Fundinn!

Algrímur er kominn aftur í hús. Ég heyrði í honum mjálma fyrir utan í gærnótt og stökk út, en hann var hvergi sjáanlegur. Fljótlega uppgötvaði ég að hann var inni í bílskúrnum sem er við hliðina á blokkinni. Ég náði honum þaðan út (löng saga), og hann var að vonum mjög glaður að komast heim. Ég held að hann hafi verið þarna inni alveg síðan á laugardaginn, en þá skil ég ekki alveg af hverju ekkert heyrðist í honum áður.

Hann er horaður, greyið, en sem betur fer var til afgangskjúklingur sem nýttist vel sem fyrstu bitarnir í átt í að fita hann upp aftur.

Snilld

Það er ekki oft sem maður skellir upp úr þegar maður er einsamall …

Ég hlustaði á fréttir Stöðvar 2 í bílnum á leiðinni heim úr vinnu í gærkvöldi. Þar var flutt frétt af krökkum sem voru að leika kappa úr fornsögunum. Að sjálfsögðu var tekið viðtal við nokkra þeirra. Þar á meðal var einn gutti sem, aðspurður um álit sitt á Gunnari á Hlíðarenda og  Njáli á Bergþórshvoli, sagði eitthvað á þessa leið:

„Þeir voru ekkert að hanga á skrifstofu yfir tölvu; þeir fóru út og hjuggu menn!“

Fyrri parturinn var sagður í hálfgerðum hneykslunartón, en seinni af þeim mun meiri ákafa. Óborganlegt.

Advanced Global Personality Test Results

Extraversion |||||||||| 40%
Stability |||||||||||||||| 70%
Orderliness |||||||||||||||||| 76%
Accommodation |||||||||||||||| 63%
Interdependence |||||||||||||||||||| 83%
Intellectual |||||||||||||||||||| 90%
Mystical |||| 16%
Artistic |||||| 23%
Religious || 10%
Hedonism |||||||||||| 50%
Materialism |||||||||||| 43%
Narcissism |||||||||||| 50%
Adventurousness |||| 16%
Work ethic |||||||||||||||| 70%
Self absorbed |||||||||||| 43%
Conflict seeking |||||||||||||||| 70%
Need to dominate |||||| 30%
Romantic |||||||||||| 43%
Avoidant |||||||||||| 43%
Anti-authority |||||| 30%
Wealth |||||||||||| 50%
Dependency |||||| 30%
Change averse |||||||||||||||| 70%
Cautiousness |||||||||||||| 56%
Individuality |||||||||| 36%
Sexuality |||||||||| 36%
Peter pan complex |||||| 23%
Physical security |||||||||||||||||||| 90%
Physical Fitness |||||||||||||||| 64%
Histrionic |||||| 23%
Paranoia |||||| 30%
Vanity |||||||||| 36%
Hypersensitivity |||||| 23%
Indie |||||||||||||||||| 71%

Take Free Advanced Global Personality Test
personality tests by similarminds.com

Gleði

Ég sagði frá því hér í síðasta mánuði að debetkortinu mínu var stolið, og færslur gerðar með því. Þetta reyndust vera um 20.000 krónur alls. Sem betur fer hef ég fengið þetta endurgreitt, en hef ekkert frétt af því hvort hendur hafi verið hafðar í hári ódámsins sem vílaði ekki fyrir sér að nota kortið margoft.

Það er nokkuð ljóst að þeir sem taka við færslum á kortum eru ekkert að gæta að því hvort sá sem greiðir eigi í raun kortið. Þarna hefði án efa nægt að líta einfaldlega á myndina á kortinu. Undirskriftin er hins vegar einungis nýtileg þegar korthafi afneitar færslum, eins og ég þurfti að gera í þessu tilfelli.

Ég held að PIN-númer á kortum væri bara ansi sniðug hugmynd …

Svindl?

