Í svari iðnaðar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Oddnýjar Harðardóttur um álver í Helguvík, og reyndar fyrirspurninni sjálfri, afhjúpast merkilegt viðhorf.

Það viðhorf virðist byggjast á því að alls kyns ‘hindranir’ standi því fyrir þrifum að erlend fyrirtæki geti reist hér álver og að það sé hlutverk ríkisstjórnarinnar að gera nákvæmlega allt sem hún getur til að ryðja þeim ‘hindrunum’ úr vegi. Þetta er reyndar ekki nýtt viðhorf; það mátti meðal annars sjá hjá fráfarandi iðnaðarráðherra. Hindranirnar virðast þarna aðallega snúast um að ekki sé víst að álverinu verði tryggt rafmagn – og væntanlega er það ein helsta hindrunin sem núverandi stjórnvöld telja standa í vegi fyrir þessu bráðnauðsynlega verkefni, þó ráðherra svari nú reyndar engu um það efnislega. Aðalmálið er greinilega gleðin yfir því að Century Aluminum sé til í þetta og að það eigi að halda þeim góðum með öllum mögulegum leiðum.

Nú er það staðreynd sem væntanlega hefur farið framhjá fáum að núverandi stjórnvöld leggja mikla áherslu á fullveldi lands og þjóðar og sjálfstæði gagnvart erlendu valdi og skammstafanastofnunum. Þetta er líklega það stef sem stjórnarflokkarnir tveir eru hvað mest samstíga í og eiga fylgi sitt að þakka að miklu leyti, ekki síst Framsóknarflokkurinn sem lagði ríka áherslu á að gagnrýna síðustu ríkisstjórn fyrir að gefa of mikið eftir gagnvart erlendum samningsaðilum í Icesavedeilunni. Það skýtur því að mínu mati mjög skökku við að sjá það viðhorf boðað grímulaust gagnvart erlendum álfyrirtækjum að stjórnvöld muni gera hvað sem er til að greiða götu þeirra.

Það er nefnilega einnig vel þekkt staðreynd að arðbærni álframleiðslu hefur dregist saman og mun halda áfram að dragast saman í náinni framtíð að mati sérfræðinga. Öll álframleiðslufyrirtæki með viti eru því núna að leita leiða til að auka hagkvæmni og ná upp arðbærninni eins og mögulegt er. Góð leið til að gera það er að leita til ríkja sem hafa sýnt það ríkan vilja til að fá álver í hin og þessi byggðarlög að ekki er útlit fyrir því að þau muni beinlínis sýna einhverja hörku í samningum um kaup og kjör á borð við raforkuverð og skattívilnanir. Íslensk stjórnvöld hafa alltaf gefið það út með frekar skýrum hætti að það er markmið í sjálfu sér að fá álver í nánast öll byggðarlög þar sem einhver er tilbúinn til að náðarsamlegast reisa eitt slíkt. Litið er á þetta sem greiða gagnvart okkur Íslendingum og viðkomandi byggðarlagi.

Þannig er því miður í raun fátt nýtt í þessu viðhorfi, nema kannski helst hversu afdráttarlaust það er orðað og það einmitt á tímum þar sem það er einmitt í raun ekkert sérstaklega aðkallandi að fá fleiri álver. Það er engin ástæða til að tala eins og álfyrirtækin séu að gera okkur greiða með því að byggja álver hérna. Það erum við sem erum að gera þeim greiða með því að undirbjóða aðra og ég tel að stjórnvöld eigi að bæði viðurkenna þá staðreynd og nýta sér út í ystu æsar í samningum við fyrirtækin, ætli þau sér að hafa öll eggin áfram í sömu körfunni á annað borð. Ef ekki tekst að ná hagstæðum samningum á einfaldlega að sleppa þessu – það hljóta einfaldlega að vera einhver sársaukamörk á því hvenær það hættir að vera markmið í sjálfu sér að álver rísi einhvers staðar.

Það hvort það sé hlutverk stjórnvalda að hlutast svona til um atvinnuuppbyggingu og byggðaþróun yfir höfuð (og í þessu tilfelli á svæði sem áður var haldið uppi af erlendum stjórnvöldum) er síðan sérkafli sem ég ætla ekki að fara út í hér og nú. Hið sama má segja um viðhorf forstjóra álfyrirtækisins, sem ráðherra gerir enga athugasemd við, að ríkisstjórn sé ‘kosin’ og að sú ‘kosning’ gefi einhverja vísbendingu um stuðning almennings við hina og þess stefnu ríkisstjórnarinnar.

1 thought on “„Allt sem í hennar valdi stendur“

  1. Þarfagreinir says:

    „Finally, two days before Christmas, Watson noted that the bill passed with the 12 aurar/kWh rate increase. Meanwhile, Watson also noted, everyone else could expect to collectively pay $343.2 million more in taxes in 2010. And this was on top of sin tax hikes the government implemented unilaterally in May 2009, practically in the dead of night to mitigate anticipatory panic buying. As van Voorst noted in June, Steingrímur lamented the excise, calling it “the first of many cold showers.” But while the government was willing to foist “cold showers” on every man, woman, and child in 2010, a year already expected to be beset by economic woes, it folded like a cheap suit in the face of Big Aluminium’s histrionics.“

    http://www.grapevine.is/Home/ReadArticle/The-Secret-History-Of-The-Collapse

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

You may use these HTML tags and attributes:

<a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>