Guðni Ágústsson landbúnaðráðherra lýsti því yfir nýverið að bandarísk yfirvöld hafi tekið einhliða ákvörðun um að setja Ísland á lista hinna staðföstu þjóða. Ég ætlaði að leita að þessari frétt á netinu en fann hana hvergi, þannig að ég neyðist víst til að skrifa eftir minni. Ég vona bara að mig hafi ekki dreymt þetta.

Þrátt fyrir að aðrir, svo sem Sigurður Kári Kristjánsson, hafi blásið á þessi ummæli Guðna er ég sannfærður um að þetta er rétt. Ég tel næsta víst að yfirvöldin í BNA hafi aldrei borið það undir hérlend yfirvöld hvort þau vildu láta birta ‘Iceland’ á þessum lista, eða þá yfir höfuð haft fyrir því að láta vita af því að til stæði að birta slíkan lista. Ég held að þetta hafi átt við um mörg þau lönd sem þar birtust, enda eru Bandaríkjamenn með herstöðvar í merkilega mörgum þeirra, og því líklegt að þeir hafi talið sér óhætt að nota nöfn þeirra í þessum tilgangi. Könunum þótti mjög mikilvægt að skapa þá ímynd að breið alþjóðleg samstaða væri um innrás í Írak, og þá skipti auðvitað öllu máli að koma sem flestum löndum á listann, með öllum nýtilegum brögðum.

Auðvitað vill enginn hérlendur pólitíkus viðurkenna að svona hafi þetta gerst. Íslensk stjórnvöld litu þá út eins og valdalaus og vanhæf peð í blekkingaleik Kananna, sem ég held raunar að þau hafi verið alla þá tíð sem Könunum hætti að skipta það máli hvort þeir væru með herstöð hér eða ekki. Guðni fær því plús í kladdann fyrir að hafa haft kjark til að segja frá þessu. Þetta er nefnilega nokkuð sem ég hafði ímyndað mér að væri mögulegt, en vildi engu að síður ekki trúa, sérstaklega þar sem enginn hafði sagt það áður. Það er illskárra að telja að Davíð og Halldór hafi tekið ákvörðun um þetta einir en að trúa því að enginn Íslendingur hafi nokkuð haft um það að segja að nafn Íslands var notað í þessum ljóta tilgangi.

Mig langar í lokin til að taka aðeins fyrir það sem Sigurður Kári sagði, þó ég verði enn og aftur að notast við minni mitt eingöngu. Ég man eftir tvennu: Í fyrsta lagi sagði hann að fjölmörg önnur lýðræðisríki hafi verið á þessum lista, og í öðru lagi sagði hann að deila mætti um hvort þær upplýsingar sem lágu fyrir hafi verið réttar. Fyrri staðhæfingin er ótrúlega grátbrosleg í ljósi þess að hér á Íslandi var nákvæmlega ekkert lýðræðislegt við það ferli sem leiddi til þess að Ísland birtist á listanum; því getur enginn neitað. Svo má ekki gleyma því að um 80% þjóðarinnar voru mótfallin innrás í Írak. Merkilegt að sú staðreynd hefur aldrei verið rædd af þeim sem hér hafa völdin. Nei, reyndar ekki – það hefur aldrei skipt þá sérlega miklu máli hvað meirihluti þjóðarinnar vill. Varðandi síðari staðhæfinguna þá er hún í besta falli kjánaleg, og í versta falli gríðarlega heimskuleg. Deila má um hvort upplýsingarnar hafi verið réttar?? Þetta bull hefði kannski virkað fyrir tveimur árum, en núna er orðið svo sorglega ljóst að nánast ekkert af því sem Kanarnir héldu fram í aðdraganda innrásarinnar hélt vatni. Alveg hreint ótrúlegt að enn virðist þörf á því að ræða það.