Ég lenti í homma þegar ég var 15 ára. Hann bauð mér inn, lokaði hurðinni, stakk lyklinum í vasann, læsti og sagði þessi orð: „Eigum við ekki að rúnka okkur, vinur?“ Þá vissi ég strax að hann væri hommi. Og ég rotaði hann, fór í vasann hans og náði í lykilinn, fór á löggustöðina og sagðist ætla að kæra, enda hefði hann ætlað að nauðga mér. En þeir sögðust ekki taka skýrslu af drukknum manni.

Svo segir Gylfi Ægisson frá atviki sem henti hann sem ungan dreng í viðtali á Beinni línu DV. Hann talar þar einnig um aðra sem ekki voru jafn heppnir og hann og lentu í nauðgunum af hálfu annarra karlmanna. Allt þetta nefnir hann að því er virðist sem mótrök við þeirri kenningu sem hann segir suma vera með um að hommar ‘geri þetta aldrei’. Samt verður að teljast furðulegt að hann dragi þetta fram í umræðu þar sem hann situr fyrir svörum vegna fordómafullra viðhorfa sinna gagnvart samkynhneigðum og er í raun þráspurður um hvað hann hafi eiginlega á móti þeim. Að manni læðist óneitanlega sá grunur að honum þyki það bara ekkert rosalega sniðugt eða þægilegt almennt að til séu karlmenn sem leita í eða á aðra karlmenn og sér í því hættur sem ber að vera á varðbergi gagnvart. Ekki síst af því hann orðar söguna sína þannig að hann hafi ‘lent í homma’.

Stundum hefur verið gantast með þá meiningu að hommafælni hjá karlmönnum stafi af ótta þeirra við að aðrir karlmenn komi fram við þá eins og þeir sjálfir koma fram við konur. Það er kannski fullósanngjörn fullyrðing en þó er mögulega sannleikskorn í því að því leyti að samkvæmt almennum þjóðfélagsnormum er það þannig að karlmenn ganga á eftir konum og þá þykir jafnvel sumum töff að vera dálítið djarfur og láta reyna á hvar mörk liggja.

Karlmenn sem horfast í augu við þann möguleika eða jafnvel veruleika að þurfa að eiga við einhvern sem reynir með þessum hætti á þeirra eigin mörk, uppfullir af því viðhorfi að þeir eigi ekki að þurfa að sitja undir slíku þar sem þeirra mörk eru á kristaltæru varðandi það að öll athygli frá öðrum karlmönnum sé óæskileg, getur þá auðvitað orðið heitt í hamsi yfir þessum ‘grófa viðsnúningi’ á normunum. Samt væri þeim hollara og lærdómsríkara að stara djúpt inn í þennan hálfgerða spéspegil af sjálfum þeim.

Fjöldi þeirra stúlkna og kvenna sem svipaðar sögur hafa að segja úr sínu lífi og Gylfi fór með er óhuggulegur. Auðvitað geta líka margir drengir og karlmenn sagt hið sama en vegna þess að gagnkynhneigðir karlmenn eru fleiri en samkynhneigðir og vegna ofangreindra norma þess efnis að það sé karlmaðurinn sem reynir á mörkin er þetta mun ríkari þáttur í reynsluheimi kvennanna. Það er það sem reynsluheimur hóps X þýðir; reynsla sem hópur X þekkir almennt betur en einhver annar hópur.

Það er ekki ríkur liður í reynsluheimi stúlkna og kvenna að þær roti mann sem læsir sig inni einhvers staðar með þeim og hefur uppi kynferðislega tilburði gagnvart þeim. Bæði vegna líkamlegs munar á kynjunum og annars samfélagslegs norms, sem er það að stúlkum og konum beri að sýna viðleitni til að ganga á mörk þeirra ákveðið umburðarlyndi. Gefa því smá svigrúm því þetta sé að vissu leyti viðbúið og eðlilegt. Stelpu-Gylfa hefði tæplegast einu sinni dottið í hug að reyna að leysa úr aðstæðum sínum með hnefahöggum (Hins vegar hefði hún mun frekar lent í því sama og stráka-Gylfi þegar kæmi að því að reyna að kæra atvikið, en það er önnur og sorglegri saga). Það eru ákveðin forréttindi stráka-Gylfa sem hann getur þakkað fyrir, þó reyndar deila megi um hvort ofbeldi hafi þarna verið besta lausnin. Þetta var þó allavegana möguleiki sem honum stóð til boða og hann greip í. Það er það sem forréttindi hóps X þýða; möguleikar sem standa hópi X frekar til boða en einhverjum öðrum hópi.

Nú þegar ég hef notað mér hann Gylfa greyið (og hugsanlega líka óhóflegar einfaldanir einhvers staðar og biðst ég þá forláts á þeim) til að skilgreina tvö lykilhugtök eru það í stuttu máli ákveðin forréttindi karla að geta hundsað reynsluheim kvenna. Við þurfum að leggja það á okkur sérstaklega að skilja hann. Rétt eins og gagnkynhneigðir þurfa að leggja það á sig sérstaklega að skilja reynsluheim samkynhneigðra. Í báðum tilfellum gengur þetta auðvitað í báðar áttir. Nákvæmlega af þessum (og reyndar ótal fleirum) ástæðum er fjölbreytnin svo frábær. Hún neyðir marga til að huga að forréttindum sínum og reynsluheimi annarra sem án fjölbreytninnar hefðu hugsanlega getað liðið í gegnum lífið rænulausir. Nú veit ég ekki mikið um hversu mikið Gylfi hefur neyðst til að horfast í augu við reynsluheim kvenna þegar kemur að áreitni og nauðgunum, en hitt veit ég að fyrir mitt leyti veit ég allt of mikið um þann reynsluheim til að geta litið á sögur hans sem einhver dæmi um hommavandamál. Þær eru dæmi um vandamál sem varða heilbrigð mörk milli fólks og slíkt kemur kynhneigð ekkert við.

Þó, og þó, er eðli málsins samkvæmt tiltölulega auðvelt fyrir ungan dreng sem lendir í kynferðisofbeldi af hálfu karlmanns að heimfæra það bara á ‘hommana’ og láta þar við sitja, sérstaklega í samfélagi þar sem þeir eru litnir hornauga hvort eð er og eru ekki áberandi. Þannig er hægt að spara sér það ómak að þurfa að spá í hvaða hommar séu nú ‘í lagi’ og hverjir ekki. Þessi drengur býr sumsé við forréttindi sem ungar stelpur sem lenda í því sama búa ekki við; að vera laus við það erfiða verkefni að þurfa að læra að treysta karlmönnum almennt upp á nýtt.

Já, hommar nauðga alveg líka og níðast á börnum. Stundum. Það þýðir samt ekki að aðrir karlmenn hafi eitthvað að óttast frá þeim almennt, ekki frekar en að konur hafi eitthvað að óttast frá körlum almennt. Hins vegar mætti Gylfi alveg skoða að hvort viðhorf hans til homma séu kannski eitthvað ómaklega lituð af æskureynslunni ógeðfelldu og taka sér til fyrirmyndar hinar fjölmörgu stelpu-Gylfur sem hafa lent í svipuðu en elska samt karla.

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

You may use these HTML tags and attributes:

<a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>