Þessi pistill um nauðganir og það sem mætti kalla nauðganamenningu hefur vakið töluverða athygli og farið víða um netheima. Það er fyllilega eðlilegt í ljósi þess að þarna er stungið á ákveðnum kýlum sem því miður er ekki nógu oft stungið á. Höfundur pistilsins sýnir mikið hugrekki með því að opna sig með þessum hætti og vekja þannig þarfa umræðu. Ég ætla að reyna að sýna samsvarandi hugrekki með því að tjá mig um þetta málefni af hreinskilni út frá karllægu sjónarhorni.

Sæunn talar um ‘hákarla’, sem er afar frjó samlíking. Sannleikurinn er nefnilega sá að líkt og hún bendir á, þá hálfpartinn elur samfélag okkar á hákörlum. Hákarlinn er þessi kaldi töffari sem nálgast heiminn í heild sinni, og sér í lagi konur, líkt og bráð sem þarf að veiða og sigrast á. Í sinni öfgafyllstu og ógeðfelldustu mynd er þetta nauðgari og hrotti, en sá hákarl sem er nánast samfélagslega viðurkenndur er sá sem fær útrás fyrir hákarlseðlið innan ramma laga og félagslegra viðmiða. Hann bakar sér kannski ekki endilega vinsældir allra í kjölfarið, en hann nýtur sannarlega virðingar innan ákveðinna kreðsna. Barney Stinson úr sjónvarpsþáttunum How I Met Your Mother er til að mynda hinn erkitýpíski hákarl; maður sem notar konur eins og gólfmottur og er lafhræddur við allt sem svo mikið sem nálgast það að heita skuldbinding. Í því samhengi er reyndar mjög áhugavert að kafa aðeins ofan í persónuna og átta sig á því að forsaga hans er sú að eitt sinn var hann einstaklega ljúfur og auðsveipur maður, en í kjölfar þess að verða fyrir vonbrigðum í ástum ákvað hann að snúa blaðinu algjörlega við, herða sig upp, og skapa sér hákarlsímynd. Innst inni á hann sér þó enn sínar viðkvæmu hliðar og hefur efasemdir um gildi lífernis síns, eins og farið er yfir af þónokkurri lagni í þáttunum. Í gegnum Barney eru þannig skoðaðar öfgar í tvær áttir. Annars vegar mjúki og væmni bangsinn sem lætur vaða algjörlega yfir sig, og hins vegar harði og svali hákarlinn sem lokar á tilfinningar sínar af ótta við að vera .særður eða álitinn veikgeðja.

Það er nákvæmlega milli þessara öfga sem nútímakarlmanninum hættir til að sveiflast, og mörgum okkar líður oft eins og við séum í þessum efnum hálfpartinn milli steins og sleggju. Það er hið minnsta algjörlega víst að mér hefur sjálfum oft liðið þannig. Í mínum dekkstu stundum hef ég fyllst vonleysi yfir því finnast ég engan veginn geta uppfyllt þær kröfur sem samfélagið og konur gera til mín sem karlmanns, og meira að segja fundist það mér vera algjörlega á huldu hverjar þessar kröfur eru. Stundum hefur þetta leitt til þess að ég hef heillast af hákarlshlutverkinu, en ég hef sem betur fer aldrei fundið mig almennilega í því.

