki þannig almennt séð er ekkert annað en veruleikafirring. Sem feminista dreymir mig um að heimurinn verði þannig einn daginn, en hann er einfaldlega ekki þannig núna. Feminisminn er enn til vegna þess að enn er til vanvirðing gagnvart konum.

Að öllu þessu sögðu segi ég samt sem áður að það var vanhugsað að loka á klámframleiðendurna, því það eru svona yfirgripsmiklar öfgar sem gefa feminismanum slæma ímynd. Ég þekki marga sem eru sammála mér í þessu … þar með talið konur.

Í morgun mætti ég til vinnu, eins og oft áður, og fór í gegnum morgunrútínuna. Eitt af því sem felst í henni er innskráning á MSN. Windows Live Messenger (eftirleiðis WLM) vildi hins vegar ekki leyfa mér það í þetta skiptið, heldur fékk ég þessi skilaboð í fésið:

Gott og vel; ég valdi Yes, enda langaði mig til að komast inn á blessað MSN-ið. Þá birtist þessi gluggi:

Svona hélst hann í drykklanga stund án þess að nokkuð gerðist – það var sumsé ljóst að eitthvað var að.

Mikið rétt; að lokum var mér birtur þessi mjög svo hressandi gluggi:

Á þessum tímapunkti var ég orðinn nokkuð pirraður á þessari tímasóun, en smellti á Yes þar sem ég taldi að þar með yrði mér vísað á síðu þar sem ég gæti náð í WLM og sett upp handvirkt. Svo reyndist hins vegar ekki vera. Þvert á móti var mér vísað á þessa ljótu og leiðu síðu. Þarna má ná í alls konar skemmtilegt drasl, en WLM sjálfur er ekki í þeim breiða hópi. Nema auðvitað mann langi í farsímaútgáfu af honum.

Eftir að ég hafði fullreynt að ekki var hægt að finna WLM neins staðar á þessari síðu, né út frá henni, prófaði ég að googla eftir honum. Skemmtilegt nokk þá var mér aftur vísað á sömu síðu. Frábært.

Ég var því kominn í þá stöðu að ég var með útgáfu af WLM sem virkaði fullkomlega vel, en mér var meinað að nota hana af því að ný útgáfa átti að vera komin út. Hins vegar gat ég hvergi náð í þessa blessuðu nýju útgáfu.

Heitir svona staða ekki Catch-22?

Sem betur fer vissi ég af Gaim. Það er gott að eiga valkosti.

Það getur verið gaman að velta sér upp úr samsæriskenningum – svo lengi sem maður gengur ekki of langt í því. Slíkt er ekki gott fyrir geðheilsuna.

Að því sögðu þá sá ég um daginn á alnetinu ákveðnar staðreyndir sem mér þótti sérlega áhugaverðar.

Þið munið kannski eftir því þegar Morgunblaðið birti nöfn og andlit fimm hæstaréttardómara, ásamt tilkynningu þess efnis að þeir höfðu mildað dóm yfir kynferðisbrotamanni.

Þetta voru þeir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.

Hverjir voru það síðan aftur sem sýknuðu 365-prentmiðla ehf. og Kára Jónasson af kæru Jónínu Benediksdóttur í Hæstarétti?

Jú, þeir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.

Tilviljun? Það gæti vel verið, en þetta er engu að síður ansi merkilegt.

Nú hefur það líklega farið framhjá fáum að til stendur að hópur fólks sem starfar í klámbransanum haldi ráðstefnu á Hótel Sögu. Nógu mikið hefur alla vega verið skrifað um þessi tíðindi á alnetinu.

