Fyrir liggur nú á Alþingi nýtt frumvarp um fjölmiðla. Frumvarpið er ítarlegt mjög, og ekki er ætlunin í þessum pistli að gera þeim tæmandi skil. Ætlunin er þvert á móti einungis sú að tæpa á pistli nokkrum eftir fjölmiðlaspekúlantinn Óla Björn Kárason, þar sem hann bölsóttast út í valdar greinar frumvarpsins. Gömlu vinir hans, smáfuglarnir á AMX, taka síðan upp söng hans hér.

Eitt smávægilegt atriði virðist Óla Birni hins vegar hafa yfirsést. Nú er það nefnilega svo, að með þessu nýja frumvarpi er meðal annars verið að leggja niður hin gömlu útvarpslög, en um leið færa margt af því sem í þeim er yfir í nýju lögin. Skemmtilegt nokk þá eru þau atriði í nýja frumvarpinu sem Óli Björn kýs að agnúast út í, og nefna sem dæmi um hættulega forræðishyggju, í langflestum tilfellum tekin beint, eða nánast beint, úr gildandi útvarpslögum. Eftirfarandi samanburðarrannsókn, þar sem allar tilvitnanir Óla Björns í frumvarpið eru bornar saman við útvarpslög, ætti að vera upplýsandi.

1) „Fjölmiðlaþjónustuveitendur sem miðla myndefni í línulegri dagskrá skulu kosta kapps um að meiri hluta útsendingartíma sé varið í dagskrárefni frá Evrópu.“

Í útvarpslögum stendur:

„Sjónvarpsstöðvar skulu kosta kapps um að meiri hluta útsendingartíma sé varið í íslenskt dagskrárefni og annað dagskrárefni frá Evrópu.“

Í nýju lögunum er ekki tekið fram sérstaklega að íslenskt efni fellur undir efni frá Evrópu, væntanlega af því það er heldur augljóst.

2) „Fjölmiðlaþjónustuveitendur sem miðla myndefni í línulegri dagskrá skulu, eftir því sem unnt er, sjá til þess að minnst 10% af útsendingartíma, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 33. gr., á ári hverju eða minnst 10% af árlegu dagskrárfé sé varið til evrópskra verka sem framleidd eru af sjálfstæðum framleiðendum.“

Í útvarpslögum stendur:

„Sjónvarpsstöðvar skulu, eftir því sem unnt er, sjá til þess að minnst 10% af útsendingartíma, sbr. 2. mgr. 7. gr., á ári hverju eða minnst 10% af árlegu dagskrárfé sé varið til evrópskra verka sem framleidd eru af sjálfstæðum framleiðendum. Sjónvarpsstöðvar skulu leggja áherslu á að svo stór hluti af verkum sjálfstæðra framleiðenda sem unnt er sé sýndur innan fimm ára frá því að gerð þeirra lauk.“

3) „Aðili sem telur að lögmætir hagsmunir hans, einkum æra hans eða orðspor, hafi beðið tjón af því að rangt hafi verið farið með staðreyndir í fjölmiðli hefur rétt til andsvara í viðkomandi miðli eða til annarra jafngildra úrræða.

….“

Í útvarpslögum stendur:

„Þeir aðilar, einstaklingar, félög eða stofnanir, sem telja að lögmætir hagsmunir þeirra, einkum orðspor og mannorð, hafi beðið tjón af því að rangt hafi verið farið með staðreyndir í útvarpsdagskrá, hafa rétt til andsvara á viðkomandi útvarpsstöð eða til annarra jafngildra úrræða. Andsvör skulu send út innan hæfilegs tíma frá því að rök voru færð fyrir beiðninni og á þeim tíma og með þeim hætti sem hæfir þeirri útsendingu er beiðnin tekur til.“

Fjallað er um andsvararétt í nokkuð lengra máli í nýju lögunum en þeim gömlu, en eftir stendur að andsvararéttur er tryggður fyrir í útvarpslögum – og Óli Björn setur einmitt einna helst í þessu samhengi út á það að löggjafinn sjái ástæðu til að tryggja hann með lögum yfir höfuð.

