Já, þetta er langur titill.

Þannig er mál með vexti að í tengslum við ákveðna nýlega þjóðfélagsumræðu var ég að rifja upp gamla sögu. Hana má rekja til þess þegar ég tók þátt í framhaldsskólakeppninni Morfís fyrir hönd Fjölbrautaskólans í Breiðholti. Ekki náði mitt lið nú miklum árangri í þau tvö ár sem ég tók þátt í keppninni, en þetta var áhugaverð reynsla.

Sagan varðar það, þegar við kepptum við ræðulið Menntaskólans í Reykjavík (sem einnig hefur verið nefndur Lærði skólinn af þeim, sem þykja það sjálfvirk meðmæli með menntastofnun að hún sé eldri en allir nemendur hennar samanlagt) . Umræðuefnið var Nektardansstaðir. Mitt lið átti að tala með þeim búllum.

Þar sem Menntskælingar voru andmælendur, steig liðsstjóri þeirra annar í pontu, á eftir liðsstjóra okkar Fjölbreytinga, og rétt á undan mér. Hann endaði kynningu sína á að draga fram úr pússi sínu lesendabréf sem foreldrar mínir höfðu sent DV nokkru áður, í því skyni að segja upp áskrift sinni af blaðinu, sökum þess að í því birtust ósiðsamlegar myndir. Ekki var hægt að túlka þennan gjörning á aðra vegu en þá, að þarna ætti að koma mér í bobba – setja mig þá í leiðu stöðu að ég væri að fara að mæla nektardansstöðum bót rétt eftir að sýnt hafði verið fram á, að slíkar búllur væru varla nokkuð sem foreldrar mínir styddu.

Svo vildi hins vegar svo skemmtilega til, að mín eigin ræða hafði verið skrifuð í kringum það þema, að ég byrjaði á því að lýsa svörtum iðnaði sem þrífst á Íslandi – iðnaði sem hefði jafnvel tvístrað fjölskyldum, og sem engum þætti í raun gaman að vinna við. Fleira í þeim dúr. Meiningin var sumsé að fá fólk til að lyfta brúnum yfir því, af hverju ég, meðmælandinn, væri að bölsóttast yfir nektarbúllunum. Brellan fólst hins vegar í því, að þegar ég var búinn með innganginn að ræðunni, þá upplýsti ég að ég var í raun og veru að tala um sjávarútveginn. Út frá því leiddi ég síðan, að það væri til fleira slæmt en nektarbúllurnar. Eitthvað í þá veru.

Þessi lúalega, en þó frekar skondna brella Menntskælinganna misheppnaðist því frekar illa. Bæði vegna þess að ræðan mín hófst á svo óhefðbundinn hátt, og vegna þess að ég er svo svalur.