Prófessor Hannes Hólmsteinn Gissurarson ritaði í gær pistil um efni sem mér hefur lengi verið hugleikið (og þar eru heimatökin það hæg að nóg er að benda hreinlega á síðustu færslu þessa bloggs), sem er styrkir til stjórnmálaflokka. Í niðurlaginu kallar hann eftir mótrökum, og það sjálfsagt að verða við þeirri bón.

Meginröksemd prófessorsins er einföld – að það sé ‘eðlilegt’ að hlutafélög styrki flokka sem eru hlynntir viðskiptafrelsi (hvað varðar Ísland vill prófessorinn meina að þetta eigi við um Sjálfstæðisflokkinn einn flokka), en ‘óeðlilegt’ að þeir styrki flokka sem eru minna hlynntir viðskiptafrelsi. Ástæðuna segir hann þá að það þjóni hagsmunum hluthafa fyrirtækjanna að í valdastöðum séu aðilar sem vinna að viðskiptafrelsi, en þegar hlutafélag styrkir aðila sem ekki vinna að viðskiptafrelsi, þá sé verið að falast eftir óeðlilegri fyrirgreiðslu.

Hér er sitthvað athugavert.

Það sem einna helst stingur í augun er notkunin á hugtökunum ‘eðlilegt’ og ‘óeðlilegt’. Einhverra hluta vegna telur prófessorinn ‘eðlilegt’ að stjórnendur hlutafélags vinni að hagsmunum hluthafanna með því að stuðla að góðu viðskiptalífi almennt, en ‘óeðlilegt’ að þeir vinni að hagsmunum hluthafanna með því að stuðla að því að félagið fái einhverja sérmeðferð. Reyndar segir hann stjórnendurna í síðari tilfellinu vera að vinna gegn hagsmunum hluthafanna með því að styðja þá sem eru fjandsamlegir atvinnulífinu, en hann útskýrir í engu hvers vegna téðir stjórnendur ættu þá að taka ákvarðanir af þessu tagi. Jú, það hlýtur einmitt að vera vegna fyrirgreiðslunnar; stjórnendurnir meta það sem svo að heildarhagsmunum félagsins sé best borgið, njóti hennar við. Þess vegna hlýtur í báðum tilfellum að vera um nokkuð ‘eðlilegan’ gjörning að ræða, út frá sjónarhorni stjórnendanna (ef þeir fylgja því boði Friedmans að eina siðferðisskylda þeirra eigi að vera að hámarka arð til hluthafanna) – sem er í raun eina sjónarhornið sem prófessorinn athugar.

Þá komum við einmitt að öðru sem er athugavert; hinu þrönga sjónarhorni prófessorsins almennt. Hann tekur til dæmis enga afstöðu til þess hvort að það sé ‘eðlilegt’ út frá lýðræðis- og réttlætissjónarmiðum að í óþvinguðu umhverfi (sbr. það umhverfi sem flokkar og fyrirtæki bjuggu við hérlendis fram að árslokum 2006) dæli hlutafélög frekar fjármagni í þá flokka sem eru almennt ‘fyrirtækjavænir’, en hinir flokkarnir þurfi þá að svelta. Þar sem hann gagnrýnir þetta fyrirkomulag í engu (og þar sem ég man ekki til þess að hann hafi nokkurn tímann gagnrýnt það yfir höfuð) er freistandi að álykta sem svo að prófessorinn sjái ekkert athugavert við það í sjálfu sér; að fyrst og fremst vaki fyrir honum að sýna fram á að styrkir til Sjálfstæðisflokksins í gegnum tíðina hafa að mestu verið ‘eðlilegir’, en styrkir til Samfylkingarinnar ‘óeðlilegir’. Þegar maður hugsar kenninguna hins vegar í víðara samhengi rifjast óhjákvæmilega upp fyrir manni hugtak úr eldri pistli prófessorsins, en það er auðræði, eða plútókratía. Í Wikipediagreininni um það fyrirbæri segir meðal annars: „The influence the wealthy minority of the population has over the political arena includes campaign contributions …“. Hvort sem ætlunin er að kaupa sér pólitíkusa sem eru hlynntir viðskiptafrelsi, eða pólitíkusa sem veita fyrirtækinu fyrirgreiðslu, þá hlýtur að vera nokkuð ljóst að í báðum tilfellum eru stjórnendur fyrirtækis að nota auð fyrirtækisins til að hafa áhrif á hið pólitíska landslag. Á velli hinnar frjálsu samkeppni hugmynda er vandséð hvaða rúm er fyrir slíka feitra bitlinga einnar hugmyndafræði til handa, nema menn hafi ekki meiri trú á lýðræðinu en svo, að þeir telji að halda verði ákveðinni hugmyndafræði uppi með auðvaldi í skjóli hömluleysis og leyndar. Þó má nú segja að þetta sé allt saman í raun mjög í anda frjálshyggjunnar; svo lengi sem allir hafa óheft frelsi til athafna (í þessu tilfelli frelsi til að halda uppi ákveðnum flokkum með leynd – gleymum eitt augnablik að frjáls samkeppni hugmynda er að sama skapi skert með þessu, sem og frelsi kjósenda til að taka upplýstar ákvarðanir) er ekki hægt að setja út á það, þó niðurstöðurnar af því séu óréttlátar.

Mun fleira mætti segja um pistilinn og það sem er athugavert í honum, en einhvers staðar verður að láta staðar numið. Eitt þó að lokum. Prófessorinn ritar meðal annars eftirfarandi, þegar hann reynir að draga mörkin á því hvað eru óeðlilegir styrkir til hægriflokka, og hvað ekki: „Þótt styrkir fyrirtækja til Sjálfstæðisflokksins og sjálfstæðismanna séu rökréttir, á sama hátt og þeir eru órökréttir til vinstri flokka og vinstri manna, er annað mál, að slíkir styrkir mega auðvitað ekki verða svo háir, að einstakir aðilar öðlist úrslitaáhrif, eignist menn með húð og hári.“ Í þessu sambandi er áhugavert að skoða til að mynda tengsl sjávarútvegsfyrirtækja við Sjálfstæðisflokkinn, líkt og lesa má um t.d. hér. Hér er vel hugsanlega um sértækt dæmi um ívilnun í hið frjálsa markaðstorg hugmyndanna að ræða – þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur löngum staðið dyggan vörð um núverandi kvótakerfi í sjávarútvegi, þá má vel ímynda sér að tilgangur sjávarútvegsfyrirtækja með því að styrkja flokkinn sé ekki síst að halda því kerfi uppi með tilstilli auðmagnsins, og þá á kostnað lýðræðislegra leikreglna og frjálsrar samkeppni hugmynda.

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt.

You may use these HTML tags and attributes:

<a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>