Skip to: Site menu | Main content

Þarfagreinir

Af hákörlum

Þessi pistill um nauðganir og það sem mætti kalla nauðganamenningu hefur vakið töluverða athygli og farið víða um netheima. Það er fyllilega eðlilegt í ljósi þess að þarna er stungið á ákveðnum kýlum sem því miður er ekki nógu oft stungið á. Höfundur pistilsins sýnir mikið hugrekki með því að opna sig með þessum hætti og vekja þannig þarfa umræðu. Ég ætla að reyna að sýna samsvarandi hugrekki með því að tjá mig um þetta málefni af hreinskilni út frá karllægu sjónarhorni.

Sæunn talar um ‘hákarla’, sem er afar frjó samlíking. Sannleikurinn er nefnilega sá að líkt og hún bendir á, þá hálfpartinn elur samfélag okkar á hákörlum. Hákarlinn er þessi kaldi töffari sem nálgast heiminn í heild sinni, og sér í lagi konur, líkt og bráð sem þarf að veiða og sigrast á. Í sinni öfgafyllstu og ógeðfelldustu mynd er þetta nauðgari og hrotti, en sá hákarl sem er nánast samfélagslega viðurkenndur er sá sem fær útrás fyrir hákarlseðlið innan ramma laga og félagslegra viðmiða. Hann bakar sér kannski ekki endilega vinsældir allra í kjölfarið, en hann nýtur sannarlega virðingar innan ákveðinna kreðsna. Barney Stinson úr sjónvarpsþáttunum How I Met Your Mother er til að mynda hinn erkitýpíski hákarl; maður sem notar konur eins og gólfmottur og er lafhræddur við allt sem svo mikið sem nálgast það að heita skuldbinding. Í því samhengi er reyndar mjög áhugavert að kafa aðeins ofan í persónuna og átta sig á því að forsaga hans er sú að eitt sinn var hann einstaklega ljúfur og auðsveipur maður, en í kjölfar þess að verða fyrir vonbrigðum í ástum ákvað hann að snúa blaðinu algjörlega við, herða sig upp, og skapa sér hákarlsímynd. Innst inni á hann sér þó enn sínar viðkvæmu hliðar og hefur efasemdir um gildi lífernis síns, eins og farið er yfir af þónokkurri lagni í þáttunum. Í gegnum Barney eru þannig skoðaðar öfgar í tvær áttir. Annars vegar mjúki og væmni bangsinn sem lætur vaða algjörlega yfir sig, og hins vegar harði og svali hákarlinn sem lokar á tilfinningar sínar af ótta við að vera .særður eða álitinn veikgeðja.

Það er nákvæmlega milli þessara öfga sem nútímakarlmanninum hættir til að sveiflast, og mörgum okkar líður oft eins og við séum í þessum efnum hálfpartinn milli steins og sleggju. Það er hið minnsta algjörlega víst að mér hefur sjálfum oft liðið þannig. Í mínum dekkstu stundum hef ég fyllst vonleysi yfir því finnast ég engan veginn geta uppfyllt þær kröfur sem samfélagið og konur gera til mín sem karlmanns, og meira að segja fundist það mér vera algjörlega á huldu hverjar þessar kröfur eru. Stundum hefur þetta leitt til þess að ég hef heillast af hákarlshlutverkinu, en ég hef sem betur fer aldrei fundið mig almennilega í því.

Það er auðvitað mjög í tísku að kenna ‘feðraveldinu’ um þau samfélagslegu mein sem leiða til krísna af þessu tagi, en ég held engu að síður að í slíkum málflutningi felist sannleikskorn. Líkt og Sæunn kemur inn á tíðkast í vestrænu nútímasamfélagi ákveðin dýrkun á ‘strákamenningu’, og það er slík menning sem held að einkenni feðraveldið öðru fremur. Feðraveldið elur ekki af sér fullþroska og ábyrga karlmenn, heldur stráka í karlmannslíkömum. Strákar verða einmitt alltaf strákar en ekki karlmenn, og djúpt undir hrjúfum hákarlsskrápi stráksins sem aldrei náði að vaxa almennilega úr grasi grassera sálarmeinin, og brjótast út í sínum verstu myndum í hegðun á borð við þá sem Sæunn lýsir í pistli sínum. Það er nokkuð til í því sem foreldrar okkar sögðu okkur margir hverjir þegar við lentum í því að vera strítt sem krakkar, að þeir sem koma illa fram við aðra gera það af því þeim líður sjálfum illa. Ég get vissulega einungis talað fyrir sjálfan mig, en fyrir utan óöryggi með kynhlutverk mitt hefur mitt helsta sálarmein í gegnum árin verið meðvirkni; mjög lúmskt og ætandi mein sem lítið sem ekkert ekkert skilur eftir andlega. Það hjálpar ekki heldur beinlínis til að réttlætingarnar fyrir því að vera hákarl má finna afskaplega víða. Þeir sem heillast af vísindahyggju geta til að mynda fundið sig í erfðafræðihugmyndum, þar sem skipa má körlum og konum þröng hlutverk. Karlinum er til að mynda sagt eðlislægt að vilja ‘dreifa fræjum’ sínum sem víðast, en ekki bindast neinum tilfinningaböndum, og hákarlinn sagður sú manngerð sem allar konur vilja innst inni. Þarna vill gleymast að út frá nákvæmlega sömu forsendum er alveg jafn hæglega hægt að réttlæta allt öðruvísi kynhlutverk. Ég held að í þessum efnum, sem svo mörgum öðrum, lesi fólk það út úr staðreyndum sem það vill lesa út úr þeim.

Öll erum við jú viti bornar verur og hljótum að bera ábyrgð á sjálfum okkur, okkar viðhorfum og okkar gjörðum. Fyrsta skrefið í átt að því að breyta samfélaginu er að breyta sjálfum sér, og í því hef ég unnið ötullega, og og hyggst halda því áfram svo lengi sem ég lifi. Þar tek ég mér meðal annars til fyrirmyndar Barney Stinson, sem vissulega nær að þroskast og vitkast eftir því sem á þættina líður, og hrista aðeins af sér hákarlsbúninginn. Fyrirmyndirnar finnast nefnilega hér og þar, þegar að þeim er leitað. Í flóknu og á köflum firrtu nútímasamfélagi þarf bara því miður stundum að leita frekar lengi að þeim.

Ég hef þetta að segja:

XHTML: Þú mátt nota eftirfarandi tög: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>