Það er auðvitað mjög í tísku að kenna ‘feðraveldinu’ um þau samfélagslegu mein sem leiða til krísna af þessu tagi, en ég held engu að síður að í slíkum málflutningi felist sannleikskorn. Líkt og Sæunn kemur inn á tíðkast í vestrænu nútímasamfélagi ákveðin dýrkun á ‘strákamenningu’, og það er slík menning sem held að einkenni feðraveldið öðru fremur. Feðraveldið elur ekki af sér fullþroska og ábyrga karlmenn, heldur stráka í karlmannslíkömum. Strákar verða einmitt alltaf strákar en ekki karlmenn, og djúpt undir hrjúfum hákarlsskrápi stráksins sem aldrei náði að vaxa almennilega úr grasi grassera sálarmeinin, og brjótast út í sínum verstu myndum í hegðun á borð við þá sem Sæunn lýsir í pistli sínum. Það er nokkuð til í því sem foreldrar okkar sögðu okkur margir hverjir þegar við lentum í því að vera strítt sem krakkar, að þeir sem koma illa fram við aðra gera það af því þeim líður sjálfum illa. Ég get vissulega einungis talað fyrir sjálfan mig, en fyrir utan óöryggi með kynhlutverk mitt hefur mitt helsta sálarmein í gegnum árin verið meðvirkni; mjög lúmskt og ætandi mein sem lítið sem ekkert ekkert skilur eftir andlega. Það hjálpar ekki heldur beinlínis til að réttlætingarnar fyrir því að vera hákarl má finna afskaplega víða. Þeir sem heillast af vísindahyggju geta til að mynda fundið sig í erfðafræðihugmyndum, þar sem skipa má körlum og konum þröng hlutverk. Karlinum er til að mynda sagt eðlislægt að vilja ‘dreifa fræjum’ sínum sem víðast, en ekki bindast neinum tilfinningaböndum, og hákarlinn sagður sú manngerð sem allar konur vilja innst inni. Þarna vill gleymast að út frá nákvæmlega sömu forsendum er alveg jafn hæglega hægt að réttlæta allt öðruvísi kynhlutverk. Ég held að í þessum efnum, sem svo mörgum öðrum, lesi fólk það út úr staðreyndum sem það vill lesa út úr þeim.

Öll erum við jú viti bornar verur og hljótum að bera ábyrgð á sjálfum okkur, okkar viðhorfum og okkar gjörðum. Fyrsta skrefið í átt að því að breyta samfélaginu er að breyta sjálfum sér, og í því hef ég unnið ötullega, og og hyggst halda því áfram svo lengi sem ég lifi. Þar tek ég mér meðal annars til fyrirmyndar Barney Stinson, sem vissulega nær að þroskast og vitkast eftir því sem á þættina líður, og hrista aðeins af sér hákarlsbúninginn. Fyrirmyndirnar finnast nefnilega hér og þar, þegar að þeim er leitað. Í flóknu og á köflum firrtu nútímasamfélagi þarf bara því miður stundum að leita frekar lengi að þeim.

Öll búum við yfir hæfileika sem kalla má innsæi. Þetta er getan til þess að finna á sér hvaða hlutir eru sannir og merkingarríkir. Þessihæfileiki er kominn frá hinum innsta kjarna okkar, sem veit mun meira um heiminn en við vitum meðvitað sjálf – ekki síst um andlegar víddir hans. Lög andans eru rituð í hjörtum okkar, og með því að fylgja ávallt hjartanu getum við verið nokkuð viss um að rata réttan veg í lífinu. Ekki er þar með sagt að rökhugsun eigi ekki fullan rétt á sér; hún er þarfur þjónn, en að sama skapi er hún harður húsbóndi. Hinar andlegu hliðar tilverunnar er aldrei nokkurn tímann hægt að uppgötva með rökhugsuninni einni saman. Þær spretta þvert á móti upp úr tilfinningum; flæða frá hjartanu, sé þeim er leyft að flæða. Jesús Kristur orðaði þessa staðreynd svo: „Sá sem trúir á mig, frá hjarta hans munu renna lækir lifandi vatns, eins og ritningin segir.” Rökhugsunin þekkir aðeins aðgreiningar og flokkanir, en hjartað sér heiminn sem órofna og gullfallega heild. Þar sem rökhugsunin sér tvo hluti, sér hjartað sem tvær hliðar á sama peningi; fyrir því er allt í raun eitt þegar allt kemur til alls.

Þetta eina litla atriði, að sjá undirliggjandi tengingu milli hluta sem virðast ólíkir á yfirborðinu og sameina þar með andstæður, mætti jafnvel kalla aðallykilinn að andlegum þroska. Þannig sér hinn andlega þroskaði einstaklingur lítinn mun á meðvitund sinni og undirmeðvitund, eða þá á sjálfum sér og heiminum sem hann skynjar – og um leið veit hann að allt sem hann skynjar í sjálfum sér skynjar hann í heiminum, og öfugt. Hann skynjar hina heildrænu fegurð heimsins, og þar með hina heildrænu fegurð í sjálfum sér.

