Ég hermdi eftir Óskimon og bjó til Simpsoniseraða útgáfu af mér. Það var hægara sagt en gert. Fyrst prófaði ég þetta í Eldrefnum á Linux, en fékk eilíflega villur eða hrun á Eldrefnum. Svo prófaði ég í Eldrefnum á Windows í vinnunni, og ekki gekk það nú betur. Það var ekki fyrr en ég keyrði upp IE (þann fjára) sem þetta virkaði rétt. Meiri aparnir að geta ekki látið þetta virka almennilega í Rebbanum. Það súrasta er síðan að myndin vistast síðan að lokum á PNG formi, sem er auðvitað ‘frjálst’ form. Þess vegna skýtur frekar skökku við að þetta virki eingöngu í IE.

En nóg komið af rausi. Hérna er útkoman:

Skemmtilegt nokk þá er þetta nýja alnetsmyndin mín – ég hafði notast við South Park myndina um allnokkurt skeið, og það var alveg orðið tímabært að breyta til.

Og já, ef þið hafið áhuga á að herma eftir mér þá er apparatið að finna hérna.

Hah

Algrímur velur ekki Whiskas. Hann velur frekar eitthvað annað ef tvennt er sett fyrir framan hann.

Nú er skammarlega langt liðið frá því að ég henti hingað inn línum, en ég á mér afsökun. Ég var nefnilega netlaus í nokkra daga, sökum þess að ég skrap til Vestfjarða á ættarmót. Anna og foreldrarnir veittu mér félagsskap, og við gistum í því sem er líklega minnsta húsið í Hnífsdal. Ættarmótið sjálft fór fram á Súðavík, og var mjög skemmtilegt. Við gáfum okkur síðan tíma til að gera sitthvað fleira; til dæmis að skreppa með báti út í Vigur, þar sem við sáum meðal annars munaðarlausa æðarunga sem flatmöguðu í grasflöt eins og kettir, og alla vega tvo kríuunga.

Á leiðinni heim sprakk síðan dekk á druslunni, þannig að við Anna þurftum að leggja krók á leið okkur til að fá nýtt dekk á Patreksfirði, sem eru hennar gömlu æskustöðvar til nokkurra ára. Það var fínt að sjá bæinn; ég held að örlögin hafi ákveðið að við þyrftum að koma þar við.

Hin fínasta ferð allt í allt – það held ég nú.

Urr

Fyrr í nótt var ég inni í eldhúsi og heyrði í Algrími væla fyrir utan. Ég leit út og sá hann á vappi fyrir neðan og ákvað að fara niður og hleypa honum inn, enda kunni ég ekki við að hafa hann nálægt þessari miklu umferðargötu sem ég bý við. Þegar ég kom út sást hins vegar hvorki tangur né tetur af honum, en mér heyrðist ég heyra í honum væla úr fjarska. Síðan sýndist mér ég sjá hann hlaupa um handan götunnar. Ég trítlaði þangað fyrir og sá fyrst annan, frekar lúpulegan lítinn kött. Síðan kom Algrímur aðvífandi og tók sér stöðu við hlið mér; virtist undalega smeykur við þennan meinleysiskött. Algrímur var síðan ekki lengi að stökkva á öxlina á mér og horfa þaðan niður á hinn köttinn, fullur yfirlætis. Ég reyndi að miðla málum og fá þá til að vingast hvor við annan, enda sýndist mér hinn kötturinn vera áhugasamur um það, en Algrímur vildi halda sinni fjarlægð.

Lúpulegi kötturinn hvarf síðan af vettvangi, og eftir stóðum við Algrímur, sem hoppaði upp á stóran kranabíl sem lagt er við götuna. Hann tók sér þar stöðu, og þá sá ég ástæðu þess að hann stökk þangað upp; nú var mættur hinn alræmdi svarti, feiti köttur sem hefur að minnsta kosti tvisvar hrakið Algrím upp í tré. Sá plantaði sér kyrfilega skammt frá okkur og hóf að stara á Algrím illilegum augum. Algrímur starði á móti og urraði. Eftir að ég hafði fylgst með þeim um skamma hríð ákvað ég að koma mínum ketti til bjargar og hvæsti á þann svarta. Honum var lítt brugðið; lét sér nægja að fara inn í nálægan runna og stara á okkur þaðan. Hann vissi það sem satt var, að ég myndi eiga erfitt um vik að ná til hans þar.

Við þetta ákvað ég að nóg væri komið og fór með Algrím yfir götuna aftur og inn; hann liggur núna við hlið mér, örmagna eftir þetta ævintýri.

Ég fór á Transformers í gær. Ágætismynd; svöl og með flottum brellum. Hins vegar var nákvæmlega allt sem kom tölvum eitthvað við algjört rugl. Síðan hvenær hakkar fólk tölvukerfi með hljóðbylgjum?

Ég horfði á myndina 1408 í gær. Hún er ágæt, en eitt það merkilegasta við hana (að mínu mati) er að í henni kemur fyrir fartölva með mjög svo raunsæju viðmóti. Þarna sést Yahoo Messenger og síðan bláskjár. Gaman að þessu.