Eitt af þeim sjónarmiðum sem kemur oft fram er að þar sem klám er soralegt og ógeðfellt fyrirbæri, þá „eigum við Íslendingar“ ekki að leyfa þessu fólki að koma hingað … eða eitthvað í þá veru. Eins vel og ég skil það sjónarmið að þykja klám ekki skemmtilegasta né mest gefandi fyrirbæri í heimi, þá á ég bágt með að skilja hver það er nákvæmlega sem á að banna þessa ráðstefnu, og hvaða gríðarlegur skaði er gerður með því að hún verði haldin hér. Við getum vel haft okkar skoðanir á þessu fólki og þeim bransa sem það starfar í, en því miður þá er það einfaldlega ekki okkar að segja hverjir koma hingað til að hittast, svo lengi sem það er ekki að brjóta lög. Í þessu tilfelli er fjarri lagi að svo sé – skoðið bara dagskrána. Fyrir utan ferðina á strípibúlluna lítur þetta út eins og ósköp venjuleg túristadagskrá; meira að segja Gullfoss og Geysir og Bláa lónið eru innifalin.

Í stuttu máli sagt: Einhvers staðar verða vondir að vera túristar. Og ég er ekki það mikill ‘Íslendingur’ að það fari eitthvað sérstaklega illa í mig að þetta fólk verði statt stutt frá mér í nokkra daga. Það er ekki eins og ég líti á það sem saurgun á ættjörðinni, né heldur þykir mér það vera einhver stuðningsyfirlýsing Íslendinga við klámbransann. Þetta fólk mun koma, og svo fer það, eins og hverjir aðrir gestir.

En hvað segiði – af hverju hefur enginn talað um að efna til mótmælastöðu fyrir utan hótelið? Ég hefði ekkert að setja út á það … endilega láta þetta fólk heyra hvaða álits það nýtur í stað þess að bölsóttast alltaf á netinu.

Ég myndi skrifa undir þetta ef um væri að ræða alvöru undirskriftasöfnun til að algjörlega losna við fyrirbærið Sylvíu Nótt, en ekki bjánalegt ‘PR-stunt’. Ég viðurkenni mjög fúslega að mér fannst hún hressandi og ansi fyndin í fyrstu, en nú er þetta einfaldlega löngu hætt að vera fyndið. Mér finnst að Ágústa ætti að gera eins og meistari Cohen (leikarinn, ekki söngvarinn) og koma sér upp nokkrum persónum í viðbót. Það myndi blása nýju lífi í þær glæður sem bálið sem Sylvía Nótt kveikti er því miður orðið.

Svo er eitt – ég sá sjónvarpsauglýsingu um daginn þar sem hvatt var til mótmæla gegn þættinum, og þar stóð Árni nokkur Johnsen keikur við hlið Sylvíu. Þetta minnti mig óneitanlega á þegar Martha Stewart mætti í þátt Jay Leno ásamt Borat og lét Kasakstanann léttlynda fíflast allsvakalega í sér. Hér eru margar hliðstæður – opinber fígúra sem var sett í steininn fyrir fjárhagslegt misferli kemur fram í sjónvarpi með uppskáldaðri fíflafígúru.

Ætli þeim sé ekki líka báðum vorkunn, þeim Johnsen og Stewart – einhvern veginn þurfa þau víst að reyna að koma sér í mjúkinn hjá almúganum aftur.

Þá er ég farinn að lifa tvöföldu lífi. Sökum óviðráðanlegra ástæðna stofnaði ég til bloggs á hinum nokkuð sæmilega vef blog.is. Ég geri ekki ráð fyrir að miklar breytingar á blogghögum mínum fylgi í kjölfarið, en ég hef enn ekki alveg ákveðið hvernig fyrirkomulag ég mun hafa á þessu. Það er auðvitað hálfklaufalegt að vera með blogg á tveimur stöðum, en það kemur ekki til greina að ég leggi þetta niður, þar sem það er ‘mitt’.

Þetta kemur allt saman í ljós …

Il Castrati

Algrímur fór í geldingu í gær. Eins og venja er var hann einstaklega máttlaus allan gærdaginn, en í morgun var hann orðinn vel sprækur. Anna tók þó eftir því að hann kom ekki skokkandi til að taka á móti henni þegar hún fór framúr, og hann virðist dálítið afundinn. Auðvitað kemur það betur í ljós með tímanum hvernig honum líður, en ég vona að hann jafni sig nú að fullu.