Með því að tengjast hjartanu má þannig öðlast ákveðna ófrávíkjanlega sjálfselsku. Sjálfselska er orð sem hefur því miður öðlast frekar neikvæða merkingu; flestir tengja það við sjálfhverfu – en samt sem áður eru þetta tveir aðskildir hlutir. Það að elska sjálfan sig getur aldrei verið neikvætt, heldur er það þvert á móti algjört lykilatriði í lífinu. Jesús Kristur sagði okkur að elska náunga okkar eins og sjálfa okkur, en það er auðvitað ekki hægt nema með því að elska sjálfan sig til að byrja með – og það er ekki nema þegar sjálfselskan er á kostnað ástar á náunganum sem hún snýst upp í sjálfhverfu.. Það að litið er á hugtakið sjálfselsku sem neikvætt fyrirbæri segir kannski allt sem segja þarf um hversu mjög fólk hefur misst sjónar á þessu atriði. Kannski væri best að taka hreinlega upp annað og ferskara orð til þess að lýsa ást á sjálfum sér; það kæmi til að mynda sjálfsást til greina. Það er nákvæmlega þannig skynjun á sjálfinu, og um leið heiminum, sem andleg vakning miðar að.

Sönn sjálfselska er hins vegar mjög erfið – ekki síst vegna þess að í flestum okkar búa hlutir sem við erum ekki beinínis stolt af. Hér er fróðlegt að leita í smiðju sálfræðingsins Carls Gustavs Jungs. Hann taldi að hver hefði bókstaflega sinn djöful að draga; skuggann eins og hann kallaði fyrirbærið. Að hans mati var hin helsta hindrunin á hinni andlegu þroskabraut sú að horfast óttalaust í augu við þennan skugga og sætta sig við hann. Of mörgum hættir hins vegar til að hatast út i þennan skugga, og jafnvel bæla hann niður. Skugginn er þó alltaf til staðar með einum eða öðrum hætti, þannig að þegar hann er bældur fer fólk að sjá hann í öðrum; verður mjög upptekið af því að sjá lesti í fari annarra í stað þess að horfast í augu við nákvæmlega sömu lesti í sjálfum sér. Jesús Kristur talaði um að sjá flísina í auga bróður síns, en ekki bjálkann í manns eigin auga, sem er mjög skemmtileg leið til að orða þetta. Í trúarlegu samhengi virkar þessi sálfræði gjarnan þannig að fólk verður mjög upptekið af djöflinum og hrætt við hann; sér hann alls staðar og rígheldur í trú sína í sífelldum ótta við að ef það sleppi af henni tökunum að hinu minnsta leyti muni djöfullinn ná til þeirra. Þetta er auðvitað bara enn ein leið til að flýja sjálfan sig, og því miður geta trúarbrögðin verið öflugt tæki til þess, rétt eins og þau geta verið öflugt tæki til sjálfsskoðunar þegar gengið er út frá því að það sem kallað er djöfull er fyrst og fremst ákveðnar kenndir innra með okkur sjálfum.

Hér er sumsé strax komin ákveðin þversögn, eins og svo algengt er þegar tekist er á við andlegar áskoranir. Hvernig er hægt að elska sjálfan sig algjörlega, sætta sig við sjálfan sig alveg eins og maður er, þegar í manni býr svo margt illt? Þetta er spurning sem allir hinir mestu andlegu meistarar sögunnar hafa tekist á við, og svar þeirra er alltaf hið sama: Aðeins með óttalausri og ódómharðri sjálfsskoðun er þetta mögulegt. Aðeins með því að kafa algjörlega ofan í hið illa í sjálfum sér er hægt að sætta sig við það, og þar með yfirstíga það. Þetta er það sem í austrænum hefðum á borð við taóisma og búddisma er kallað að sigra sjálfan sig, og í þeim hefðum er það talið margfalt ríkari uppspretta valds og visku en það að sigrast á öðrum.

Hver er þá leiðin til sjálfsskoðunar? Þar eru margar aðferðir mögulegar, en ein mjög hagnýt og fljótleg leið til að gera þetta er hreinlega að setjast niður og skrifa. Gera nákvæma útttekt á öllum sínum kostum og göllum; setja hvora fyrir sig á lista, og skilja þar ekkert eftir. Ekki er nóg að hugsa bara um þessi atriði, því að með því að setja hluti niður á blað verða þeir raunverulegri fyrir manni. Við mannfólkið erum útbúin frá náttúrunnar hendi þannig að við gefum öllu því sem er í ytra umhverfi okkar sérstakan gaum, þannig að með því að setja hluti niður á blað og horfa á þá erum við í raun að vissu leyti að neyða sjálf okkur til að horfast algjörlega í augu við þá. Hugsanir og tilfinningar eru hverfular, en það sem stendur á blaði er það ekki.

