Ég hef aðeins verið að melta pistilinn sem Egill ‘Gillz’ skrifaði í gær um grínið sitt, tilgang þess og afstöðu sína til þess þegar hann lítur til baka. Pistillinn er ekki alslæmur og ég trúi því ágætlega að maðurinn iðrist þess í raun og veru að hafa farið yfir strikið við og við.

Það sem ég hef hins vegar mest við þennan pistil að athuga er að Gillz heldur þarna áfram að stilla upp þeim andstæðum sem hann hefur alltaf staðið frekar fastur á að viðhalda. Það er annars vegar fólk eins og hann sem vill halda í frekar hefðbundin kynjahlutverk og hins vegar ‘hugsjónafólkið’ sem vill afmá þau og um leið afmá tilverurétt fólks eins og Gillz og menningu þess, sem snýst um frekar einfalda og ‘yfirborðskennda’ hluti. Þarna virðist ekkert sérstaklega mikið rúm fyrir málamiðlanir. Gillz segir berum orðum að hann hafi farið út í grín sitt sem viðbrögð við þeirri ógn sem hann taldi sér og sinni menningu stafa af hinum andstæða póli. Þannig er grínið greinilega ekki bara létt grín heldur liður í baráttu fyrir ákveðnum gildum og gegn ákveðnum öðrum gildum.

Slík átakamiðuð nálgun hlýtur eðli málsins samkvæmt að kalla á frekari átök. Nú má deila endalaust um hversu sanngjarnt það er að halda á lofti gömlum skrifum Gillz árum saman en staðreyndin er engu að síður sú að Gillz ákvað sjálfur á sínum tíma að taka þennan slag. Hann kaus af eigin vilja að stíga fram sem Jólakúksboðberi baráttu gegn feminisma og nafngreindum feministum. Hann kaus líka af eigin vilja að upphefja sinn eigin menningarkima á kostnað annarra menningarkima með uppnefnum og niðurlægingu í garð þeirra sem tilheyra þeim. Hnakki eða trefill – er valið ekki augljóst? Annars vegar alvöru menn og hins vegar hálfgerðir væsklar. Þó allt sé það sett fram í ‘gríni’ er undirliggjandi alvaran samt greinileg.

Annað skýrt dæmi um þessa átakanálgun sem greinilega er enn til staðar hjá Gillz mátti sjá í Monitorviðtali við hann:

Já, ég er fín fyrirmynd. Eða ég vona það. Hvað er fyrirmynd? Þeir sem eru alltaf að tönglast á að einhver sé vond fyrirmynd hafa örugglega frekar takmarkaða trú á ungu fólki. Ég veit að vinstrisinnaðir femínistar eru ekkert sammála því að ég sé góð fyrirmynd. Mér finnst ólíklegt að það muni gerast að ungir strákar velji sér einhverjar lopahúfur sem fyrirmyndir. Er eitthvað að því að ungir strákar velji sér fyrirmynd sem er reyklaus, dóplaus, í góðu formi og neiti að láta valta yfir sig?

Þarna er hann spurður að því hvort hann telji sig góða fyrirmynd og þar lætur hann sér ekki nægja að segja að hann telji svo vera heldur gerir hann lítið úr ‘andstæðingum’ sínum og uppnefnir þá í leiðinni. Þeir geti nú tæpast verið góðar fyrirmyndir.

Satt best að segja er mér eiginlega fyrirmunað að skilja af hverju Gillz viðheldur ennþá þessari skiptingu þrátt fyrir að hafa vissulega þroskast og mildast í málflutningi sínum að mörgu öðru leyti. Ég tel hana nefnilega vera stærsta undirliggjandi vandamálið við viðhorf hans og málflutning.

Sem táknmynd baráttu fyrir ákveðnum gildum og menningu tel ég karaktera á borð við Gillz eiga rétt á sér þó ég sé sjálfur ekki mjög hallur undir þau gildi og menningu – á hnakka vs. treflaskalanum er ég mun nær því að vera trefill.

Þegar baráttan snýst hins vegar ekki síst um að vega gagngert að öðrum gildum og menningu snýst hún upp í andhverfu sína – þá er hún farin að vinna gegn þeim fjölbreytileika sem henni er ætlað að standa fyrir. Fólk á að fá að velja sjálft hvort það vill vera hnakkar eða treflar (og allt þar á milli eða jafnvel fyrir utan skalann), og velja sér þær fyrirmyndir sem þeim finnst bestar. Maður sem finnst að frelsi sínu til að vera hann sjálfur vegið ætti með réttu að skilja þetta manna best.

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt.

You may use these HTML tags and attributes:

<a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>