Skip to: Site menu | Main content

Þarfagreinir

Heimdellingar og fjármálin

Gat nú verið að Heimdellingar væru á móti tillögum um fjármál stjórnmálaflokka.

Ég ætla ekki að tjá mig um aðra þætti málsins en þann að Heimdellingarnir setja sig á móti því að styrkir til flokka verði gerðir opinberir; það má segja sitthvað um hinar tillögurnar, en þetta er algjört grundvallaratriði. Það er löngu, löngu, löngu tímabært mál að almenningi sé gert kleift að sjá hverjir styðja hvaða flokka og um hversu mikið. Allt andskotans röfl um að það sé ‘aðför að lýðræðislegum rétti’ að meina einhverjum að gefa leynilega til flokkanna er svo bjánalegt að það er ekki einu sinni fyndið.

Þetta er mjög einfalt:

Í lýðræðisríkjum er leynilegur kosningaréttur. Það þýðir að enginn annar en viðkomandi kjósandi veit hvað hann kaus. Ekki einu sinni flokkurinn veit það. Þetta er vel – það þýðir að þegar allt kemur til alls er það kjósandinn sjálfur sem ákveður hvað hann kýs, og hann getur ekki sannað fyrir neinum að hann hafi kosið tiltekinn flokk og farið fram á einhverja sérmeðferð þess vegna.

Leynileg greiðsla til stjórnmálaflokks er hins vegar annað mál, og ég skil ekki af hverju svona erfitt er að skilja það. Þegar einhver greiðir til flokks veit flokkurinn af því líka. Þetta hlýtur að skapa ákveðna spennu, sérstaklega ef upphæðin er há. Það er algjört lágmark að almenningur viti af slíkum greiðslum og geti metið það sjálfur hvort um óeðlileg tengsli flokka og fyrirtækja eða einstaklinga er að ræða. Heimdellingar vilja að þetta fari í gegnum einhverja stofnun, sem „færi með framlögin sem persónuupplýsingar en gæti beitt sér ef grunur leikur á um að verið sé að reyna að hafa óeðlileg áhrif á stjórnmálaflokka eða menn“. Hvernig í andskotanum á að meta hvort svo er? Hvaða viðmið á að nota? Þarf að setja sérstakar reglur um það? Og hvað á þá að gera ef þessi grunur kemur upp? Ég sem hélt að Heimdallur væri almennt á móti ríkisbáknum og afskiptasemi ríkisyfirvalda …

Langeinfaldast og réttlátast er að hafa greiðslur til stjórnmálaflokka eins opinberar og hægt er. Hagsmuni hverra skerðir það, ef mér leyfist að spyrja? Hver sem er myndi enn geta borgað hvað sem er til hvaða flokks sem er … almenningur myndi bara einfaldlega vita af því. Þannig á opið og lýðræðislegt þjóðfélag að vera. Leynimakkið á bara að vera í kosningunum sjálfum, enda fer lokauppgjörið fram þar. Ef þessar reglur verða til þess að flokkarnir fá minna, þá verður bara að hafa það. Hagsmunir hins almenna kjósanda vega að mínu mati miklu mun þyngra.

P.S. Ég veit ekki betur en að fyrirkomulag á borð við það sem ég lýsi hér sé hið langalgengasta í lýðræðissamfélögum. Er þá verið að traðka á rétti einstaklinga og fyrirtækja þar? Er Ísland eitt af fáum lýðræðislöndum í heiminum þar sem ‘rétturinn’ til að moka peningum leynilega í stjórnmálaflokka er virtur?

P.P.S. Ég sé heldur ekki betur en að téð fyrirkomulag minni um margt á hefðbundin markaðslögmál. Ef kjósendur meta það sem svo að einhver flokkur sé óhóflega mikið á framfæri annarra sem gætu haft ‘óeðlileg áhrif’ á flokkinn, þá geta þeir sleppt því að kjósa hann, og flokknum er þá sjálfkrafa refsað fyrir að þiggja háar fjárhæðir. Ef kjósendum er sama, þá getur flokkurinn haldið þessu áfram og allir eru sáttir. Hvað sem öðru líður þá finnst fyrr eða síðar jafnvægi í þessum málum út frá vilja kjósenda. Af hverju að búa til enn eitt ríkisbáknið til að stýra þessu handvirkt?

“Heimdellingar og fjármálin”

 1. Cygnus sagði:

  Flott- einkum umfjöllunin um
  hvatningu Heimdallar um aukin
  ríkisafskipti.

 2. Nornin sagði:

  Er Cygnus að reyna að koma þér í stjórnmálafræðina? 😉

  Kemurðu ekki með mér í forval vinstri-grænna á morgun? Tækifæri til að reyna að breyta einhverju.

 3. Þarfagreinir sagði:

  Mér sýnist það bara … kannski ég fari í hana einhvern tímann.

  Og núna er víst aðeins of seint að fara í forvalið. Sjáumst bara á Þarfaþinginu rétt bráðum.

Ég hef þetta að segja:

XHTML: Þú mátt nota eftirfarandi tög: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>