Hér er líka best að skrifa í fyrstu persónu; setja efst á hvorn lista fyrir sig „Ég er …”, og síðan t.d. gáfaður/gáfuð, frekar en að skrifa niður ópersónulegri hugtök á borð við ‘gáfur’. Munurinn á þessu tvennu blasir kannski ekki endilega við, en þetta atriði skiptir samt sem áður töluverðu máli upp á hvernig maður horfir á þessa eiginleika sína. Með því að skrifa í fyrstu persónu er maður að eigna sér þá algjörlega, en með því að skrifa í hugtökum er hættara við að maður sé að halda eiginleikunum í ákveðinni fjarlægð frá sér.

Gott er að byrja á kostunum, og þegar maður er viss um að þeir séu allir komnir á blað má snúa sér að því að lista upp gallana – en þetta skiptir ekki öllu máli, og vinnan við listana getur þess vegna farið fram samhliða. Allt fer það eftir því hvað hverjum og einum þykir henta betur.

Þegar gallarnir eru settir á blað þarf að gæta sérstaklega að því að sumir þeirra gætu verið bældir og því ómeðvitaðir – en hvernig má komast að einhverju sem maður veit ekki af meðvitað? Hér er hjálplegt að hafa í huga tilhneiginguna til að varpa hinum ómeðvituðu löstum manns yfir á aðra. Eftir að hinir meðvituðu lestir hafa verið skrifaðir niður er því gott að skrifa líka niður annan lista yfir lesti í fari annars fólks sem fara í sérstaklega í taugarnar á manni (sumsé, vekja mjög sterk tilfinningaleg viðbrögð hjá manni), því líklegt er að þetta séu einmitt þeir lestir sem maður er að bæla hjá sjálfum sér. Til að binda enda á þá bælingu þýðir ekkert annað en að kafa virkilega vel ofan í þessa lesti; skoða allt lífshlaup sitt og sálarlíf í ljósi þeirra, og gæta að því hvort þar sé ekki eitthvað að finna sem gefur sterkar vísbendingar um að maður sé einmitt haldinn þessum löstum. Í hvert sinn sem maður uppgötvar með þessum hætti meðvitað að einhver af þessum löstum sem pirra mann í fari annarra er löstur sem maður hefur verið að bæla hjá sjálfum sér skal setja hann á listann yfir manns eigin lesti.

Líkt og öll önnur vinna sem tengist undirmeðvitundinni getur þetta ferli tekið tíma, og hér er því best að gefa sér nægan tíma og reyna ekki að þvinga neitt fram áður en maður er tilbúinn að takast á við það, heldur frekar að láta innsæið ráða og stýra ferlinu, og leyfa hlutunum að síast inn í meðvitundina á sínum eðlilega hraða.

Að öllu þessu loknu er komið að skemmtilegasta hlutanum. Listinn yfir lestina er tekinn fram, og fyrir hvern löst er samsvarandi kostur færður á listana yfir kostina. Ef einn lösturinn á lastalistanum er til dæmis ‘latur’, þá skal setja kostinn ‘duglegur’ á kostalistann. Af hverju? Jú, af því þessar andstæður lastanna búa í okkur rétt eins og lestirnir. Það kann að liggja djúpt á þeim, en þeir eru allir þarna einhvers staðar. Þetta er í raun fullkomlega rökrétt; ef við vitum hvað það er að vera latur þá vitum við líka hvað það er að vera duglegur – rétt eins og við getum ekki þekkt hið illa nema að þekkja hið góða líka.

Þetta er annað dæmi um hvernig andlegur þroski snýst að miklu leyti um að þekkja andstæður, og hvernig þær eru algjörlega nauðsynlegar í heiminum. Í heimi þar sem allt er til dæmis algott myndi enginn þekkja hið góða sem gott, og engin sérstök dyggð væri í því að vera góður. Enginn gæti heldur upplifað þá gleði sem fylgir því að breyta rétt. Í raun er erfitt að ímynda sér heim af þessu tagi út frá mannlegum forsendum, því með honum væri til að mynda nánast gert út um þann frjálsa vilja sem við eigum að venjast.

