Uss

Ég var að frétta að Kántrísveit Baggalúts kom fram á síðustu árshátíð fyrirtækisins sem ég vinn núna hjá. Ég hefði betur hafið störf hér fyrr … en svo má auðvitað alltaf vona að sveitin endurtaki leikinn næst.

Í dag er allt undirlagt af snjó í höfuðstaðnum. Því miður þurfti ég að ná í bílinn minn í dag eftir að hafa yfirgefið hann í gærkvöldi sökum ölvunar. Ekki tókst heimferðin betur en svo að ég festist í beygju inn á Miklubrautina, og var ég alls ekki einn um það. Þessi beygja var orðin að hálfgerðri félagsmiðstöð á tímabili – allir komnir út úr bílunum að hjálpa hver öðrum við að komast úr snjónum. Eftir að kall nokkur á stórum jeppa hafði dregið mig inn á Miklubrautina var afgangur ferðarinnar áfallalaus.

Eitt er gott við snjóinn: Hann er fallegur.

Í kvöld verður haldin árshátíð Baggalúts, meðal annars af mér. Ég er sumsé í nefndinni sem ákvað að halda árshátíð þegar ljóst var orðið að ristjórn hefur engan tíma til þess þetta árið.

Bráðum mun ég halda á búlluna þar sem ballið verður og hjálpa til við matreiðslu. Þetta hefur verið ansi mikil vinna og enn er vinna eftir, en þetta er engu að síður mjög skemmtilegt. Ég er sannfærður um að þetta verður bara stórfín árshátíð.

Ég keypti Canon prentara og fékk hann til að virka á Linuxinu á aðeins tæpum klukkutíma. Það var gaman.

Hvað þýðir Canon annars? Mig grunar að þarna leynist stafsetningarvilla. Þá er spurningin bara hvernig þetta á að vera …

Can on (dós á)?
Cannon (fallbyssa)?
Canton (bær)?

Skilningur

Á vinnustaðnum mínum má finna bolla með merki fyrirtækisins á, ásamt textanum Coffee stimulates your thinking. Þetta finnst mér sýna mjög ríkan skilning á á þörfum og viðhorfum hins almenna launaþræls. Hér fæst kaffið líka í stríðum bunum, malað úr baunum. Það besta er að hér þarf starfsfólk ekki að kaupa og koma með sínar eigin baunir, eins og nauðsynlegt var á einum af mínum gömlu vinnustöðum, sem ég hef líklega minnst á áður.

Ég skrapp í sveitina með kærustunni og vinnufélögum hennar yfir helgina. Ég eyddi drjúgum hluta tímans í að sofa, en þetta var samt bara ansi skemmtilegt. Það er ágætt að komast aðeins frá tölvum við og við, merkilegt nokk.

Skrattakollur

Það er ekki ofsögum sagt að Algrímur er ótrúlega ofvirkur og athyglissjúkur köttur. Hann bíður alltaf mjálmandi við dyrnar þegar ég kem heim, og mjálmar mjög ámátlega og mikið þegar ég er ekki að sinna honum – nema auðvitað þegar hann er sofandi, eins og núna í augnablikinu (hann er meira að segja ofan á mér; mjög hlýtt og þægilegt).

Venjulega er sagt að kettir séu meiri einfarar en til að mynda hundar, en ég held að Algrímur gæti allt eins verið hundur hvað hátterni varðar. Hann getur eiginlega bara ekki verið einn.

Kæra dagbók: Í dag hóf ég feril minn sem bankastarfsmaður. Þetta er fínn staður; allir þarna eru með tvo 17″ flatskjái á mann, og hafa fullt frelsi til að nota alnetið eins og þeim sýnist. Ég fór þó hóflega í slíkt, en eyddi deginum að mestu leyti í að lesa mér til um vinnuferli og reglur og fleira. Svo kynntist ég nokkrum samstarfsvélögum. Mér líst bara vel á þetta allt saman. Þarna er góð aðstaða og góður mórall.