Ég er með flókna og hugsanlega mikla miðjumoðsafstöðu gagnvart niðurhali á afþreyingarefni.

Auðvitað kemur það niður á þeim sem leggja vinnu í þetta að fólk horfi á það og hlusti algjörlega ókeypis og ef allir gerðu það væri enginn grundvöllur fyrir framleiðslu á þessu efni. Það er samt gríðarlega freistandi fyrir hvern og einn að gera þetta ókeypis af því það er svo hentugt; ég stenst til dæmis engan veginn þá freistingu alfarið.

Þeir sem eiga hins vegar alveg skilið að verða af tekjum eru milliliðirnir, sumsé þeir sem leggja í markaðssetningu og dreifingu. Netið gerir þá að miklu leyti óþarfa þar sem neytendur geta auðveldlega nálgast upplýsingar um efni sem og efnið sjálft milliliðalaust á netinu. Allir tilburðir til að halda uppi úreltu milliliðafyrirkomulagi með uppskálduðum landmærum og svæðaskiptingum eiga því engan rétt á sér að mínu mati. Ég ætti að geta keypt svona efni með greiðslukortinu mínu hvar sem er á netinu fyrir sama verð og fólk alls staðar annars staðar í heiminum, rétt eins og ég get keypt bækur eða annan varning. Öll lög og reglur sem taka af mér þann sjálfsagða rétt eru ólög að mínu mati.

Varðandi framleiðslukostnaðinn þá er langt í frá sjálfsagt að til sé hópur fólks sem er á ofurlaunum við að framleiða svona lagað, sama hversu vel það stendur sig í því. Ég er nokkuð viss um að það er til nóg af fólki sem hefur brennandi áhuga á þessu sem er alltaf tilbúið að vinna við það svo lengi sem það fær allavega mannsæmandi laun við það. Hið sama gildir um allan annan framleiðslukostnað; þessar listgreinar leggjast tæplega af þó að eitthvað dragi úr hagnaðnum.

Best væri ef það væri til hreinlega einhvers konar einfalt styrkjakerfi þar sem fólk leggur fram þær upphæðir til þeirra listamanna sem það vill, hvenær sem er, með einföldum músarsmelli. Það er þó kannski óraunhæfur draumur og á meðan hann er óuppfylltur þarf maður einhvern veginn að haga sér í samræmi við veruleikann. Eitt prinsipp sem ég er sjálfur með er að sækja mér ekki íslenskt efni (nema það sem er hæfilega gamalt) og styrkja íslenska framleiðslu eftir megni þegar ég fæ færi á því. Markaðurinn hér er lítill og íslenskumælandi fólk er fátt og þá ríður á að við styðjum ‘okkar’ afþreyingarefni.

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt.

You may use these HTML tags and attributes:

<a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>