Í taóisma er talað um yin og yang, sem venjulegast er túlkað sem hið kvenlega og hið karllega – en yin og yang táknar líka allar aðrar andstæður sem fólk getur ímyndað sér. Taóið, sem er samsett af yin og yang, er táknrænt fyrir heiminn í heild sinni og hvernig hann verður til út frá mýgrút af andstæðum sem styðja hvor aðra. Því hefur verið haldið fram að ef maður skilji þetta atriði fullkomlega, þá skilji maður í raun allt annað – en það er kannski hægara sagt en gert! Það má þó alltaf reyna, og einn liður í þeirri viðleitni er að sjá hvernig andstæður takast á í manns eigin sálarlífi og eru í raun nauðsynlegar; án þeirra væri maður ekki mannlegur. Rétt eins og erfitt er að ímynda sér algóðan heim er erfitt að ímynda sér algóðan mann, því hið góða í manninum sprettur ekki síst af því að þekkja hið illa í sjálfum sér, en hafa vit og visku til að forðast það eftir fremsta megni.

Hér sést því hvernig lestirnir eru í raun yfirstignir með því að kafa nógu rækilega ofan í þá. Vissulega hverfa þeir aldrei alveg, en með því að skilja að þeir eru gildi á skala andstæðna og sætta sig við þá sem slíka finnst leið til að minnka þá – einblína á andstæður þeirra, kostina, og stefna að því að uppfylla þá í sjálfum sér. Hér sést skýrt og greinilega hvernig andlegur þroski snýst um að sameina andstæður og yfirstíga þær. Í þessari viðleitni er því gott að hengja kostina upp einhvers staðar þar sem maður sér þá reglulega, til að minna sig á þá stöðugt – aftur út frá þeirri mjög mikilvægu forsendu að það sem er í ytra umhverfi manns hefur mikil áhrif á hvað maður hugsar, og hvernig.

Einnig ætti að vera ljóst að með ítarlegri sjálfsskoðun af þessu tagi er maður líka að kafa ofan í hið sammannlega, og uppgötva það að maður á kannski meira sameiginlegt með öðru fólki en maður gerði sér grein fyrir. Þeir lestir sem pirra mann í fari annarra reynast vera lestir sem maður er að bæla hjá sjálfum sér, og þeir kostir sem maður telur sig ekki búa yfir og sér einungis í fari annarra búa reynast líka vera í manni sjálfum. Þannig minnkar hinn sýnilegi munur á manni sjálfum og öðru fólki, sem er enn ein sameining andstæðna.

Auðvitað er síðan ekkert sem bannar það að endurtaka þetta ferli hvenær sem þörf þykir á því, og jafnvel laga það að því sem manni þykir best henta og bæta við það. Í raun eru einu bráðnauðsynlegu forsendurnar þær að þetta sé gert af fullri hreinskilni og vilja til að skilja sjálfan sig fullkomlega og bæta sig þar með, sem og það að gera þetta ekki bara í huganum, heldur í ytri heiminum. Það má nota ýmsar aðrar leiðir en orð til að minna sig á kostina; til dæmis myndir og tónlist – og þeir sem hafa listræna hæfileika geta meira að segja skapað sér eitthvað sjálfir í þessa veru sem hefur sérstakt persónulegt gildi. Sjálfur hef ég til dæmis mjög gaman af því að hlusta á tónlist, og styrki því sjálfan mig reglulega með þeim hætti að spila einhverja tónlist í tölvunni sem mér finnst hafa sjálfsstyrkjandi gildi, og skoða myndir af sjálfum mér um leið. Í þessum efnum líkt og mörgum öðrum er ímyndunaraflið í raun það eina sem takmarkar möguleikana.

