Leg

Við Anna fórum á Leg í gær. Þetta er í sannleika sagt alveg hreint æðisleg sýning – hugmyndaflugið að baki henni er gífurlegt, og öll útfærslan er einstaklega vel heppnuð. Sérstaklega skemmtilegt þótti mér að sjá lítt dulbúinn Guðmund Jónsson þarna. Reyndar sagði hann aldrei ‘ekki stanna’, en hann talaði í einu atriði um að Jesús hefði ekki boðið syndinni í kaffi. Snilld.

Ég fór að sjá myndina hans Gore um daginn. Mikið svakalega var hún fræðandi. Mér finnst maðurinn einfaldlega hafa sýnt fram á það mjög svart á hvítu að gróðurhúsaáhrifin eru mjög raunverulegur vandi sem við verðum að bregðast við hið snarasta. Mér finnst satt best að segja ótrúlegt hvernig sumir geta þráast við í að viðurkenna þennan vanda. Miðað við hversu mikið er í húfi, þá er algjört glapræði að láta sem ekkert sé. Þá er miklu mun betra að hafa vaðið fyrir neðan sig.

Í kjölfar myndarinnar fór ég líka að hugsa um hversu miklu betra það hefði verið ef Gore hefði nú unnið lokasigurinn í kosningunum þarna um árið. Munurinn á honum og apamenninu honum Bush er svo gjörsamlega hrópandi að það er ekki einu sinni fyndið. Ég man mjög vel eftir kosningunum; í kappræðunum þótti mér Gore traustur, rökfastur og yfirvegaður, á meðan Bush var illa máli farinn blábjáni sem kunni ekkert annað en að reyna eftir bestu getu að þyrla því ryki sem var í hausnum á honum yfir aðra. Ég varð svo ótrúlega reiður þegar þetta gerpi vann. Sem betur fer á hann ekki langt eftir – og ég vona mjög svo innilega að einhver með viti taki við af honum. Reyndar þarf ekki mikið þar til  … ég held að órangútan yrði betri forseti en þetta fyrirbæri.

Út vil ek!

Ég setti Algrím upp á gluggasylluna frammi á gangi, og fyrr en varði var hann kominn upp í gluggann og var á leið út um hann. Það hefði ekki verið sérstaklega sniðugt í ljósi þess að ég er á þriðju hæð, en hann var mjög ólmur í komast í gegn; ég þurfti að toga hann í burtu af miklu afli.

Kjánaköttur.

Mér þótti skondið að sjá vitnað í Sigurð Kára Kristjánsson í Blaðinu í morgun, þar sem hann var að barma sér yfir því að frumvarp um frjálsa sölu léttvíns og bjórs skuli ekki hafa náð í gegnum Alþingi. Ég er í sjálfu sér alls ekki á móti þeirri hugmynd, enda margt sem mælir með því að afnema einokun ríkisins á sölu þessa göróttu drykkja, sem eru að vissu leyti orðnir að almennri neysluvöru. Léttvín er til að mynda nokkuð sem enginn heilvita maður notar til að hella sig blindfullan – það er fyrst og fremst bragðauki með mat. Að minnsta kosti vona ég að svo sé í flestum tilfellum.

Það sem mér þótti hins vegar skondið er að maður sem hefur orðið uppvís að óábyrgri, stórhættulegri og einfaldlega ólöglegri hegðun undir áhrifum áfengis skuli gerast sérstakur opinber málsvari áfengis. Mér finnst ekkert sérstaklega skrýtið að frumvarpið hafi ekki fengið hljómgrunn á þinginu þegar Sigurður Kári er helsti stuðningsmaður þess. Menn sem leyfa sjálfum sér hættulega mikið frelsi eru ekki trúverðugir málsvarar frelsis.

Strætó

Ég gleymdi því á mánudaginn að ég hafði skilið bílinn eftir um laugardagskvöldið og tók því strætó. Til þess notaði ég miða. Þegar keyptir eru slíkir miðar kostar hver ferð morð fjár; um 227 krónur. Tvær ferðir myndu því kosta um 454 krónur. Miðað við eyðsluna á minni litlu japönsku dollu geri ég ráð fyrir að ég eyði um 100 krónum í að fara fram og til baka úr vinnu, gróflega en þó ríflega áætlað. Kostirnir við bílinn eru síðan margir umfram strætisvagninn; það er fljótlegra að fara á bílnum, og með honum get ég síðan skotist hvert sem ég vil yfir daginn. Slíkt er nánast ómögulegt með strætisvagni, nema maður sé tilbúinn að eyða þeim mun meiri tíma í ferðina.

Með þessu má sjá að algjörlega óhagkvæmt er með öllu að taka strætisvagn. Jafnvel á góðviðrisdegi þegar ég er geri ekki ráð fyrir að þurfa að fara neitt úr vinnunni fyrir lok vinnudagsins hvarflar ekki að mér að taka strætisvagn. Ef strætisvagninn væri raunverulegur kostur fjárhagslega myndi ég líklega taka hann við og við svona til tilbreytingar, og til að spara. En á meðan ég tapa verulega í hvert sinn sem ég tek strætó er það bara ekki inni í myndinni.

Já, ég veit að annar kostur er að kaupa kort, en þó að verðmunurinn milli þeirra og farmiðaspjaldanna sé allverulegur, sé það vel nýtt, eru slík kort þeim mun óhagkvæmari ef maður fer einungis nokkrar ferðir í viku. Stefnan virðist einfaldlega sú að annað hvort eigi fólk að nota strætisvagnanna eða ekki; þeir sem eigi bíl skuli bara gjöra svo vel að nota þá. Alltaf.

Ég fór á árshátíð í gærkvöldi. Langstærstu árshátíð sem ég hef farið á, held ég að óhætt sé að segja. Hún var einstaklega vel heppnuð í alla staði, og svo sátum við Anna meira að segja á borði með pólitíkus. Annar pólitíkus skallaði síðan Önnu í hnakkann síðar um kvöldið á dansgólfinu – sú er meira að segja ráðherra og allt.

Já, þetta var bara assgoti skemmtilegt.

… er algjörlega ömurleg og ósniðug auglýsingaherferð. Af hverju er það svo að allar auglýsingaherferðir fyrir þetta þekktasta vörumerki heims eru sorglega lélegar og heimskulegar?

Andleysi

Hvað er eiginlega að?

Ég hef bara ekkert að segja.

Sama gildir um marga aðra – velflestir bloggarar sem ég þekki hafa verið latir við að skrifa undanfarna daga.

Er kannski búið að setja einhver sljóvgandi lyf í vatnið sem eiga að gera okkur áhugalaus og heilaþvegin svo við kjósum Framsóknarflokkinn í vor?

Nú veit ég ekki … eitthvað er það.

Já, ég keypti nýja þvottavél! Hún er mjög flott; með tölvuskjá og allt. Svo er hægt að setja tímastilli á hana og allt.  Einnig er það mjög mikill kostur að vatnsleiðslan sem fylgdi með henni smellpassar á vatnskranann. Sá sem ég notaði fyrir gömlu þvottavélina passaði nefnilega ekki alveg, þannig að ég þurfti að vefja handklæði utan um samskeytin. Hálfhallærislegt.