Í morgun mætti ég til vinnu, eins og oft áður, og fór í gegnum morgunrútínuna. Eitt af því sem felst í henni er innskráning á MSN. Windows Live Messenger (eftirleiðis WLM) vildi hins vegar ekki leyfa mér það í þetta skiptið, heldur fékk ég þessi skilaboð í fésið:

Gott og vel; ég valdi Yes, enda langaði mig til að komast inn á blessað MSN-ið. Þá birtist þessi gluggi:

Svona hélst hann í drykklanga stund án þess að nokkuð gerðist – það var sumsé ljóst að eitthvað var að.

Mikið rétt; að lokum var mér birtur þessi mjög svo hressandi gluggi:

Á þessum tímapunkti var ég orðinn nokkuð pirraður á þessari tímasóun, en smellti á Yes þar sem ég taldi að þar með yrði mér vísað á síðu þar sem ég gæti náð í WLM og sett upp handvirkt. Svo reyndist hins vegar ekki vera. Þvert á móti var mér vísað á þessa ljótu og leiðu síðu. Þarna má ná í alls konar skemmtilegt drasl, en WLM sjálfur er ekki í þeim breiða hópi. Nema auðvitað mann langi í farsímaútgáfu af honum.

Eftir að ég hafði fullreynt að ekki var hægt að finna WLM neins staðar á þessari síðu, né út frá henni, prófaði ég að googla eftir honum. Skemmtilegt nokk þá var mér aftur vísað á sömu síðu. Frábært.

Ég var því kominn í þá stöðu að ég var með útgáfu af WLM sem virkaði fullkomlega vel, en mér var meinað að nota hana af því að ný útgáfa átti að vera komin út. Hins vegar gat ég hvergi náð í þessa blessuðu nýju útgáfu.

Heitir svona staða ekki Catch-22?

Sem betur fer vissi ég af Gaim. Það er gott að eiga valkosti.