Dómur Hæstaréttar í máli nr. 512/2012 hefur vakið hörð viðbrögð og töluvert umtal, sökum þeirrar lagatúlkunar meirihluta dómara að líta til tilgangs með einu því broti sem dæmt var fyrir. Þetta gerðu þeir sökum þess að ákæruvaldið taldi brotið varða 194. grein almennra hegningarlaga, og dæmt var í héraði samkvæmt því. Hæstaréttardómararnir töldu hins vegar að þar sem tilgangurinn með brotinu hafi (að þeirra mati) ekki verið sá að fá úr því kynferðislega fullnægju heldur að meiða væri ekki um ‘önnur kynferðismök’ að ræða í skilningi laga og því væri réttara að dæma brotið sem líkamsárás.

Einn hæstaréttardómari var þó ósammála því að þörf væri á að skoða með þessum hætti tilganginn með broti til að meta hvort 194. grein ætti við það og færði fyrir því rök í séráliti.

Nú í dag skrifar síðan Ragnheiður Bragadóttir grein þar sem hún tekur undir sjónarmið þess dómara og rekur í nokkuð ítarlegu máli hvers vegna lagatúlkun meirihlutans er að hennar mati röng – og gengur svo langt að segja niðurstöðu þeirra alvarleg mistök sem ekki geta haft fordæmisgildi. Þung orð frá konunni sem er höfundur frumvarpsins sem varð að þeim lögum sem sett voru árið 2007 til að færa kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga í núverandi horf.

Allt virðist þetta nokkuð sannfærandi hjá minnihlutadómaranum og frumvarpshöfundinum og enn hafa ekki komið almennileg rök frá lögfróðum fyrir því af hverju nauðsynlegt er að horfa til tilgangs brota til að 194. grein eigi við um þau, en þar með er ekki öll sagan úti. Málið virðist nefnilega eiga sér nokkra forsögu.

Með áðurnefndu frumvarpi sem Ragnheiður samdi fylgdu nefnilega ýmis skjöl, þar með talið svör hennar við umsögnum um lagafrumvarpið sem borist höfðu frá hagsmunaaðilum. Þar er (efst á bls. 9) minnst á dóm Hæstaréttar í máli nr. 472/2005, þar sem beitt var þeirri lagatúlkun að athöfn teljist ekki til ‘annarra kynferðismaka’ nema hún veitti (eða væri ætlað að veita) gerandanum kynferðislega fullnægju. Nákvæmlega eins og í dómnum í máli nr. 512/2012 sem hér er til meginumfjöllunar. Munurinn er hins vegar sá að í eldri dómnum var ákærði beinlínis sýknaður af hluta þess sem hann var dæmdur fyrir í héraði, og refsing milduð um helming, á grundvelli þessarar lagatúlkunar. Um hana segir Ragnheiður í svörum sínum:

Af dómi þeim sem [Ríkissaksóknari] vitnar til verður ekki dregin sú ályktun að sú háttsemi að láta tvo aðila hafa kynmök hvor við annan geti ekki fallið undir hugtakið önnur kynferðismök. Virðist sem sá tilgangur ákærða í því máli, að fá þolendur til þessara athafna í þeim tilgangi að ljósmynda þær hafi valdið því, að Hæstiréttur taldi að háttsemin félli ekki undir 3. mgr. 202. gr. sem önnur kynferðismök. Er það umdeilanleg niðurstaða.

Það er því lítil furða að mínu mati að Ragnheiður sjái fulla ástæðu til að skrifa grein til að deila á þessa þrálátu lagatúlkun dómara, sem vel er hægt, í einhverjum tilfellum, að beita til að sýkna sakborninga af brotum sem núgildandi lögum er hins vegar mjög greinilega ætlað að gera refsiverð. Það er vafalaust ástæðan fyrir því að Ragnheiður ítrekar þá afstöðu sína að þessi lagatúlkun geti ekki verið fordæmisgefandi. Holunni átti án efa að loka með nýjustu breytingunni á kynferðisbrotakaflanum en nú hafa dómarar opnað hana aftur.

Þar sem lögum var breytt bar dómurum væntanlega skylda til að á einhverjum tímapunkti fara yfir öll löggreiningargögn sem tilheyra lagabreytingunni, þar með taldar athugasemdir við lagafrumvarpið og önnur fylgigögn, og endurmeta út frá þeim afstöðu sína til þessarar lagatúlkunar. Það er mat mitt, sem og Ragnheiðar sjálfrar og ýmissa fleiri, að þau taka af allan vafa um það að umrædd lagatúlkun er með öllu ótæk samkvæmt núgildandi lögum og vilja löggjafans.

Það hlýtur að teljast frekar undarlegt að dómarar hafi í máli nr. 512/2012 ekki komið auga á að með lagabreytingunni 2007 var í raun tekinn af allur vafi um að sá verknaður að stinga fingrum í leggöng og endaþarm gegn vilja viðkomandi heyrir undantekningalaust undir 194. grein. Enn undarlegra yrði það ef þeir tækju sig ekki saman núna og lokuðu loksins holunni endanlega.