Í útvarpsviðtali um daginn sagði forsætisráðherra að ákveðin umræða sem hann er sjálfur ósáttur við væri nánast hættuleg lýðræðinu.

Þetta lýsir að mínu mati frekar undarlegum skilningi á hugtakinu lýðræði, sem ég hélt að þýddi bara hreinlega að lýðurinn ræður, til hins betra eða verra. Stundum getur lýðurinn verið óttalegur skríll, og í opinberri umræðu er það stundum ómálefnalegasta gólið sem vekur mesta athyglina. Það er nákvæmlega ekkert nýtt í því, sérstaklega í kjölfar hrunsins ‘svokallaða’ sem opnaði á flóðgáttir ringulreiðar, pirrings og vantrausts í garð stjórnmálamanna. Af tvennu illu kýs ég þó sjálfur öflugt aðhald lýðsins en sinnuleysi hans, enda veit hann oftar en ekki sínu viti þó það henti þeim sem vilja gera lítið úr honum að einblína á það ómálefnalegasta sem frá honum kemur. Aðhaldið breytir líka þegar grannt er skoðað frekar litlu um hvaða formlegu völd ríkisstjórnir hafa, svo lengi sem þær hanga saman – og miðað við tal forsætisráðherra um samheldni stjórnarflokkanna ætti hann með réttu alls ekki að vera farinn að óttast þann möguleika að hún leysist upp.

Allt sem forsætisráðherrann hefur látið frá sér fara um hvernig hann sér þessa hluti fyrir sér bendir hins vegar til þess að hann kjósi samt sem áður frekar sinnuleysið, sem hann kallar reyndar samstöðu. Þetta er gott dæmi um hvernig valdhafar reyna að eigna sér orð sem með réttu eru lýðsins. Samstaða er ekki fyrirskipuð að ofan; hún er sjálfsprottin meðal almennra borgara sem flykkja sér um sameiginleg hugðarefni, á borð við að bölva ríkisstjórinni sem Virkir í athugasemdum.

Verk forsætisráðherra og ríkisstjórnar hans hingað til lofa síðan ekki góðu hvað virðingu fyrir lýðræðinu varðar. Enginn áhugi er til að mynda sýndur á því að láta nokkurt einasta mál fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í tíð fyrri ríkisstjórnar fóru Framsóknarmenn margir hverjir mikinn í því að knýja á að sú stjórn héldi þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræðurnar við ESB, en núna þegar þeir geta stjórnað þessu sjálfir þarf auðvitað ekki að spyrja lýðinn nokkurs. Núna áskilja þeir sér ‘rétt’ til að halda ekki viðræðunum áfram (sem þeir vilja ekki gera hvort eð er) nema að spyrja lýðinn leyfis áður. ‘Beint lýðræði’ sem er ekkert annað en öryggisventill gagnvart því að valdhafar geri ekki það sem þeir vilja ekki gera getur aldrei talist annað en skrípaleikur og skrum. Svipað má segja um hástemmd kosningaloforð sem dregst síðan að mati óþolinmóðs almúgans að uppfylla; það er ekkert óeðlilegt að miðað við núverandi stöðu mála upplifi margir kjósendur sig illa svikna.

Orðræðu og aðferðum af þessu tagi ber fólki í raun borgaraleg skylda til að mótmæla hástöfum á hvaða vettvangi sem það hefur til þess. Það er því ekki nema furða þó að um holt og hæðir heyrist nú kallað: Vér mótmælum allir! Það er ekkert hættulegt lýðræðinu þó ráðamönnum finnist það sumpart ósanngjarnt. Það er hins vegar mjög hættulegt lýðræðinu að valdhafar vilji vera það einangraðir frá lýðnum að þeir líði ekki einu sinni hróp hans og köll.

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

You may use these HTML tags and attributes:

<a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>