‘Mitt fólk’, Pírataþingmennirnir Birgitta og Helgi Hrafn, tjáðu sig bæði í dag um lögleiðingu og afglæpavæðingu kannabisefna í kjölfar ummæla Brynjars Níelssonar í þá veru að hann styddi lögleiðingu þeirra. Þar tala þau auðvitað í takt við stefnu Pírata í þessum málaflokki.

Nú er allt sem tengist fíkniefnum auðvitað vandmeðfarið og margir sem hafa á því sterkar skoðanir – en það er einmitt þess vegna sem nauðsynlegt er að geta rætt þessi mál af yfirvegun og hreinskiptni og að opið sé fyrir mismunandi sjónarmið gagnvart þeim.

Sjálfur er ég alveg óhræddur við að styðja Píratastefnuna og mæla fyrir henni, enda byggist hún í meginatriðum á þeirri leið sem Portúgal hefur farið, sem er langt í frá einhver öfgafrjálslyndisstefna. Hið opinbera þar hefur ennþá fulla heimild til að skipta sér að fólki sem er í fíkniefnaneyslu en munurinn felst hins vegar í því hvers eðlis þau afskipti eru. Fólk sem er tekið með fíkniefni á sér er sett í ákveðið ferli þar sem lagt er mat á hvort það þurfi á meðferð að halda. Ef talin er þörf á meðferð hefur viðkomandi val um að annað hvort þiggja hana eða sæta íþyngjandi aðgerðum á borð við sektir, skertar bætur eða missi á starfsleyfi. Haldin er miðlæg skrá um fólk sem hið opinbera hefur afskipti af með þessum hætti og feril þeirra. Þannig er það áfram meðhöndlað í kerfinu – en ekki sem glæpamenn heldur fólk sem hugsanlega á við heilbrigðisvandamál að stríða.

Þetta er það sem er nefnt afglæpavæðing og er að mínu mati eina nálgunin gagnvart neytendum sem vit er í; ég á í raun erfitt með að sjá fyrir mér mótrök gegn henni sem ég myndi taka gild. Ef neytendur fremja aðra glæpi samhliða neyslunni hefur hið opinbera fulla heimild til að taka á þeim sérstaklega og því þarf ekki að glæpavæða neysluna sem slíka. Ég tel að þetta eigi að gilda um öll fíkniefni þó vissulega megi áfram hafa harðari úrræði vegna sumra fíkniefna en annarra.

Síðan má auðvitað deila um hvort ganga ætti enn lengra í frjálsræðisátt og hafa minni afskipti af neytendum, eða jafnvel engin – og þá væri um eiginlega lögleiðingu ofan á afglæpavæðinguna að ræða. Vissulega eru hinir og þessir á þeirri línu að þetta skref ætti að stíga fyrr eða síðar. Það er hins vegar í raun aðskilin umræða sem byggist á frelsissjónarmiðum sem og ákveðnum praktískum sjónarmiðum (Er það til dæmis ekki frekar stór fíll í fíkniefnastofunni að glæpagengi byggi uppgang sinn á auðveldu aðgengi að fíkniefnum að utan, líkt og fram kemur í nýjustu skýrslu Greiningardeildar Ríkislögreglustjóra? Samkrull gengjanna og fíkniefnanna byggist fyrst og fremst á því að þau eru ólögleg, rétt eins og samkrull mafíugengja og áfengis á bannárunum í Bandaríkjunum byggðist á því að áfengið var ólöglegt). Ég sjálfur er nokkuð hallur undir slík sjónarmið en þorri þjóðarinnar hins vegar greinilega ekki, líkt og sjá má í viðhorfskönnunum til lögleiðingar. Ég tel að þann almannavilja beri að virða og taka ríkt tillit til, án þess þó að beygja sig endilega undir hann – enda er öll umræða um þessi mál auðvitað ekkert annað en það enn sem komið er, umræða um núverandi ástand og hvort ástæða sé til að breyta því að einhverju leyti og þá hvaða leyti.

Ég held að enginn sé að fara að ana að einu né neinu þó fólk skiptist á orðum.

Ég var að rekast á alþjóðlega könnun frá því fyrr á árinu um viðhorf fólks til þess hvaða vandamálum heimurinn stendur einna helst frammi fyrir.

Þarna finnst mér einna áhugaverðast að skoða að hvaða leyti Íslendingar skera sig úr meðaltalinu.

Helst er þar að nefna að við Íslendingar teljum fátækt (bil milli ríkra og fátækara), stríð, trúarofstæki og mannréttindi meiri vandamál í áberandi ríkari mæli en meðalheimsborgarinn. Hvað alla þessa þætti varðar erum við meira en helmingi yfir meðaltalinu; 26% Íslendinga telja til dæmis að fátækt sé brýnasta vandamálið á móti 12% meðal heimsbyggðarinnar allrar.

Á móti kemur að við höfum síður áhyggjur af atvinnuleysi, hryðjuverkum, glæpum, menntamálum og alnæmi.

Samanlagt gefur þetta þá mynd af hinum dæmigerða Íslendingi að hann láti sig félagslegan jöfnuð, hófsemi í skoðunum og réttindi fólks miklu varða – ógnir gagnvart þessum gildum lítur hann á sem helstu ógnirnar gagnvart heimsbyggðinni allri. Við komum því sannarlega út sem friðsæl og sanngjörn þjóð í viðhorfum okkar rétt eins og mín eigin tilfinning fyrir henni gefur til kynna. Þarna er mikið til að byggja á þó auðvitað sé alltaf verk að vinna í þessum efnum.

