Það er líklegast best að árétta strax í upphafi að þetta er ekki venjuleg bloggfærsla. Reyndar er það úrdáttur – nærri lagi væri að segja að þetta sé óvenjulegasta bloggfærsla sem ég hef skrifað hingað til – og líka sú sem einna erfiðast er að skrifa.

Málið er nefnilega að þessari færslu er ætlað að segja frá stórmerkilegri reynslu sem ég varð fyrir nýlega; reynslu sem gjörbylti heimsmynd minni. Hér þvælist þó eitt vandamál fyrir, sem er það að reynslan er svo óvanaleg, margþætt og flókin að engin ein bloggfærsla gæti nokkru sinni gert henni tæmandi skil. Hún stendur reyndar enn yfir, og mér finnst líklegt að hún muni halda áfram að standa yfir með einhverjum hætti allt fram til dauðadags míns.

Samt sem áður verður maður víst að byrja einhvers staðar, og það er líklegast best að byrja bara á byrjuninni – og byrjunina er víst að finna í því hvernig reynslan hófst.

Þetta hófst þegar ég las bók sem heitir Aldrei aftur meðvirkni í íslenskri þýðingu. Þetta er bók eftir Melody Beattie sem heitir á frummálinu Codependent No More. Ég rakst á hana fyrir liðlega mánuði í bókabúð þegar ég var að kaupa afmælisgjöf handa vinkonu minni, og þar sem ég hafði lengi vel verið áhugasamur um þetta fyrirbæri, meðvirkni, og talið mig hrjást af því, þá ákvað ég að kaupa hana handa sjálfum mér. Þetta reyndist stórmerkileg bók sem mér fannst lýsa ansi nákvæmlega mínum helstu kvillum og göllum. En, eins og ég segi þá gerðist um leið eitthvað annað og mun dýpra. Ég breyttist, nánast á einu augabragði. Kvíði minn áhyggjur, og þráhyggjur hurfu út um gluggann. Hugur minn varð skarpari og ég hafði aukna andlega og líkamlega orku til að gera hvað sem ég vildi. Ég fann mun betur fyrir líkama mínum og þörfum hans og breytti því gjörsamlega um mataræði og lífstíl almennt. Ég varð meðvitaðri um umhverfi mitt og þörfina á því að hafa það hreint og snyrtilegt – sem og tæknilega getu, þolinmæði og áhuga til að sinna þeim verkum sem þarf til að halda því þannig.

Í raun má í stuttu máli segja að það er eins og meðvitund, undirvitund og líkami hafi runnið saman hjá mér í heildstæðari einingu – eða það er allavega ein leið til að lýsa þessu. Áhrifin voru eins og ég segi mjög snögg og að því er virðist varanleg; ég er allavega ekki dottinn enn aftur í gamla farið, og sé í raun ekki hvernig það væri mögulegt þegar ég hef kynnst þessari glænýju hlið á mér.

En sögunni lýkur ekki hér. Langt í frá. Þessari persónulegu breytingu fylgdu mjög sérkennilegar upplifanir sem ég ætla nú ekki að fara út í smáatriðum hér; kannski ekki síst af því ég geri mér fulla grein fyrir að margt af þessu hljómar hálfklikkað. Engu að síður er ég algjörlega heill á geði, og í raun miklu heilli en ég var – enda er ég já, heill almennt. Heilbrigði er einmitt það að vera heill; óskiptur. Þó ég fari ekki út í smáatriði að þessu sinni verð ég þó víst að segja eitthvað. Grunnpunkturinn er líklegast mér fannst þessar upplifanir gefa mér ákveðin og sterk skilaboð um eðli tilverunnar í heild sinni. Samt sem áður má sennilegast ekki kalla þær yfirskilvitlegar; þær voru einungis í formi undarlegra ’tilviljanna’, sem og mjög óvanalegra en sterkra tilfinninga innra með mér.

