TL;DR: Ég styð ekki Pírata bara af því ég er njörður sem hugsar í vandamálum og lausnum heldur líka af því mér þætti frábært ef það tækist að endurvekja aðeins hinn frjálslynda hippaanda kynslóðarinnar á undan minni í íslensku samfélagi og tel það góða leið til að bregðast við því hugmyndalegafræðilega hruni sem varð hér við bankahrunið 2008 (en ég var einmitt að vinna í banka þá og varð náttúrulega fyrir hálfgerðu andlegu áfalli sem hefur hins vegar verið mjög þroskandi fyrir mig til lengri tíma litið). ☮

Ég snæddi hádegismat með pabba mínum á hinum mæta veitingastað Asíu í gær. Það hefur lengi verið vikuleg hefð fyrir því að hann og við synir hans borðum þarna saman en í þetta skiptið vorum við bara tveir sökum lögmætra forfalla hinna tveggja sonanna.

Við ræddum meðal annars nýlega ákvörðun mína um að styðja Pírata formlega í kosningabaráttunni sem hann hafði margt áhugavert um að segja. Það sem mér þótti sérstaklega innsæisríkt var að hann lýsti Pírötum sem svona ‘hippahreyfingu, mínus ruglið’. Ég hafði nú ekki fyrir því að spyrja hvað hann ætti við með rugli, bæði af því ég var svo upptekinn við að hlæja að því hvað mér fannst þetta satt og af því að ég gat nú alveg gert mér sjálfur í hugarlund nokkurn veginn hvað hann átti við.

Ég er til dæmis hálfgerður hippi, mínus ruglið. Ég er stundum dálítill sveimhugi, alltaf friðelskandi og laðast að alls konar trúarbrögðum úr öllum heimshornum og tel kærleikann vera undirstöðu þeirra allra. Hins vegar er ég líka bara ansi jarðbundinn og samfélagslega ábyrgður, eins og það heitir nú víst á fínu máli. Í því sambandi má nefna að ég til dæmis tiltölulega nýhættur að drekka áfengi þar sem ég var farinn að finna að það hamlaði þroska mínum og getu til að taka þátt í samfélaginu á ábyrgan hátt. Svo hef ég bara allt of oft gert hluti drukkinn sem ég er ekki stoltur af þegar ég drekk – og hví þá að taka sífellt áhættu á að við það bætist? Kannabisið var ég búinn að láta sigla sinn veg áður af svipuðum ástæðum og vegna þess að það var farið að valda algjörri veruleikafirringu og flótta hjá mér. Ég viðheld samt ákveðnum hippaanda í viðhorfum mínum til þessa efna að því leyti að ég tel að fólk eigi að hafa sitt frelsi til að nálgast þau sem aðra hluti á sínum eigin forsendum og að fordæming hjálpi engum.

Í víðu samhengi skil ég þetta síðan þannig að þó svo að Píratar leggi áherslu á frjálslyndi, víðsýni og sjálfsþroska eru þeir ekki beinlínis á gömlu hippalínunni Turn on, tune in, drop out. Þvert á móti byggist hreyfingin þeirra einmitt á samfélagslegri ábyrgð og er ekki viðbragð við því sem þeir líta á sem óheilbrigt samfélag heldur þeirra leið til að láta gott af sér leiða innan heilbrigðs samfélags (sem þýðir alls ekki að hún vilji hundsa þau margvíslegu alvarlegu heilbrigðisvandamál sem því miður eru samt sem áður til staðar í samfélaginu á borð við vímuefnavanda, ofbeldi, misrétti, misskiptingu og neikvæðar staðalmyndir heldur alveg þvert á móti). Það má vel vera að hipparnir hafi á sínum tíma haft sínar algjörlega lögmætu ástæður til að hafna ‘borgaralegu samfélagi’ og standa utan þess. Ég held að þessi ‘læti’ í þeim hafi átt sinn þátt í því að Vestræn samfélög eru jafn frjálslynd og þau eru núna. Hins vegar hentar hverjum tíma sín aðferðafræði og aðferðafræði Pírata er viðleitni til að svara kalli nútímans í þeim efnum. Fyrir utan áhersluna á beint lýðræði og notkunar netsins í því augnamiði er hreyfingin til að mynda ekki sprottin upp frá sterkum hugmyndum um að alltaf sé best að láta einkaaðila sjá um alla hluti eða þá að ríkisrekstur sé frekar æskilegur sem slíkur. Áherslan er lögð á að hugsa út frá vandamálum og lausnum og öll stefnumál er hægt að endurskoða í ljósi nýrra upplýsinga og ábendinga; ekkert er alveg höggvið í stein enda lifa hugsjónir miklu betur í hjörtum fólks en á blaði.