3) „Viðskiptaorðsendingar [auglýsingar] og fjarsala skulu þannig gerðar að ekki valdi börnum siðferðilegum eða líkamlegum skaða. Í viðskiptaorðsendingum og fjarsölu er óleyfilegt að:
a. hvetja börn til þess að kaupa vöru eða þjónustu með því að notfæra sér reynsluleysi þeirra eða trúgirni,
b. hvetja börn til þess að telja foreldra sína eða aðra á að kaupa vöru eða þjónustu sem auglýst er,
c. hvetja börn til neyslu á matvælum og drykkjarvörum sem innihalda næringarefni og efni sem hafa næringar- og lífeðlisfræðileg áhrif og ekki er mælt með að séu í óhóflegum mæli hluti af mataræði, einkum fitu, transfitusýrur, salt/natríum og sykur,
d. notfæra sér það sérstaka trúnaðartraust sem börn bera til foreldra, kennara eða annars fólks, eða
e. sýna börn að tilefnislausu við hættulegar aðstæður.“

Í útvarpslögum stendur:

„Útvarpsauglýsingar skulu þannig gerðar og fluttar að þær valdi ekki börnum siðferðilegum eða líkamlegum skaða. Í útvarpsauglýsingum er óleyfilegt að:
a. hvetja börn til þess að kaupa vöru eða þjónustu með því að notfæra sér reynsluleysi þeirra eða trúgirni,
b. hvetja börn til þess að telja foreldra sína eða aðra á að kaupa vöru eða þjónustu sem auglýst er,
c. notfæra sér það sérstaka trúnaðartraust sem börn bera til foreldra, kennara eða annars fólks eða
d. sýna börn að tilefnislausu við hættulegar aðstæður.“

4) „Viðskiptaorðsendingar og fjarsala skulu vera auðþekkjanlegar sem slíkar og vera skýrt afmarkaðar frá öðru efni með þeim hætti sem best hentar því formi miðlunar sem notað er hverju sinni.
Duldar viðskiptaorðsendingar eru óheimilar. Í hljóð- og myndsendingum í viðskiptaskyni skal ekki beita tækni til að hafa áhrif á fólk neðan marka meðvitaðrar skynjunar.
Viðskiptaorðsendingar og fjarsala skulu ekki:
a. skerða virðingu fyrir mannlegri reisn,
b. fela í sér nokkra mismunun á grundvelli kynferðis, kynþáttar eða þjóðernis, ríkisfangs, trúarbragða eða trúarskoðana, fötlunar, aldurs eða kynhneigðar,
c. hvetja til hegðunar sem er hættuleg heilbrigði eða öryggi, eða
d. hvetja til hegðunar sem er í áberandi andstöðu við umhverfisvernd.“

Í útvarpslögum stendur:

„Auglýsingar skulu vera auðþekkjanlegar sem slíkar og vera skýrt afmarkaðar frá öðru dagskrárefni með myndskilti eða hljóðmerki. Sama gildir um fjarsöluinnskot.
Duldar auglýsingar eru bannaðar, sem og dulin fjarsöluinnskot.
Í auglýsingum og fjarsöluinnskotum skal ekki beita tækni til að hafa áhrif á fólk neðan marka meðvitaðrar skynjunar.“

Þarna er upptalningin á því hvað auglýsingar mega ekki innihalda vissulega ný af nálinni, og því má Óli Björn vel eiga andúð sína á þeirri nýjung óáreittur.

Hvað andúðina í garð annarra þeirra atriða sem hann agnúast út í verður hins vegar að varpa fram spurningunni: Af hverju var Óli Björn svona lengi að átta sig á því böli sem forræðishyggja löggjafans á sviði fjölmiðlunar er?

2 thoughts on “Fjölmiðlalagabölið

  1. Ásgeir says:

    Ég skil ekki hvernig það að þessi lög séu þegar í gildi réttlæti það að þau verði líka inni í nýja frumvarpinu..

  2. Þarfagreinir says:

    Vissulega góður punktur. Það er vissulega ekkert sem skikkar löggjafann til að halda öllum þessum ákvæðum inni. Það breytir því samt ekki að það er kolrangt að halda því fram að þetta sé einhver ný þróun í lagasetningunni, líkt og Óli Björn gerir tvímælalaust. Ég fæ alla vega engan veginn séð betur.

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt.

You may use these HTML tags and attributes:

<a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>