Önnur aðferðafræði sem er mjög gott að tileinka sér er að skoða sjálfan sig í núinu – sumsé að vera stöðugt meðvitaður um það sem hrærist innan í manni, og þannig koma sér upp leið til að geta horft á sjálfan sig utan frá og gripið inn í og stöðvað allar óæskilegar hugsanir og tilfinningar sem spretta upp. Þetta er hins vegar bersýnilega hægara sagt en gert – því ef þetta væri auðvelt myndum við flest eða jafnvel öll hafa fullkomna stjórn á sjálfum okkur, og það er deginum ljósara að svo er alls ekki. Af hverju reynist okkur sjálfsstjórn svona erfið? Það er vegna þess að sálarlíf okkar er þess eðlis að því meira sem við streitumst á móti einhverju í okkar fari, þeim mun sterkara verður það! Hér er því komin önnur þversögn og andleg áskorun – hvernig er hægt að stjórna sjálfum sér þegar allar tilraunir til að beita viljanum til að stjórna sjálfum sér eru í raun dæmdar til að mistakast, og jafnvel hafa þveröfug áhrif þegar upp er staðið? Þetta erfiða vandamál hefur verið eitt af hinum helstu viðfangsefnum trúarbragðanna. Páll Postuli orðaði þetta til að mynda svo í Rómverjabréfinu: „Hið góða, sem ég vil, gjöri ég ekki, en hið vonda, sem ég vil ekki, það gjöri ég. En ef ég gjöri það, sem ég vil ekki, þá er það ekki lengur ég sjálfur, sem framkvæmi það, heldur syndin, sem í mér býr. Þannig reynist mér það þá regla fyrir mig, sem vil gjöra hið góða, að hið illa er mér tamast. Innra með mér hef ég mætur á lögmáli Guðs, en ég sé annað lögmál í limum mínum, sem berst á móti lögmáli hugar míns og hertekur mig undir lögmál syndarinnar í limum mínum.”

Aftur hafa hér allir hinir mestu andlegu meistarar sögunnar fundið svarið, og aftur felst svarið í óttalausri og ódómharðri sjálfsskoðun – að viðurkenna djöfulinn innra með sér og horfast kyrfilega í augu við hann, í stað þess að streitast á móti honum. Neikvæðum hugsunum og tilfinningum er algjörlega leyft að koma fram, þær viðurkenndar án dómhörku sem hluti af okkur sjálfum – og þá hverfa þær svo gott sem af sjálfu sér. Í Bókinni um veginn eftir Laó Tse, grundavallarriti í taóismanum, er þetta orðað svo: „Gefðu hinu illa ekkert til að streitast á móti, og það mun hverfa af sjálfu sér.” Það er í þessu augnamiði sem iðkanir á borð við hugleiðslu og jóga urðu til; með hjálp þeirra þjálfar fólk sig í að skoða sálarlíf sitt án dómhörku, róa hugsarnir sínar, og mýkja viljann sem hættir til að streitast sjálfkrafa á móti öllu hinu neikvæða í okkar fari, með þeim afleiðingum að sálarlíf okkar verður tvískipt.

Jesús Kristur þekkti ekki til agaðra sjálfsskoðunarhefða af þessu tagi, þannig að við vitum ekki hvað honum hefði fundist um þær. Hér hjálpar heldur ekki til að hann hafði í raun ekki margt að segja beint út um sjálfsskoðun yfir höfuð, heldur einblínti hann þeim mun meira á hvaða augum fólk ætti að líta náungann. Þó sagði hann til að mynda þetta þegar hann talaði um flísina og bjálkann: „Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns.“, en hérna lét hann alveg ósagt hvernig mætti ná þessu fram. Það er því harla skrítið að þetta vandamál hafi orðið Páli Postula að umfjöllunarefni, en hans leið til að takast á við það var ekki beinlínis heilbrigð; hann skipti manninum upp í líkama og sál, og lýsti líkamann sem óhjákvæmilega syndugan: „Ég veit, að ekki býr neitt gott í mér, það er, í holdi mínu. […] Ég aumur maður! Hver mun frelsa mig frá þessum dauðans líkama?” Síðar átti kristnin eftir að þróast út á brautir hatrammrar baráttu gegn syndinni á nákvæmlega þessum grundvelli, að svo lengi sem við búum á þessari Jörð getum við aldrei yfirstigið syndina og verðum því að streitast á móti henni og jafnvel hatast út í allt það sem holdlegt er – sem er langt í frá líklegt að hafi verið markmið Jesúsar Krists sjálfs með boðskapi sínum. Aftur ber hér að impra á því að andlegur þroski snýst um að sameina andstæður, og því er skipting af þessu tagi á hinu holdlega og hinu andlega upp í algjörar og ósamræmanlegar andstæður tæpast gott upp á andlegan þroska. Þetta er einungis enn ein leiðin til að forðast að horfa í augu við sjálfan sig.