Skip to: Site menu | Main content

Þarfagreinir

Mistök

Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og sjálfstæðisbáráttufrömuðarnafni, viðurkennir loksins að það hafi kannski ekki verið alveg rétt ákvörðun að styðja Kanana í árás þeirra á Írak. Ég fagna þessari yfirlýsingu hans, þó að mér finnist að hann hefði átt að segja þetta um leið og hann tók við sæti formanns Framsóknarflokksins. Það er lítil dirfska fólgin í því að tala á þessum nótum nú þegar jafnvel Kanarnir sjálfir viðurkenna upp til hópa að innrásin hafi ekki átt rétt á sér. En hvað um það; betra er seint en aldrei.

Málið er hins vegar að þetta voru alls engin mistök, alla vega ekki af hálfu Kanastjórnvalda. Þeir vissu nákvæmlega hvað þeir voru að gera – innrásin snerist aldrei um hugsanleg gereyðingarvopn Saddams eða tengsl hans við hryðjuverk, enda var það Kanastjórn nokkuð ljóst að tilvist hvors tveggja var ávallt í besta falli afar hæpin. Sorglegt nokk þá ákvað þessi stjórn að þyrla ryki í augu sinna eigin þegna og erlendra stjórnvalda; blekkja vísvitandi til að fá sínu framgengt.

Íslensk stjórnvöld drógust með inn í þessa hringavitleysu. Á því eru tvær skýringar mögulegar. Annað hvort létu þau blekkjast af skrípaleik Kanastjórnar, eða þau ákváðu að taka þátt vitandi hversu hæpnar ‘sannanirnar’ voru, þá vegna annarra hagsmuna. Í báðum tilfellum koma þeir sem ákváðu það fyrir okkur Íslendinga að við skyldum styðja innrásina afar illa út. Sumir, eins og Drífa Hjartardóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, vilja meina að íslensk stjórnvöld hafi einungis brugðist við þeim upplýsingum sem fyrir lágu – þær hafi síðar reynst rangar. Hið rétta í stöðunni, miðað við gefnar upplýsingar, hafi verið að styðja innrás. Þá er mér spurn: Af hverju brugðust þá fjöldamargar aðrar ríkisstjórnir öðru vísi við nákvæmlega sömu upplýsingum? Af hverju voru íslensk stjórnvöld þarna í minnihluta meðal ‘siðaðra’ þjóða? Mér þykir þetta afskaplega aum afsökun, því miður. Meira að segja mér var ljóst að eitthvað vafasamt var þarna á ferðinni … ég treysti Búski og félögum ekki fyrir fimm aura þá, og enn síður nú. Fjölmargir aðrir voru sömu skoðunar: 80% íslensku þjóðarinnar var á móti innrásinni. Af hverju var ekkert hlustað á okkur? Af því að stjórnin vissi þetta miklu betur en við? Ef hún hélt það á sínum tíma þá ætti hún að sjá það núna að henni skjátlaðist hrapalega.

Svo eru það kappar á borð við Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra og sjálfskipaðan sérfræðing í utanríkis- og varnarmálum. Hann spilar alltaf þá biluðu og gatslitnu plötu að stjórnvöld hafi bara verið að styðja okkar ‘hefðbundnu samstarfsaðila í öryggis- og varnarmálum’. Ég hef sagt það áður og segi það aftur að þetta eru bjánaleg og vægast sagt ömurleg rök; maður á ekki alltaf að gera það sem vinir manns segja bara af því að þeir eru vinir manns. Þetta hefði Björn átt að læra í æsku. Nú bætir Björn reyndar öðrum vinkli við málið. Hann segir meðal annars:

Það ber vott um yfirþyrmandi minnimáttarkennd eða ótrúlega mikilmennsku að telja sér trú um, að afstaða ríkisstjórnar Íslands hefði skipt einhverju um það, hvort ráðist yrði inn í Írak.

Þar höfum við það. Þar sem ríkisstjórn Íslands hefði ekki getað haft nein bein áhrif á hvort innrás hefði verið gerð eður ei, þá var bara best að lúffa og styðja hana í þeirri viðleitni að Kanarnir myndu þá kannski gera eitthvað fyrir okkur í staðinn. Eða er það ekki það sem þú ert að segja, Björn? Eða var þessi ákvörðun kannski bara tekin í einhverri rælni? Krónu kastað? Það er alla vega nokkuð ljóst að hún var lítils virði í ljósi þess að hún gat engin áhrif haft á neitt. Þú virðist sumsé aðhyllast þá hugmyndafræði að ef afstaða stjórnvalda geti ekki haft nein praktísk áhif, þá skipti hún engu máli og sé í raun tilgangslaus. Ætli hið sama gildi þá ekki, í þínum augum, um afstöðu almennra borgara? Það myndi alla vega útskýra af hverju þið félagarnir í ríkisstjórn ákváðuð að hundsa hana algjörlega í þessu máli. Þið hafið kannski hugsað sem svo: „Þó að þegnar landsins séu upp til hópa á móti innrás í Írak, þá breytir það engu um það að við munum styðja hana. Þess vegna er tilgangslaust fyrir almenning að hafa afstöðu í þessu máli.“

Nei, Jón Sigurðsson var ekki að vísa til þess að ákvarðanir íslenskra stjórnvalda hefðu getað breytt einhverju um gang mála. Þetta snýst um grundvallaratriði á borð við að ákvarðanir og yfirlýsingar stjórnvalda endurspegli vilja þjóðarinnar, og að þær séu vel ígrundaðar og siðlegar. Ákvörðunin um að styðja innrás í Írak uppfyllti engin þessara skilyrða. Hún fékk mig til að skammast mín fyrir það að vera Íslendingur. Ég vona að svona svívirða verði aldrei nokkurn tímann endurtekin. Pólitíkusar á borð við Björn Bjarnason sem virðast bara ekki fatta svona einfalda hluti þykja mér afar ódýr pappír.

“Mistök”

 1. Nornin sagði:

  Ég öskraði á sjónvarpið í fyrsta skiptið í marga mánuði. Ég hata Björn Bjarnason, maðurinn er fífl.

 2. Cygnus sagði:

  Fín stjórnmálagreining!

 3. Steinrí­kur sagði:

  Mér finnst alltaf eins og ríkisstjórnin sé 6 ára krakki sem vill hanga með Sámi frænda og hinum „stóru strákunum“, þó að hann vilji ekkert hafa svona pjakk í eftirdragi (nema þegar hann þarf eitthvað frá okkur).

  Er ekki kominn tími til að finna sér alvöru vini?

Ég hef þetta að segja:

XHTML: Þú mátt nota eftirfarandi tög: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>