Þá er ljóst að ekkert verður af ‘klámráðstefnunni’.

Hér er skemmtileg greining á því hvernig fólk skiptist í hópa í afstöðu sinni í þessu öllu saman; hún varð mér tilefni til vangaveltna sem urðu loks að þessari bloggfærslu.

Mér þótti ekki síst athyglisvert að sjá hvernig fólk virðist skiptast nánast undantekningalaust í tvo andstæða hópa í afstöðu sinni til kláms almennt.

Í öðrum hópnum er fólk sem sér nákvæmlega ekkert athugavert við það og fullyrðir að allir sem leika í klámi eru vel launaðir og hamingjusamir í starfi.

Í hinum er fólk sem finnur þessum bransa allt til foráttu og segir hann órjúfanlega tengdan mansali, vændi, og alls konar mannlegri eymd.

Ég held að báðir hóparnir hafi sitthvað til síns máls, og leiðinlegt er að sjá hversu óhagganlegir margir eru í sínum skotgröfum. Sérstaklega leiðinlegt er talið um ‘feminasista’ sem virðist vera grundvallað í algjörum misskilningi og ofsóknarbrjálæði – allt of margir taka svona umræðu þannig að meiningin sé að sverta allt karlkynið; að feminismi grundvallist á karlahatri. Auðvitað eru þetta í langflestum tilfellum karlar, oftast ungir hugsjónamenn. Það er nefnilega svo afskaplega auðvelt fyrir okkur að lifa bara í okkar skýjaborgum þar sem allir eru algjörlega jafnir og allt fer fram á skynsemisgrundvelli. Öllu ‘væli’ um ‘eymdina’ sem fylgir vændi, klámi, og öllu því getum við hæglega vísað á bug sem ’tilfinningarökum’. Þetta er bara einfaldlega ekki neitt sem við þekkjum til. Okkar reynsluheimur er tiltölulega áfallalaus karlaklúbbur, svo það sé bara sagt hreint út.

Maður þarf hins vegar ekkert að leita langt til að fá innsýn í annan reynsluheim. Maður þarf bara einfaldlega að þekkja konur. Þá á ég við að þekkja þær, sem alvöru vini. Þá kemst maður að því að það er nefnilega oft á tíðum ekkert auðvelt að vera kona. Svo mjög vægt dæmi sé tekið, þá er það ekki beinlínis tekið út með sældinni að bara vinna í þjónustustarfi ef maður er aðlaðandi kvenmaður – þá þarf maður að finna fyrir ósæmilegum aðgangi alls kyns ógeðslegra karla. Þetta eru ekki tilfinningarök; þetta er staðreynd. Ég get nefnt mörg fleiri dæmi, en ég hef ekki beinlínis lyst á því. NOTA BENE ATH: Með þessu er ég EKKI, endurtek EKKI, að dæma alla karlmenn, heldur bara þá sem hegða sér á þennan hátt. Ótrúlegt að taka þurfi slíkt fram, en ég held að ég neyðist engu að síður til þess.

Ég neita því ekki að ég er hugsjónamaður sem lítur á kynin sem algjörlega jöfn og metur fólk fyrst og fremst á einstaklingsgrundvelli. En að halda því fram að þjóðfélagið virki þannig almennt séð er ekkert annað en veruleikafirring. Sem feminista dreymir mig um að heimurinn verði þannig einn daginn, en hann er einfaldlega ekki þannig núna. Feminisminn er enn til vegna þess að enn er til vanvirðing gagnvart konum.

Að öllu þessu sögðu segi ég samt sem áður að það var vanhugsað að loka á klámframleiðendurna, því það eru svona yfirgripsmiklar öfgar sem gefa feminismanum slæma ímynd. Ég þekki marga sem eru sammála mér í þessu … þar með talið konur.