Síðastliðinn fimmtudag birtist í DV viðtal við Hildi Sverrisdóttur, sem tók sæti sem borgarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn þegar Gísli Marteinn Baldursson steig til hliðar. Þar sem ég er áskrifandi að DV hef ég aðgang að öllu viðtalinu og ætla að vitna í valinn kafla úr því og gera að umtalsefni. Ég vona að mér leyfist það og bæti upp þennan leka með að hvetja fólk til að gerast áskrifendur svo það geti lesið allt viðtalið.

Orðin eru þessi:

Beint lýðræði er alltaf meirihlutalýðræði. Það er nauðsynlegt að taka samtal við borgarbúa, það má hins vegar ekki verða þannig að fáir borgarbúa tali hæst og taki völdin af þeim sem hafa ekki sömu tækifæri til þátttöku. Ég nefni sem hugsanleg dæmi, innflytjendur, aldraða og þá sem eiga ekki heimangengt. Stjórnmálamenn eru hugsjónamenn, þeir eru valdir af borgar­búum til að sinna þörfum þeirra allra. Ekki bara þeirra háværustu.

Ég veit að fólk er ólíkt. Sumir vilja taka þátt. Sumir nenna því alls ekki eða hafa ekki tíma. Hvað erum við að segja? Erum við að segja að það bætist við foreldrahlutverkið að liggja yfir öllum skýrslum og bókhaldi af því þú getur ekki treyst því að kjörnir fulltrúar geri það fyrir þig?

Eiga þeir að taka ábyrgð á henni? Ég held að það skapi óþarfa álag á marga ef þeir geti ekki treyst því að réttindi þeirra verði ekki á einhvern hátt hlunnfarin því þeir höfðu ekki tíma til að mæta á íbúafund. Á meðan við erum með fulltrúalýðræði verðum við að bera virðingu fyrir því að það séu fyrst og fremst kjörnir fulltrúar sem bera ábyrgðina þrátt fyrir að samráð sé oft nauðsynlegt.

Við þetta er sitthvað að athuga.

Meginrökin þarna eru um hættuna á því að þeir sem hafa ekki tækifæri til eða áhuga á að taka þátt í beinu lýðræði séu hlunnfarnir. Það verði að vera hægt að treysta kjörnum fulltrúum til að sinna þörfum allra enda séu þeir í vinnu við það og ekki sé hægt að ætlast til að allir hafi tíma eða tækifæri til að liggja yfir gögnum og taka ákvarðanir um allt. Hildur segir samráð mikilvægt en virðist stilla því upp á móti beinu lýðræði. Annað hvort höfum við kerfi þar sem kjörnir fulltrúar taka ákvarðnir og hafa eftir atvikum einhvers konar samráð við kjósendur eða þá kerfi þar sem eiginlega ákvarðanataka er að miklu leyti í höndum kjósenda. Staðreyndin er hins vegar sú að þarna á milli er ansi vítt róf.

Þegar talað er um beint lýðræði er vissulega oft átt við að fólk kjósi beint um hinar og þessar ákvarðanir en sjálfur vil ég hugsa þetta töluvert víðar. Grundvallaratriði er að til séu skýr og stjórnsýslulega formleg ferli fyrir almenning til að verja réttindi sín og hafa einhvers konar aðkomu að umræðu og ákvarðanatöku. Einnig að gögn séu aðgengileg til að þeir sem hafa áhuga á og tíma til að liggja yfir þeim geti það og síðan gert athugasemdir við þau eða jafnvel miðlað til annarra á einfaldan hátt. Mér er sama hvað það er kallað en tel að beint lýðræði sé ágætt almennt hugtak yfir svona formleg ferli sem færa kjósendum aukinn sjálfsákvörðunarrétt.

Vissulega er þarna að mörgu að hyggja og hættan á að sumir verði útundan er eitt af því. Hins vegar er sú hætta líka til staðar þegar kjörnir fulltrúar sjá um málin þó Hildur vilji greinilega gera lítið úr henni með því að höfða til þess að pólitíkusar séu í starfi sínu af hugsjón. Jafnvel þó fallist sé á að þannig sé málum alltaf háttað hefur fólk ekkert greiðari aðgang að kjörnum fulltrúum en ferlum sem lúta að beinu lýðræði – og sá aðgangur sem er til staðar tryggir engan veginn á formlegan hátt að allar raddir fái að heyrast. Þess fyrir utan hljóta flestar ákvarðanir sem snúast um að velja eitt fram yfir annað að vera í ósætti við einhvern hluta þeirra sem þær hafa áhrif á og þá skiptir ekkert endilega alltaf höfuðmáli hvort það eru kjörnir fulltrúar eða kjósendur sem taka þær; aðalmálið hlýtur að vera að huga að sanngirni eins vel og kostur er á. Þetta liggur sumsé í eðli lýðræðsins í sjálfu sér, hvort sem það er fulltrúalýðræði eða beint lýðræði.

Þegar maðurinn sem Hildur tók við af hvarf til annarra starfa lét hann þau fleygu orð falla að við erum öll borgarfulltrúar. Þar átti hann við að víðar en í borgarstjórn er hugsjónafólk sem hefur tíma og getu til að setja sig inn í mál. Því fólki er varla síður treystandi til að huga að réttindum og hagsmunum annarra en kjörnum fulltrúum – og formleg ferli þar sem allir sem vilja geta verið að einhverju leyti borgarfulltrúar eru varla líklegri til að valta yfir einhverja en þau ferli sem nú eru til staðar, séu þau rétt hugsuð og útfærð. Margir sem minna mega sín eiga sér síðan hagsmunasamtök sem myndu njóta góðs af fleiri leiðum til að berjast fyrir skjólstæðinga sína.

Endanlega ábyrgðin þarf líka engan veginn að færast af hendi kjörinna fulltrúa þó þeir opni aðeins ákvarðanatökuferlið. Þar má líka hafa í huga að völd og ábyrgð haldast í hendur þannig að það er fyllilega eðlilegt að þegar kjörnir fulltrúar afsala sér völdum yfir einhverju færist ábyrgðin með. Í raun er bara verið að segja sama hlutinn á mismunandi hátt, enda notar Hildur sjálf orðið völd þegar hún segir hversu slæmt það sé að einhver óskilgreindur hópur kjósenda (sem er greinilega að mati Hildar síður treystandi til að vera hugsjónafólk en kjörnum fulltrúum) valti yfir annan. Það hljómar bara betur þegar stjórnmálamenn tala um að þeir þurfi að bera ábyrgð en þegar þeir segjast þurfa hafa völd.

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt.

You may use these HTML tags and attributes:

<a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>