Það er alltaf jafn grátbroslegt að sjá sannanir þess hvað umræðan hér á Íslandi vill snúast um mikil aukaatriði, frekar en kjarna hvers máls.

Í fyrradag barst okkur frétt um yfirheyrslur hollenskrar rannsóknarnefndar yfir fyrrum framkvæmdastjóra eftirlitsdeildar Seðlabanka Hollands. Haft var eftir honum að í hvert sinn sem seðlabankinn hollenski hafi viðrað efasemdir um Icesave hafi upphafist ‘hallelújakór’ úr Seðlabanka Íslands. Gekk hann jafnvel svo langt að kalla þetta lygar.

Nú, tveimur dögum síðar, er svo að sjá að umræðan um þessa frétt snúist nánast eingöngu um hvort það hafi verið SÍ eða FME sem ‘laug’ að Hollendingunum, og hvort ‘logið’ hafi verið yfir höfuð. Þetta má sjá meðal annars hér, hér og hér.

Athygli hlýtur að vekja að meginásökuninni er með þessu í engu svarað – en hún er þessi, að smáatriðum og gildishlöðnu orðalagi á borð við ‘lygar’ slepptum: Í hvert einasta sinn sem íslenskir eftirlitsaðilar voru spurðir út í Icesave, og efasemdir viðraðar um ágæti þess, var svarið alltaf í hallelújakórsstíl; hér þótti engin ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu Icesave, og blásið var á allar efasemdir.

Nú hlýtur það að vera svo að ef til væru einhver gögn sem sýndu fram á hið gagnstæða, sumsé, að íslenskir embættismenn á allavega einhverju stigi stjórnkerfisins hafi verið duglegir við að taka undir áhyggjur af Icesave, þá hljóta þau nú þegar að hafa komið fram. Þar liggur jú mikið við. Hafa slík gögn komið fram? Öðru nær. Það litla sem almenningi hefur birst bendir til hins gagnstæða – til þess að nokkuð gæti vel verið til í ofangreindum hallelújakórsásökunum. Þar má einna helst nefna margtilvísað minnisblað á vegum Seðlabanka Íslands frá því í febrúar 2008. Eftirfarandi má lesa þar um Icesave sérstaklega:

Moody’s hafði með sama hætti áhyggjur af öllum bönkunum, en þó einna mest af einum þætti, sem snýr að Landsbanka Íslands, en þar er um að ræða hve hinn mikli innlánsreikningur Icesafe [svo] kunni að vera kvikur og háður trausti og trúnaði á markaði og íslenska bankakerfinu, og jafnframt hve samkeppni á þessum markaði færi nú harðnandi vegna lokunar annarra markaða. Seðlabankamenn fóru yfir þau rök sem væru gegn því að þessi innlánsreikningur væri jafn ótraustur og Moody’s hefði áhyggjur af, en ekki er líklegt að öllum efasemdum þeirra hafi verið eytt.

Erfitt er að lesa úr þessu annað en það að SÍ hafi þarna litið á það sem hlutverk sitt að verja Icesave og eyða efasemdum um það, frekar en að hlusta á áhyggjur Moody’s og bregðast við þeim. Er þetta ekki eitthvað aðeins annað meira en að gefa bara upp þær upplýsingar sem bankarnir gaukuðu að Seðlabankanum?

Þetta minnisblað sýnir, að ég tel, nokkuð svart á hvítu að lítið hafi verið hlustað á efasemdaraddir um Icesave að utan. Ég leyfi mér að slengja fram þeirri kenningu að þetta hafi verið línan á öllum stigum stjórnkerfisins – að Ísbjörg væri bókstaflega björg okkar, og því bæri að halda henni uppi með öllum mögulegum leiðum.

Er þetta ekki kjarni málsins? Tja, maður spyr sig …

P.S. Umræðan um að bankarnir hafi verið í því að ljúga að eftirlitsaðilum, og þeir hafi ekki gert neitt annað en að koma þeim röngu upplýsingum áleiðis til útlendinga í góðri trú er síðan kafli út af fyrir sig. Vel má varpa þar fram þeirri spurningu hvort hlutverk eftirlitsaðila sé einmitt ekki víðtækara en bara það að vera hlutlaus miðlari upplýsinga frá einmitt þeim sem þeir eiga að vera að fylgjast með.