Skip to: Site menu | Main content

Þarfagreinir

Urr

Fyrr í nótt var ég inni í eldhúsi og heyrði í Algrími væla fyrir utan. Ég leit út og sá hann á vappi fyrir neðan og ákvað að fara niður og hleypa honum inn, enda kunni ég ekki við að hafa hann nálægt þessari miklu umferðargötu sem ég bý við. Þegar ég kom út sást hins vegar hvorki tangur né tetur af honum, en mér heyrðist ég heyra í honum væla úr fjarska. Síðan sýndist mér ég sjá hann hlaupa um handan götunnar. Ég trítlaði þangað fyrir og sá fyrst annan, frekar lúpulegan lítinn kött. Síðan kom Algrímur aðvífandi og tók sér stöðu við hlið mér; virtist undalega smeykur við þennan meinleysiskött. Algrímur var síðan ekki lengi að stökkva á öxlina á mér og horfa þaðan niður á hinn köttinn, fullur yfirlætis. Ég reyndi að miðla málum og fá þá til að vingast hvor við annan, enda sýndist mér hinn kötturinn vera áhugasamur um það, en Algrímur vildi halda sinni fjarlægð.

Lúpulegi kötturinn hvarf síðan af vettvangi, og eftir stóðum við Algrímur, sem hoppaði upp á stóran kranabíl sem lagt er við götuna. Hann tók sér þar stöðu, og þá sá ég ástæðu þess að hann stökk þangað upp; nú var mættur hinn alræmdi svarti, feiti köttur sem hefur að minnsta kosti tvisvar hrakið Algrím upp í tré. Sá plantaði sér kyrfilega skammt frá okkur og hóf að stara á Algrím illilegum augum. Algrímur starði á móti og urraði. Eftir að ég hafði fylgst með þeim um skamma hríð ákvað ég að koma mínum ketti til bjargar og hvæsti á þann svarta. Honum var lítt brugðið; lét sér nægja að fara inn í nálægan runna og stara á okkur þaðan. Hann vissi það sem satt var, að ég myndi eiga erfitt um vik að ná til hans þar.

Við þetta ákvað ég að nóg væri komið og fór með Algrím yfir götuna aftur og inn; hann liggur núna við hlið mér, örmagna eftir þetta ævintýri.

“Urr”

  1. Siggi Sveinn sagði:

    Þetta minnir mig ögn á samskipti okkar félagana við nágrannaköttinn illræmda, Skotta.

Ég hef þetta að segja:

XHTML: Þú mátt nota eftirfarandi tög: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>