Skip to: Site menu | Main content

Þarfagreinir

Ósannindi á vefi Björgólfs Thors

Líklegast hefur það ekki farið framhjá mörgum að Björgólfur Thor Björgólfsson hleypti nýverið af stokkunum vefsíðu þar sem hann leitast við að útskýra viðskiptaferil sinn hérlendis út frá sinni eigin hlið. Strax frá upphafi var ljóst að þetta framtak væri tvíeggjað sverð, og að halda yrði mjög fimlega á því sverði til að það yrði Björgólfi og ímynd hans til gagns fremur en skaða.

Af þessum sökum þykir mér með hreinum ólíkindum að sjá á þessari síðu jafn augljósar rangfærslur og blasa við í umfjöllun um Icesave og innstæðutryggingar:

Þegar í ljós kom að viðbrögð stjórnvalda við falli Glitnis í lok september 2008 leiddu til þess að hæfismat á öllu íslenska bankakerfinu var lækkað og sá möguleiki varð ljós hjá þeim sem næst málum stóðu að íslensku viðskiptabankarnir gætu fallið vöknuðu spurningar um tryggingar innlána. Björgólfur Thor Björgólfsson veit að bankastjórar Landsbankans og sérfræðingar þeirra litu svo á þann 6. október 2008, – á síðasta starfsdegi sínum, að innistæður viðskiptavina bankans væru á ábyrgð bankans og þær fyrst og fremst tryggðar með eignum hans. Ekki var þannig litið á að íslenska ríkið væri ábyrgðaraðili innistæðna, hvorki í útibúum á Íslandi né erlendis og þá heldur ekki í dótturfélögum.

Það er ekki alls kostar rétt að spurningar um tryggingar innlána í íslenskum bönkum hafi ekki vaknað fyrr en Glitnir féll í september 2008. Hið rétta er að innstæðutryggingar höfðu verið í umræðunni meira og minna allt árið, ef ekki lengur. Það er allavega morgunljóst að þegar breska ríkið tók yfir bankann Northern Rock í febrúarmánuði, þá olli það töluverðri ókyrrð meðal breskra sparifjáreigenda, sem eðlilega óttuðust að fleiri bankar gætu fallið í kjölfarið, og vildu því hafa á hreinu hvernig innstæðutryggingum hjá hinum ýmsu bönkum þarlendis væri háttað. Þetta ætti að vera það augljóst atriði að ég tel mig ekki einu sinni þurfa að birta heimildir fyrir því – enda mun ég koma að þessu að nokkru leyti síðar í pistlinum hvort eð er.

Annað sem má setja stórt (jafnvel enn stærra) spurningamerki við úr þessari tilvitnun er sú fullyrðing að innan Landsbankans hafi menn verið með það alveg á hreinu við fall bankans að íslenska ríkið bæri ekki ábyrgð á innstæðum sparifjáreigenda hjá Landsbankanum. Þetta stangast nefnilega á við það sem þegar hefur komið fram í hinni ágætu skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, nánar til tekið kafla 18.2.3. Þar er til að mynda fjallað um fund bankastjóra Landsbankans og bankastjóra Seðlabankans þann 31. júlí 2008:

Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis var Halldór J. Kristjánsson nánar spurður út í fyrrgreindan fund með bankastjórn Seðlabankans. Halldór viðurkenndi að þá Davíð Oddsson hefði greint á um ábyrgð Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Um þetta sagði Halldór: „Ég var alltaf þeirrar skoðunar að við einhvers konar „normal“ aðstæður að þá væri „Evrópudírektívið“ þjóðréttarlegar skuldbindingar, svona „hobbí-lögfræðingur“ eins og ég, mér fannst það blasa við, að á bak við þessar tuttugu þúsundir. En ég er algjörlega sammála þeim í þessu sem segja að það megi draga mjög í efa hvort hún eigi við þegar kerfishrun verður og ég man eftir því að það var eitthvað sem hollenski seðlabankastjórinn hélt fram við okkur þegar við töluðum við hann að svona sjóður væri til að taka á einstökum áföllum en ekki kerfishruni. Ég var hins vegar á þeirri skoðun að samkvæmt lögunum um Tryggingarsjóðinn hefur Tryggingarsjóðurinn heimild til að taka lán, sem er nýtt til þess að greiða og ég leit þess vegna þannig á að miðað við þjóðréttarlega stöðu tilskipunarinnar þá bæri sjóðnum að taka slíkt lán og reyna að uppfylla skuldbindingar sínar. Og þegar menn eru að reyna að velta fyrir sér, þegar reynir á svona sjóð, þá eru menn náttúrulega aldrei að gera ráð fyrir altjóni, heldur að það sé eitthvert endurheimtuhlutfall, vonandi sem allra mest. En það var nú bara þessi „debatt“ sem við tókum um eðli þessara ábyrgða og Seðlabankinn og sérstaklega formaður Seðlabankastjórnarinnar hafði þennan skilning og mér fannst hann fullþröngur hjá honum, þótt ég viðurkenndi alveg meginsjónarmiðið.“