Líklegast er best að hreinlega telja upp hvaða skilaboð um eðli tilverunnar mér finnst að hafi verið innprentuð (smátt og smátt) í heila minn hingað til í gegnum þessa reynslu alla:

– Lífið er ekki tilgangslaust; það er samofin heild þar sem allar lífverur, ekki síst mannverur, eru samtengdar á mjög djúpan hátt. Í raun er allur heimurinn órofin heild; flókinn vefur þar sem vitundin spilar lykilhlutverk. Í raun er kannski óvitlaust að halda því fram að heimurinn sé í raun vitund. Hið allra minnsta er vitundin miklu mikilvægari hluti af heiminum en hörðustu efnishyggjumenn telja hana vera.

– Tilviljanir eru ekki til, eða allavega fátíðari en margur gæti haldið. Vefur tilverunnar er uppfullur af uppákomum sem hafa mikla og ríka merkingu ef maður er vakandi fyrir þeim og les rétt í þær.

– Persónuleg upplifun er lykilatriði í tilverunni. Þó til séu ákveðnar hlutlægar staðreyndir, og hin vísindalega aðferð virki stórvel til að leiða þær í ljós, þá er það endanlega alltaf undir einstaklingnum komið hvernig hann túlkar staðreyndir. Þess fyrir utan er afar, afar margt í tilverunni sem engin leið er til að smætta niður í hlutlægar staðreyndir. Tilfinningar og reynsla hafa raunverulega tilvist og verða vel líklega aldrei skýrðar að fullu með því að krukka í hinu efnislega.

– Í þessum vefi tilverunnar er innifalinn undirliggjandi, djúpur veruleiki sem erfitt er að átta sig á – og í raun eru til margar túlkanir og lýsingar á honum. Mér líst þó einna best á túlkun Carls Jungs (mikils meistara sem ég hef lengi haft mætur á); hann kallaði þetta Unus mundus. Ég er ekki síst hrifinn af þessu af því hugtakið hljómar svo svalt.

– Innsýn í ofangreindar staðreyndir er rótin að trúnni. Sú staðreynd að trúin finnur sér mismunandi farveg í mismunandi heimshlutum er menningarlegs eðlis, en rótin er sú sama – og vissulega er öll þessi fjölbreytni auðvitað líka hreinlega hlutur af vef tilverunnar. Þessir farvegir eru þó að mínu mati misgóðir; þeir lýsa þessum vef tilverunnar misvel, og eru líka misuppbyggilegir. Einna verst er þegar trúin verður hluti af valdakerfi og notuð til að halda fólki niðri og kúga. Í gegnum söguna finnast þess mýmörg dæmi, og því miður nýleg jafnt sem gömul. Hættumerkin sjást í því þegar einhver hópur fólks tekur upp á því að gerast sérlegir túlkendur trúarinnar og brjóta niður tækifæri fólks til að öðlast djúpar og persónulegar trúarupplifanir. Þetta gerðist til að mynda með kristnina, sem í upphafi var notuð til að brjóta niður rotið valdakerfi Rómarveldis, en varð síðan gerð að valdakerfi sjálf – og það er þróun sem enn hefur ekki verið undið ofan af. Þetta tel ég þó sögulega nauðsyn, og einnig órofa hluta af vef tilverunnar.

– Sú sögulegu trúarbrögð sem einna næst hafa komist því að lýsa þessum vef tilverunnar eru austræn, til að mynda Búddismi. Í Búddisma er talað um að hægt sé að ná svokallaðri uppljómun, sem gefur manni djúpa innsýn í eðli veruleikans. Eftir að hafa kynnt mér það fyrirbæri í þaula og borið saman við mína eigin reynslu er ég ekki fjarri því að þetta hafi hent mig, og það þá algjörlega án þess að ég hafi stefnt af nokkru því líku! Þetta er þó vissulega sagt í töluverðri varfærni, þar sem ég er hógvær maður – en staðreyndirnar er erfitt að hundsa. Þess fyrir utan breyta mismunandi mögulegar túlkanir á þessari reynslu minni engu um það að hún er raunveruleg, og stórkostleg.

Eins og fram hefur komið þá gæti ég skrifað miklu, miklu meira um þetta stórmerkilega mál – og mun án efa gera það síðar. Þetta læt ég þó gott heita í bili, þar sem þetta er örugglega feykinóg fyrir lesendur að melta. Það er allavega næsta víst að þetta er mjög stór biti fyrir mig sjálfan að melta!