Snemma árs 2007 byrjaði ég á gæluverkefni; tónlistarleik á vefnum þar sem spurningarnar áttu að vera búnar til á handahófskenndan hátt út frá upplýsingum af last.fm.. Ég eyddi nokkrum mánuðum í að skrifa kóðabúta sem sóttu upplýsingar þaðan, unnu úr þeim, og settu í gagnagrunn. Svo datt mér í hug að samkeyra þetta við upplýsingar af Wikipedia líka, þar sem oft eru upplýsingar um tónlistarflytjendur settar fram á stöðluðu formi þar, sem auðvelt er fyrir tölvukóða að lesa úr.

Annað skref var að skrifa gagnagrunnsskipanir og lógíkkóða til að velja spurningar af handahófi. Þar var að mörgu að huga, þar sem notendur áttu að geta stillt hvernig spurningar þeir vildu fá; síað bæði eftir vinsældum flytjenda og tónlistarstefnum.

Þessi skref tókust bæði bærilega, þó þó hafi auðvitað verið töluverð tímafrek.

Þriðja skref var að búa til boðlegt viðmót ofan á þetta allt saman. Þar strandaði ég. Það má líka vera að ég hafi bara verið útkeyrður og hafi þurft á hvíld frá þessu að halda. Engu að síður leið skammarlega langur tími þar til ég ákvað að draga þetta verkefni upp úr skúffunni og klára það; það var ekki fyrr en fyrir um það bil 2 – 3 vikum sem ég lét loksins af því verða. Árangurinn lét ekki á sér standa – mér tókst að yfirstíga tregðu mína til að setja upp viðmót, sem og bætti við virkni og endurbætti sitthvað sem ég gerði í skrefum 1 – 2. Afraksturinn er nú kominn á vefinn.

Ég veit ekkert um hversu vinsælt þetta verður, og svo sannarlega býst ég ekki við að græða neitt á þessu, en ánægjan af því að hafa klárað þetta eru svo sem góð verðlaun í sjálfu sér. Þar sem áður var ekkert er nú til þessi síða. Forritun er sköpun. Þess vegna heillar hún mig svo.