Sérstaklega er athyglivert að bankastjóri Landsbankans segist þarna alltaf hafa verið þeirrar skoðunar að innstæðutryggingar fælu í sér þjóðréttarlegar skuldbindingar. Þetta er afar erfitt að samræma við þá fullyrðingu að bankastjórar Landsbankans hafi ekki verið í neinum vafa um það þann 6. október 2008 að ríkið bæri enga ábyrgð á nokkrum innstæðum bankans. Þess fyrir utan er ögn síðar í skýrslunni sagt frá bréfi sem Landsbankamenn sendu Fjármálaeftirlitinu þann 17. ágúst 2008, þar sem þeir virðast telja að óvissa um ríkisábyrgð á innstæðutryggingum sé nokkuð sem sé einungis (og ómaklega) til staðar erlendis, og að réttast væri að hérlend stjórnvöld lægðu öldur með því að árétta að ríkið bæri ábyrgð á skuldbindingum tryggingarsjóðsins:

Loks segir í bréfinu: „Eitt þeirra atriða sem Landsbankinn verður var við og sem fyrst kemur upp í umræðu erlendis er vantrú aðila á íslenska innlánstryggingarsjóðinn sem (vegna skorts á eignum) er talinn ótrúverðugur. Það væri mjög til bóta fyrir kerfið í heild ef tekinn væri af allur vafi um ábyrgð ríkisins á skuldbindingum sjóðsins og myndi auðvelda bönkunum mjög að verjast þeirri ósanngjörnu gagnrýni sem núverandi óvissa býður upp á. Ef til [vill] ætti ábending FME.til stjórnvalda í þessa veru rétt á sér.“

Hér er því að dragast upp frekar greinileg mynd sem er í beinni andstöðu við það sem haldið er fram á vefsíðu Björgólfs Thors. Fleira má tína til, svo sem þessa frétt um bréf frá 23. september 2008, þar sem bankastjórar Landsbankans fögnuðu því að íslensk stjórnvöld höfðu einmitt tekið sig til og áréttað hlutverk og skuldbindingar ríkisins varðandi innstæðutryggingarnar.

Við þetta bætast skýrar heimildir um að Landsbankamenn hafi verið iðnir við það, í kjölfar áðurnefndra áhyggna breskra sparifjáreigenda um innstæðutryggingar, að árétta að Icesave væri algjörlega öruggt og vel varið af íslenska ríkinu. Ein sú magnaðasta er þessi hér, frá því í apríl 2008, þar sem ónefndur talsmaður Icesave ‘útskýrir’ málið:

“Icelandic banks pay into a fund which is set aside to be paid out for compensation should it be needed – the UK scheme doesn’t have this and could therefore technically take longer than the Icelandic scheme!” (Note from Martin: The UK scheme is set up to call money in if needed, rather than work on a pot of money system).

All talk of compensation schemes is purely hypothetical because they have never been used, but given the above, there is no reason to assume that the Icelandic scheme would be any more complicated or take longer.

In the extremely unlikely event that the Icelandic government wasn’t in a position to meet all claims, all the Nordic countries have an arrangement where they will step in and help any one of the participating countries that are in trouble so there is an additional layer of reassurance and cover.

If you could make it clear that Icesave customers are fully protected up to £35k the same as customers of any UK bank and that they will be paid as quickly I’d be very grateful!”

Hér virðist enginn vafi ríkja á ábyrgð ríkisins; einungis er talað um þann (gríðarlega ólíklega!) möguleika að íslenska ríkið gæti ekki borgað allar innstæðutryggingar, en því greinilega tekið sem gefnu að því bæri að gera það. Vissulega er þetta svar ekki beint frá stjórnendum bankans komið, en hins vegar er mjög erfitt að ímynda sér að hinn ónefndi starfsmaður bankans sem það skrifaði hafi ekki gert það í samræmi við einhverja almenna línu sem lögð var innan bankans um hvernig ætti að svara fyrirspurnum um innstæðutryggingar.

