Á leið minni til vinnu í morgun keyrði ég framhjá illa förnum og yfirgefnum bíl sem stóð úti í vegkanti, nánar til tekið undir brú. Hann hafði væntanlega lent í árekstri og verið skilinn eftir í kjölfarið. Þessi sjón minnti hinn tiltölulega nývaknaða mig á senu úr ‘post-apocalyptic’ vísindaskáldskap; einhvers konar ámátlegar leifar af horfinni siðmenningu.

Eins og við var að búast var hræið hins vegar horfið þegar ég keyrði undir hina sömu brú á leiðinni heim aftur síðar um daginn. Útsendarar uppbyggingar og reglu hafa ekki verið lengi á staðinn til að fjarlægja þessa leiðu áminningu um þau niðurrifsöfl sem stöðugt eru að verki í alheiminum (samanber til að mynda annað lögmál varmafræðinnar).

Þetta tel ég þörfa áminningu. Íslenskt þjóðfélag er ekki það illa á sig komið að umhverfi okkar sé farið að drabbast niður að ráði. Reyndar eru auðar byggingar hér og þar (sem sumar hverjar hafa verið látnar vísvitandi standa auðar í annarlegum tilgangi) ákveðin teikn um að hér drjúpi ekki endilega smjör af hverju strái, en að flestu öðru leyti gengur tilveran sinn vanagang, og enn höfum við jú efni á að hreinsa upp eftir okkur mestan skítinn. Heimurinn er ekki hruninn, og við þurfum ekki að slást við stökkbreytinga milli þess sem við rótum í ruslinu eftir nytsamlegum forngripum sem ekki lengur eru framleiddir.

Jæja, ég viðurkenni það bara – ég spilaði Fallout allt of mikið á sínum tíma, og stundum ímynda ég mér að skemmtilegt væri að búa í sundursprengdum og óreiðukenndum heimi þar sem lögmál frumskógarins gilda ein. Þegar sá hamur kemur yfir mig man ég samt alltaf fyrr eða síðar eftir risasporðdrekunum, og slíkar rómantíseraðar vangaveltur hverfa þá sem dögg fyrir sólu.

3 thoughts on “Bílhræ

  1. Þarfagreinir says:

    Haha.

    Minnir mig á þegar ég talaði óvart um ‘hvað hafi valdið þessu’ þegar ég var að tala við Finngálknið einu sinni – hann sagðist þaðan í frá ætla að kalla mig Valda. Sem betur fer hefur hann þó ekki fylgt þeirri fyrirætlan stíft eftir.

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt.

You may use these HTML tags and attributes:

<a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>