Um þessar mundir er vinsælt að segjast hafa varað við hinu og þessu fyrirfram sem nú er alkunna. Ég ætla mér formlega að skipa mér í þann hóp.

Lengi vel talaði ég fyrir því að fjárframlög til stjórnmálaflokka ættu að vera öllum borgurum landsins sýnileg. Þetta má sjá til að mynda í þessum pistli, sem skrifaður var um svipað leyti og verið var að setja lög um þessi fjárframlög, og ákveðnir flokkar voru að keppast við að sanka að sér risastyrkjum í skjóli leyndarinnar, á meðan færi gafst enn á því (þetta síðara er reyndar nokkuð sem er nýlega komið fram).

Málið er hins vegar, eins og sjá má af málflutningi Heimdellinganna í þessum efnum, að pólitíkusarnir sjálfir voru ekki par hrifnir af þessari hugmynd. Ég leyfi mér að fullyrða að Sjálfstæðismenn hafi barist einna hatrammlegast gegn breytingum á þessu sviði.

Sú barátta nær langt aftur, líkt og lesa má um hérna. Þarna sést að á sínum tíma var helsta framlag formanns flokksins til umræðunnar sú að leggja til að fyrirtækjum yrði alfarið bannað að styrkja stjórnmálaflokka. Samt sem áður viðurkenndi hann í sömu andrá að hinir flokkarnir myndu líklegast aldrei fallast á slíkt fyrirkomulag, þar sem þeir gætu ekki rekið sig án þeirra (og afstaða Heimdellinga hvað þessi mál varðar fáeinum árum síðar bendir til þess að þessi hugmynd hefur væntanlega ekki heldur notið hljómgrunns innan alls Sjálfstæðisflokksins sjálfs). Til að færa ‘sönnur’ á að Sjálfstæðisflokkurinn þægi ekki framlög í óhóflegum mæli benti hann á að Sjálfstæðisflokkurinn gæti hins vegar vel rekið sig án framlaga frá fyrirtækjum.

Þetta er sami flokkur og fékk um 330 milljónir króna í slíkum framlögum á fimm ára tímabili (til aðalskrifstofunnar eingöngu, eins og sjá má hér – enn er nokkuð á huldu hversu mikið vantar þarna inn í til að tölurnar séu fyllilega samanburðarhæfar við tölurnar frá Samfylkingu og Framsóknarflokki). Allt undir skjóli þeirrar leyndar sem Davíð Oddsson og Heimdellingarnir vörðu með kjafti og klóm. Þá er það stóra spurningin – af hverju var flokkurinn að þiggja svona gríðarháa styrki fyrst hann gat vel rekið sig án þeirra?