Eina ályktunin sem má með góðu móti draga af gögnunum er því þessi: Stjórnendur Landsbankans brugðust við efasemdum sem upp komu um innstæðutryggingar snemma árs 2008 með því að ‘árétta’ það fyrst sjálfir gagnvart viðskiptavinum sínum að innstæður þeirra væru að fullu tryggðar af íslenska ríkinu, en svo þegar það virkaði ekki nógu vel til að lægja öldur vildu þeir fá hérlend stjórnvöld til að taka þátt í að ‘árétta’ þetta atriði í eitt skipti fyrir öll. Þetta var væntanlega liður í því að verja bankann falli og bæta ímynd hans erlendis með því að reyna að fá íslensk stjórnvöld til að gerast bakhjarl hans með eins mörgum leiðum og menn gátu upphugsað.

Ofangreindar staðreyndir eru í hrópandi ósamræmi við það sem fullyrt er á vefsíðu Björgólfs Thors, þar sem í veðri er látið vaka að stjórnendur Landsbankans hafi verið með það á tæru að ríkið bæri ekki ábyrgð á innstæðum bankans, og að stjórnvöld hafi upp úr hruninu gert ríkið ábyrgt fyrir bankainnstæðum nánast í óþökk stjórnenda bankans, eða hið minnsta algjörlega án þeirra atbeina (þessi vitleysa er nánar reifuð hér).

Ekki er því annað að sjá en að í þessum efnum sé á síðu Björgólfs Thors reynt að fegra hlut Landsbankans verulega á kostnað stjórnvalda með bíræfnum rangfærslum. Vissulega ógildir þetta ekki sjálfkrafa allt sem á síðunni stendur – en þetta gefur svo sannarlega tilefni til að skoða það allt saman með afar gagnrýnum huga.

“Ósannindi á vefi Björgólfs Thors”

 1. Einar Jón sagði:

  Svo má ekki gleyma þætti efnahagsráðgjafa forsætisráðherra, sem fullyrti að ríkið myndi borga ef til þess kæmi.
  Landsbankinn hlýtur að hafa vitað af því, en nennti ekki að leiðrétta þá rangfærslu – þögn er sama og samþykki og allt það…

 2. Þarfagreinir sagði:

  Já, samkvæmt söguskýringunni á Björgólfsvefnum hefur téður ráðgjafi væntanlega tekið upp á þessu algjörlega upp á eigin spýtur, líkt og allir embættismenn sem stunduðu þá vitleysu að halda því fram að ríkið bæri ábyrgð á innstæðum.

  Annars þá má lesa ummæli hins bankastjórans, Sigurjóns Þ. Árnasonar, í skýrslu RNA neðarlega hér. Þetta er auðvitað, líkt og ummæli Halldórs J., látið falla eftir hrun, og nánar til tekið eftir 6. október. Þarna fer ekki beint fyrir meintri vissu hjá Sigurjóni um að ‘innistæður viðskiptavina bankans væru á ábyrgð bankans og þær fyrst og fremst tryggðar með eignum hans.’ …

 3. Einar Jón sagði:

  Skondið…

  Merkilegir þessir menn sem halda að við lifum í Oceaníu Orwells og það sé nóg að endurskrifa söguna á nokkrum stöðum til að breyta staðreyndum.

 4. Þarfagreinir sagði:

  Einmitt – og hér sést enn einu sinni hversu mikilvæg skýrsla rannsóknarnefndarinnar er. Í henni er að finna á einum stað gott samansafn tiltölulega hlutlausra staðreynda sem erfitt er að draga í efa. Ef ekki væri fyrir hana væri örugglega enn verið að deila um spunarugl á borð við það sem Björgólfur Thor býður okkur núna upp á, en þökk sé skýrslunni er lítið mál að hrekja það. Það er samt mjög mikilvægt að fólk muni eftir skýrslunni og lesi hana almennilega.

 5. Sjonni sagði:

  Jamm. Þetta er aumkunarverð tilraun hjá Bjögga að reyna að fegra sannleikann. Rétt eins og Sigurður Einarsson mætti þessi maður drukkna í eigin skít. Ekki myndi ég gráta það.

 6. Þarfagreinir sagði:

  Skemmtilegt nokk þá hafa smáfuglarnir á AMX einmitt sömu vitleysuna eftir engum öðrum en Kjartani Gunnarssyni í dag. Þá er nú gaman að vera búinn að forhrekja hana …

Ég hef þetta að segja:

XHTML: Þú mátt nota eftirfarandi tög: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>