Tónlistarhúsið Harpa er undarleg táknmynd fyrir bruðl ríkisins. Skiljanleg í ljósi þess hversu nýleg og áberandi hún er en síður skiljanleg í ljósi raunverulegra upphæða.

Í fjárlögum þessa árs fær Harpa 564,3 milljónir. Þjóðleikhúsið fær hins vegar til að mynda 709,4 milljónir og Sinfóníuhljómsveit Íslands ein og sér 901,8 milljón.

Auðvitað eykur rekstur Hörpu á útgjöldin en hún ein og sér er ekki jafn rosalegur liður í þeim og ætla mætti af málflutningi sumra. Er ekki betra að skoða hlutina aðeins heildstætt en að þrasa um eitt stakt hús?

Löngum hefur það verið haft fyrir satt að fólk sé almennt pólitískt róttækt í æsku en að slíkt rjátli af því eftir sem það eldist. Því er hins vegar öfugt farið með mig; ég hef orðið sífellt róttækari með aldrinum og ekki síst undanfarin ár, í kjölfar efnahags- og stjórnmálahruns sem að mínu mati kallar einmitt á ansi róttæka endurskoðun á samfélagsgerðinni. Róttæka í þeim skilningi að hún þarf að ná niður í rætur og byrja með hverjum og einum en getur ekki komið að ofan frekar en allar aðrar alvöru breytingar.

Ég tel að ein nauðsynlegasta róttæka breytingin sé sú að almenningur landsins láti sig stjórnmál meira máli skipta og að hinum almenna borgara verði færður ríkari sjálfsákvörðunarréttur í þeim efnum, einmitt af því að fólk missir áhuga á stjórnmálum ef það telur sig lítið geta haft um þau að segja. Valdeflingu almennings og beint lýðræði sé ég sem leiðina fram á við – en sú leið hefur hingað til verið vörðuð ríkum hagsmunum rótgróinna valdablokka sem gera breytingum erfitt um vik að festa rætur sín á meðal.

Af þessum sökum er mikilvægt að auka róttæknina í valdakerfinu sjálfu, þar með töldu flokkakerfinu. Því eru stjórnmálahreyfingar á borð við Pírata nákvæmlega það sem ég tel að Ísland þurfi á að halda núna. Stuðningur Pírata við réttindi hins almenna borgara er afdráttarlaus og í raun aðalástæða þess að Píratahreyfingin er til yfir höfuð. Píratar eru með einfalda grunnstefnu sem er grundvölluð á borgaralegum réttindum. Þessi réttindi eru vissulega lögbundin, en róttæknin felst í þeirri nálgun gagnvart þeim að verja þau með virkum hætti og efla getu hins almenna borgara til að standa vörð um þau á öllum sviðum lífs síns. Í þeirri viðleitni vilja Píratar draga úr miðstýrðu valdi, efla beina lýðræðið, auka gegnsæi stjórnsýslunnar og auðvelda aðkomu einstaklinga að málum sem þá varða.

Síðan má heldur ekki gleymast að alvöru róttækni snýst ekki bara um stjórnmál eins og þau birtast í lagasetningu og afskiptum (eða afskiptaleysi) hins opinbera heldur verða borgaraleg réttindi aldrei tryggð að fullu nema fólk njóti þeirra í raun og veru í sínu daglega umhverfi. Þannig vilja Píratar til dæmis með öllum leiðum (sem ekki brjóta gegn grunnstefnunni) berjast gegn hvers konar ójafnréttiofbeldiheftandi staðalmyndum og öðru því sem sem skerðir frelsi fólks til að njóta sín að fullu sem það sjálft. Þessi barátta fer ekki bara fram á hinu hefðbundna pólitíska sviði heldur í öllu samfélaginu. Ekki þarf að skipa opinbera nefnd fólks á launum úr ríkissjóði til að taka þátt í henni – þar geta einstaklingar og hagsmunahópar hæglega lagt sitt af mörkum ef tækifærin gefast til þess, í því sem svo réttilega er kallað grasrótarstarf. Einmitt af þessum sökum fjalla stefnumál Pírata meira um gildi og markmið en nákvæm útfærsluatriði. Þau eru vörður á leiðinni en ekki leiðin sjálf. Tækifæri til útfærslu má finna mjög víða og þegar eitthvað verður að stefnumáli Pírata þýðir það að Píratar munu berjast fyrir því hvar sem því verður við komið og efla getu allra sem áhuga hafa á slíkri baráttu til að taka þátt í henni.

Þetta er líklega hið allra róttækasta í nálgun Pírata á stjórnmálin; sú hugsun að stjórnmál snúist ekki um patentlausnir sem eru matreiddar ofan í kjósendur heldur gildi sem stjórnmálamenn standa fyrir og halda á lofti. Ef gildin eru á hreinu koma lausnirnar út frá þeim og Píratar fagna öllum framlögum til þeirra, hvaðan sem þau koma. Með þessu er tryggður grundvallarréttur hvers og eins til að taka fullan þátt í stjórnmálum, í víðum skilningi. Með lagasetningu og stjórnarathöfnum stendur hið opinbera vörð um borgaralegu réttindin en þegar kemur að því að efla þau þurfum við almennir borgarar fyrst og fremst að gera það sjálfir, í okkar nærumhverfi. Pólitíkin þarf þá að vera nálægt okkur og við þurfum að vera viss um að getum haft áhrif.

Ég hef fulla trú á að framtíð stjórnmálanna felist í því að stjórnmálamenn minnki við vald sitt en hjálpi í staðinn almenningi að auka sitt eigið vald – og þess vegna styð ég Pírata.