Ég myndi skrifa undir þetta ef um væri að ræða alvöru undirskriftasöfnun til að algjörlega losna við fyrirbærið Sylvíu Nótt, en ekki bjánalegt ‘PR-stunt’. Ég viðurkenni mjög fúslega að mér fannst hún hressandi og ansi fyndin í fyrstu, en nú er þetta einfaldlega löngu hætt að vera fyndið. Mér finnst að Ágústa ætti að gera eins og meistari Cohen (leikarinn, ekki söngvarinn) og koma sér upp nokkrum persónum í viðbót. Það myndi blása nýju lífi í þær glæður sem bálið sem Sylvía Nótt kveikti er því miður orðið.

Svo er eitt – ég sá sjónvarpsauglýsingu um daginn þar sem hvatt var til mótmæla gegn þættinum, og þar stóð Árni nokkur Johnsen keikur við hlið Sylvíu. Þetta minnti mig óneitanlega á þegar Martha Stewart mætti í þátt Jay Leno ásamt Borat og lét Kasakstanann léttlynda fíflast allsvakalega í sér. Hér eru margar hliðstæður – opinber fígúra sem var sett í steininn fyrir fjárhagslegt misferli kemur fram í sjónvarpi með uppskáldaðri fíflafígúru.

Ætli þeim sé ekki líka báðum vorkunn, þeim Johnsen og Stewart – einhvern veginn þurfa þau víst að reyna að koma sér í mjúkinn hjá almúganum aftur.