Eftirsjá

Eftirsjá er eitt það versta sem til er – sérstaklega ef hún er réttmæt.

Það er ekki hægt að breyta hinu liðna, og stundum hafa ákvarðanir manns miklu geigvænlegri áhrif en maður hafði ímyndað sér. Maður sem hefur ekki vanist því að vera ýkja merkilegur gerir sér ekki endilega grein fyrir því hvað hann getur skipt suma miklu máli.

Ég veit það alla vega núna …

Og það eina sem ég get gert er að vona að mér verði fyrirgefið.

Uss – nú hef ég ekkert skrifað hér heillengi. Best að bæta úr því.

Ég fór með Algrím í dag til að láta taka úr honum saumana. Þetta var dálítil þrautarganga. Þegar hann var fyrst saumaður fékk hann svona skerm um hausinn, svo hann væri ekki að narta í sauminn, en hann náði að hrista hann af sér og sleit sauminn allan upp. Þá þurfti að sauma aftur, og í það skiptið pössuðum við Anna að skermurinn væri hertur vel utan um hausinn á kattarskömminni. Honum tókst þó engu að síður með miklum liðleika að narta aðeins í sauminn, þannig að hluti sársins spratt upp, en það var víst lítið annað við því að gera en að sótthreinsa sárið reglulega og bíða.

Núna er hann sumsé saumalaus, en með smá skurð ennþá. Þetta ætti að lagast með tíð og tíma; sárið er alla vega miklu minna en það var í upphafi, og er það vel.

Þessa dagana ligg ég yfir Buffy The Vampire Slayer. Anna er forfallinn aðdáandi þessa þátta, og raunar öllu sem Joss Whedon hefur snert með svo mikið sem litlaputtanum. Ég var búinn að horfa á Firefly og hafði gaman af, en það dróst frekar lengi að ég yrði innvígður í þessa tilteknu snilld. Ég hafði heyrt afar vel af þessum þáttum látið alllengi, en merkilegt nokk standa þeir engu að síður framar vonum. Persónusköpunin og flétturnar eru með því allrabesta sem maður hefur nokkurn tímann séð.

Það er eiginlega ekki mikið meira um þetta að segja … nema ég er bara á þriðju seríu núna og á nóg eftir, en mér skilst að þetta verði bara betra og betra eftir því sem á líður. Ég mæli hiklaust með þessum þáttum – og þið sem eruð með fordóma og haldið að þeir séu bjánalegir: Ég fullyrði að svo er alls ekki.

Sár

Algrímur hefur verið höltrandi á einum fætinum undanfarið. Reyndar hefur þetta verið að lagast undanfarna daga – en ég komst að því í dag hvað veldur þessu. Það er frekar stórt sár á innanverðu lærinu. Hann er á leiðinni til dýralæknis á morgun og engar refjar.