Ég hafði lítið að gera í krankleika mínum í dag, þannig að ég horfði bara á myndina <i>The Great Global Warming Swindle</i>. Hún er vönduð, enda gerð af Breta og því ekki við öðru að búast. Þarna eru líka sett fram áhugaverð rök og rætt við fólk sem virðist vita hvað það er að tala um. Á tímabili var ég alveg orðinn tilbúinn að skoða aðeins betur hvort hnattræn hlýnun af mannavöldum sé endilega jafn mikil staðreynd og af er látið.

En svo fór ég að hugsa … og skoða hvernig skrifað hefur verið um myndina. Þá kom í ljós að margt er vafasamt í myndinni. Eitt sem þarf ekki að lesa sér til um til að efast um er sá áróður sem settur er fram að þessi kenning sé notuð til að aftra Afríkuríkjum frá því að iðnvæðast. Þó þetta sé rétt, þá hefur þetta ekkert með trúverðugleika kenningarinnar að gera, og er því, já, hreinn og klár áróður til að höfða til samúðar fólks með þriðja heiminum. Þetta eitt er nóg til að varpa rýrð á myndina í heild, að mínu mati. Annað; nokkrir viðmælandanna eru spurðir hvort þeir hafi fengið fjármagn frá olíufélögum eða öðrum hagsmunaaðilum í skiptum fyrir að hafa þær skoðanir sem þeir setja fram – þessu neita þeir allir. Þetta er hins vegar ekki nema lítill hluti þeirra sem koma fram í myndinni … og rannsóknir á netinu virðast leiða í ljós að margir þeirra sem ekki neita þessu í myndinni eru einmitt vel tengdir inn í olíubransann.

Vísindahliðin er síðan saga út af fyrir sig, en eftir að hafa rannsakað þær fullyrðingar sem eru settar fram þar af lútandi er niðurstaða mín sú að myndin haggar ekki við hinni rótgrónu kenningu, að losun gróðurhúsaloftegunda frá verksmiðjum, bílum, o.s.frv. hafi umtalsverð áhrif á veðurfar Jarðarinnar.

Þannig er nú það.

Sósur

Ég fékk nokkrar sterkar sósur í dag … hluti af sameiginlegri pöntun sem við vinnufélagarnir slógum saman í. Hérna er nefnilega ákveðinn hópur manna sem hefur gaman af sterku bragði, og ég er eiginlega kominn upp á það bragð. Ég hef alla tíð þolað sterkt bragð vel og fundist það gott, en ekki mikið borið mig eftir því að borða slíkan mat. Þessar sósur breyta kannski einhverju … þær eru víst virkilega sterkar og bragðgóðar.

Eitt sem er skondið er að ein sósan heitir Blair’s Jalapeno Death Sauce, en á henni stendur Feel Alive!. Er þetta ekki ákveðin þversögn?

Reykleysi

Ég álpaðist á galeiðuna í gærkvöldi eftir starfsdag í vinnunni. Í sjálfu sér gerðist þar fátt nýtt eða merkilegt, en mikið afskaplega var notalegt að þurfa ekki að vaða vindlingareyk. Þetta er einfaldlega allt annað líf. Mikið hlýtur nú til dæmis starfsfólk þessa staða anda léttar – það er að segja þau þeirra sem ekki reykja.

Einhverjar ráðstafanir voru auðvitað gerðar til að létta púurunum lífið – fyrir utan Grand Rokk hafði verið sett upp tjald, líkt og venjan er að gera um menningarnótt, og á Celtic voru dyr opnar út á lítinn pall þar sem fólk gat staðið og svælt líkkistunaglana. Svo voru auðvitað líka óvenjumargir með rettur í munnvikum úti á götunum … og einhverjir að stelast laumulega til að reykja innan dyra, og ljóst að sumum hverjum fannst það afskaplega spennandi og forboðinn leikur.

Eitthvað fannst mér þó óvenjufáir inni á búllunum sjálfum, en það þótti mér reyndar góð tilbreyting. Efa þó að rekendurnir séu jafn kátir með það, þó.

Það verður spennandi að sjá hvernig skemmtanalífið aðlagast að þessari nýju reglu.