‘Mitt fólk’, Pírataþingmennirnir Birgitta og Helgi Hrafn, tjáðu sig bæði í dag um lögleiðingu og afglæpavæðingu kannabisefna í kjölfar ummæla Brynjars Níelssonar í þá veru að hann styddi lögleiðingu þeirra. Þar tala þau auðvitað í takt við stefnu Pírata í þessum málaflokki.

Nú er allt sem tengist fíkniefnum auðvitað vandmeðfarið og margir sem hafa á því sterkar skoðanir – en það er einmitt þess vegna sem nauðsynlegt er að geta rætt þessi mál af yfirvegun og hreinskiptni og að opið sé fyrir mismunandi sjónarmið gagnvart þeim.

Sjálfur er ég alveg óhræddur við að styðja Píratastefnuna og mæla fyrir henni, enda byggist hún í meginatriðum á þeirri leið sem Portúgal hefur farið, sem er langt í frá einhver öfgafrjálslyndisstefna. Hið opinbera þar hefur ennþá fulla heimild til að skipta sér að fólki sem er í fíkniefnaneyslu en munurinn felst hins vegar í því hvers eðlis þau afskipti eru. Fólk sem er tekið með fíkniefni á sér er sett í ákveðið ferli þar sem lagt er mat á hvort það þurfi á meðferð að halda. Ef talin er þörf á meðferð hefur viðkomandi val um að annað hvort þiggja hana eða sæta íþyngjandi aðgerðum á borð við sektir, skertar bætur eða missi á starfsleyfi. Haldin er miðlæg skrá um fólk sem hið opinbera hefur afskipti af með þessum hætti og feril þeirra. Þannig er það áfram meðhöndlað í kerfinu – en ekki sem glæpamenn heldur fólk sem hugsanlega á við heilbrigðisvandamál að stríða.

Þetta er það sem er nefnt afglæpavæðing og er að mínu mati eina nálgunin gagnvart neytendum sem vit er í; ég á í raun erfitt með að sjá fyrir mér mótrök gegn henni sem ég myndi taka gild. Ef neytendur fremja aðra glæpi samhliða neyslunni hefur hið opinbera fulla heimild til að taka á þeim sérstaklega og því þarf ekki að glæpavæða neysluna sem slíka. Ég tel að þetta eigi að gilda um öll fíkniefni þó vissulega megi áfram hafa harðari úrræði vegna sumra fíkniefna en annarra.

Síðan má auðvitað deila um hvort ganga ætti enn lengra í frjálsræðisátt og hafa minni afskipti af neytendum, eða jafnvel engin – og þá væri um eiginlega lögleiðingu ofan á afglæpavæðinguna að ræða. Vissulega eru hinir og þessir á þeirri línu að þetta skref ætti að stíga fyrr eða síðar. Það er hins vegar í raun aðskilin umræða sem byggist á frelsissjónarmiðum sem og ákveðnum praktískum sjónarmiðum (Er það til dæmis ekki frekar stór fíll í fíkniefnastofunni að glæpagengi byggi uppgang sinn á auðveldu aðgengi að fíkniefnum að utan, líkt og fram kemur í nýjustu skýrslu Greiningardeildar Ríkislögreglustjóra? Samkrull gengjanna og fíkniefnanna byggist fyrst og fremst á því að þau eru ólögleg, rétt eins og samkrull mafíugengja og áfengis á bannárunum í Bandaríkjunum byggðist á því að áfengið var ólöglegt). Ég sjálfur er nokkuð hallur undir slík sjónarmið en þorri þjóðarinnar hins vegar greinilega ekki, líkt og sjá má í viðhorfskönnunum til lögleiðingar. Ég tel að þann almannavilja beri að virða og taka ríkt tillit til, án þess þó að beygja sig endilega undir hann – enda er öll umræða um þessi mál auðvitað ekkert annað en það enn sem komið er, umræða um núverandi ástand og hvort ástæða sé til að breyta því að einhverju leyti og þá hvaða leyti.

Ég held að enginn sé að fara að ana að einu né neinu þó fólk skiptist á orðum.

4 thoughts on “Lögleiðing og afglæpavæðing fíkniefna

  1. Davíð Arnar Baldursson says:

    Vel mælt Halldór. Mig langar til þess að bæta við þetta að í fíkniefnabanni felst tvöfalt siðgæði þar sem einn hópur fíkniefnaneytenda bannar öðrum hópi að neyta þeirra fíkniefna sem þóknast þeim ekki. Góður árangur hefur hins vegar náðst í því að minnka drykkju og reykingar barna og unglinga án þess að grípa hafi þurft til banna hvað fullorðna einstaklinga varðar.

  2. Þarfagreinir says:

    Nákvæmlega. Ef meðalíslendingurinn kæmi í eitthvað land þar sem viðhorf til neyslu einhvers annars vímuefnis væri það sama og viðhorf Íslendinga til áfengisneyslu fengi hann algjört menningarsjokk. Ég held að félagslegt ‘stigma’ gagnvart hinum og þessum efnum sé alveg nógu mikið þó að stjórnvöld séu ekki að styðja undir það með því að glæpavæða neyslu þeirra.

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt.

You may use these HTML tags and attributes:

<a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>