Svo ég komi sjálfum mér aðeins aftur að þá vöktu þessi ummæli pabba míns, líkt og allar djúpar og innsæisríkar fullyrðingar, mun fleiri hugrenningar hjá mér og þá meðal annars um stjórnmál almennt. Mér varð til dæmis hugsað til þess þegar Stefán Ólafsson prófessor gerði góðlátlegt grín að Gunnlaugi Jónssyni frjálshyggjupostula fyrir að útlista það hvernig frjálshyggja er friðarhreyfing með því að kalla Félag frjálshyggjumanna Hippana í Hálsaskógi. Málið er nefnilega að mér fannst þeir báðir hafa nokkuð til síns máls. Gunnlaugur færði sum ansi sterk rök fyrir máli sínu en önnur veikari. Eitt sem höfðaði vel til mín persónulega var að hann tengdi taóisma og búddisma við frjálslyndi; nokkuð sem mér hafði ekki látið detta í hug sjálfum og kann ég honum þakkir fyrir það. Þetta hjálpaði til við að færa mig í frjálslyndisáttina þó málflutningurinn í heild sinni hafi nú ekki hvatt mig til að sjá ástæðu til að kalla mig frjálshyggjumann. Til að mynda finnst mér skrýtið að tala um ríkisafskipti sem ofbeldi. Ofbeldi er í mínum huga (og flestra held ég) þegar einhver veldur öðrum persónulegum skaða. Fjárhagslegur skaði eingöngu hefur hingað til aldrei verið kenndur við ofbeldi í íslensku máli. Til dæmis gætu allir væntanlega fallist á að ef einhver hefur af öðrum fé með því að hóta honum ofbeldi þá teljist það til andlegs ofbeldis, en fáum myndi detta í hug að kalla það ofbeldi ef einhver stelur seðlaveski sem er látið liggja á glámbekk. Það er bara hreinlega þjófnaður. Nú má deila um hvort fólki finnist skattheimta þjófnaður eða ekki, en það að kalla hana ofbeldi finnst mér ákveðin útþynning á tungumálinu og viðleitni til einföldunar í þágu hugmyndafræði. Auðvitað eru örugglega líka einfaldanir í minni eigin hugtakanotkun og það má ræða það allt saman ennþá frekar og jafnvel áfram endalaust, en fólk þarf samt að passa hugtakanotkun sína svo samræðurnar geti verið á sameiginlegum grundvelli.

Annað sem þarf síðan að passa er að bera virðingu fyrir öðru fólki og hlusta vandlega á hvað það hefur fram að færa óháð fyrirframgefnum hugmyndum um hvernig það er eða hvað það stendur fyrir. Hugtök vilja þvælast fyrir þessu þannig að það er þeim mun meiri ástæða til að fólk leggi svipaðan skilning í þau en taki þau ekki heldur of alvarlega. Það eru einmitt þannig samræður sem bæði ég sjálfur og Píratar vilja standa fyrir, samkvæmt minni mjög svo jákvæðu reynslu af því að tala við og starfa með Pírötum – sem er enn ein grundvallarástæðan fyrir því að ég lít á þá þetta sem mína hreyfingu. Hún rímar mjög vel við hvar ég stend sem einstaklingur og hvar ég stend í stjórnmálum og ég er mjög ánægður með að hafa loksins fundið mér alveg hárréttan stjórnmálavettvang fyrir mig, sem hef eiginlega aldrei viljað festa mig við einhver hugtök. Mér finnst ekki einu sinni bráðnauðsynlegt að kalla mig Pírata þó ég styðji hreyfinguna heilshugar. Stjórnmálastarf og hugsjónir eiga ekki að snúast um hugtök heldur um fólk. Ég er manneskja í samfélagi eins og við öll. Það nægir mér, þó mér finnist hippastimpillinn til dæmis nú eiginlega ekkert svo slæmur.

Ég vil enda þetta á viðeigandi lagi eftir mikinn meistara sem við pabbi fílum báðir í tætlur – og líka hann Kári bróðir minn sem er einmitt gríðarlegur hippi í anda: