Skip to: Site menu | Main content

Þarfagreinir

Hinn Gumminn

Í gærkvöldi rambaði ég alveg óvart á Omega þegar ég var að horfa á imbann. Þar voru saman komnir tveir gamalgrónir kappar, þeir Guðmundur Örn Ragnarsson og Ólafur Jóhannsson. Með sér höfðu þeir ungan mann að nafni Sigurður, sem ég hef ekki séð þarna áður og hvers föðurnafn ég heyrði ekki. Sá hafði verið langt niðri þegar hann fór í Byrgið og fann Drottinn, og telur sig nú vera kominn á beinu brautina. Ekkert nema gott um það að segja, og einnig um þær samræður sem þarna fóru fram í heildina – þær voru yfirvegaðar og vinalegar. Þeir tóku þá skynsamlegu ákvörðun að dæma hvorki til né frá í skandalsmálinu sem upp er komið í Byrginu, og töluðu mest um sína lífsreynslu og hvernig þeir komust í kynni við Jesú Krist og svo framvegis. Óttalega notalegt allt saman.

Engu að síður þykir mér alltaf dálítið ónotalegt að heyra hann Guðmund Örn tala, allt frá því að ég heyrði predikun hans fyrir örfáum vikum síðan. Þar tók hann á málefnum kvenna á vægast sagt ógeðfelldan hátt. Það er ekki laust við að hrollur hafi farið um mig við að hlýða á þau orð. Óhætt er að segja að afstaða hans er afdráttarlaus. Að mati Guðmundar eiga konur ekkert erindi í opinbert líf, punktur. Þeirra eina hlutverk er að vera heima og sinna fjölskyldunni. Auðvitað passaði hann sig á því að mæra þetta göfuga starf, húsmóðurstarfið. Það er nefnilega ekkert ómerkilegra en ‘karlastörfin’ sko … Guð hefur hlutverk handa öllum, og þau eru öll jafnmikilvæg. Þau eru bara svolítið mismunandi, sérstaklega milli kynja. Annað sem fram kom í sömu predikun, þó minna svaðalegt sé, var það viðhorf að enginn af núverandi Alþingismönnum eigi í raun erindi í að stjórna landinu, þar sem enginn þeirra er ‘réttlátur’, það er að segja frelsaður.

Guðmundur þýðir ‘hönd Guðs’. Ef Guðmundarnir tveir, þessi og forstöðumaður Byrgisins, eru dæmigerð dæmi um hendur Guðs, þá held ég að hann þurfi að fara að þvo sér um hendurnar.

P.S. Guðmundur Örn sagðist í þessu spjalli í gærkvöldi eitt sitt hafa starfað sem kennari í Byrginu. Skyldi hluti þeirrar kennslu hafa farið í miðlun á ofangreindum viðhorfum? Maður spyr sig.

“Hinn Gumminn”

  1. Nafnlaust sagði:

    in before ekki stanna!

  2. Anonymous sagði:

    Ekki stanna!

Ég hef þetta að segja:

XHTML: Þú mátt nota eftirfarandi tög: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>