Í dag er síðasti dagurinn í vinnunni. Svo er fyrsti dagurinn í næstu vinnu á morgun.

Ég get ekki sagt annað en að þetta hafi verið gaman í þessi tvö ár sem ég hékk hérna. Ég fékk meira að segja að fara til Skotlands tvisvar og vinna þar. Ég mæli eindregið með slíkum ferðum. Þær eru hressandi, þó að maður þurfi að vinna.

Það er að minnsta kosti næsta víst að þessi staður er margfalt betri en sá sem ég vann á þar áður. Þeim vinnustað er þó mjög auðvelt að slá við. Það væri skemmtilegra að vera ræstitæknir en að vinna þar – og án efa betur borgað líka. En það er allt í fortíðinni núna. O sei sei já.

Ég mæli alveg mjög svo eindregið með Last.fm. Þetta er einn sá besti vefur sem fyrirfinnst á alnetinu. Raunar er þetta margt fleira en bara vefur; þarna eru heilar útvarpsstöðvar sem hlusta má á og erfitt er að fá leið á. Sérstaklega þegar maður hlustar á útvarpsstöðina sem er búin til út frá því hvaða smekk maður hefur. Ég hlusta mjög mikið á hana þessa dagana og það er óalgengt að þar heyrist eitthvað sem mér líkar ekki við. Tær snilld.

Í dag fékk ég endurgreiðslu af tryggingunum á Benzinum gamla. Ég hafði steingleymt að ég ætti hana inni. Nú er ég svei mér þá ágætlega settur fjárhagslega.

Eitt það skemmtilegasta sem fyrirfinnst í tilverunni eru óvæntir aurar.

Bankablók

Leitinni er lokið í bili. Ég mun hefja störf sem forritari í banka um næstu mánaðamót. Þetta verður aðeins stærra og ólíkara umhverfi frá því sem ég hef vanist undanfarin tvö ár, þannig að ég er spenntur fyrir þessu. Þarna er auðvitað alveg nóg af peningum til að spreða, og þarf ég því væntanlega að hafa litlar áhyggjur af slíku á næstunni.

Dyrasíminn hringdi áðan. Ég átti ekki von á neinum og svaraði því (ég svara sjaldnast ef ég á von á einhverjum). Þar heyrðist í einhverjum kalli sem hljómaði mjög svo ölvaður. Hann sagðist vera frændi einhvers Halla (eða Lalla – sem gæti passað betur þar sem það er ennþá annað nafnið á bjöllunni minni; ég hef ekki skipt um spjald þar enn). Svo sagði hann eitthvað fleira sem ég náði ekki alveg sökum þvoglumælgi hans, en ég held að hann hafi verið að lýsa því að Halli, eða Lalli, þessi væri með þunnt hár. Ég sagði einfaldlega að hann byggi ekki hér og lagði á. Meira hef ég ekki heyrt frá þessum ölvaða og ókunnuga manni.

Af atvinnuleit

Fyrirtækið sem ég fór í viðtal hjá í síðustu viku hætti síðan við að ráða. O jæja. Fyrirhuguð eru núna hvorki meira né minna en þrjú viðtöl, og án efa fleiri á leiðinni. Ég er að segja það; atvinnuástandið er ótrúlega gott.

Gestapó

… er á góðri leið með að leysast upp í ömurleika. Það er sorglegt, því að mér þykir gríðarlega vænt um þann vef. Ég vona að þetta batni með tímanum, en eins og er þá er ég svartsýnn.

Færslan hér neðar um Eldrefsviðbæturnar var einungis mér einum sýnileg í kerfinu þangað til ég komst að því rétt áðan og leiðrétti málið. Svona er að skipta yfir í nýtt kerfi. WordPress er mjög fínt, en ég hef augljóslega ekki lært alveg nógu vel á það enn þá.

Ég fór með bílinn á verkstæði. Verkstæðiskallinn var mjög hjálplegur. Hann sagði mér hvað af því sem laga þurfti hann gæti sjálfur lagað, að dekkin þyrfti að laga á dekkjaverkstæði, og pústið á pústverkstæði. Ég fór því með hann á pústverkstæði fyrst, en svo heppilega vill til að eitt slíkt er í sömu götu og fyrrnefnt verkstæði. Það tók bara einn dag að laga pústið, og það reyndist ekki kosta nema 8000 krónur. Vonandi verður afgangurinn hóflega kostnaðarsamur. Þá verð ég glaður.

Margir hafa skrifað á gagnvarpinu um góðar Eldrefsviðbætur áður (Eldrefurinn er annars þetta hér) þar með talið ég. Hins vegar hefur sitthvað breyst í þeim efnum síðan ég ritaði um þær síðast. Hér kemur því glæný upptalning á þeim viðbótum sem ég nota hvað mest:

 • Adblock

  Þetta er skyldueign. Leiðist þér að hafa 10 hreyfimyndir á mbl.is eða visir.is? Þá geturðu notað Adblock til að eyða þessum ósóma. Hérna má sjá ágætisútskýringu Gvends Skrýtna á því hvernig nota skal þessa viðbót.

 • Tab Mix Plus

  Þetta er gríðarlega öflug og fjölþætt viðbót sem bætir við ýmsum möguleikum sem viðkoma töbin (hvað heitir þessi fjári annars á íslensku?). Að auki geymir hún allt sem maður hefur opið á milli þess sem maður ræsir og slekkur á Eldrefnum (Tools->Session Manager, velja ‘Restore’ fyrir ‘When Browser Starts’ og ‘Save Session’ fyrir ‘When Browser Exits’). Þetta er nokkuð sem ég notaði viðbót sem heitir Session Saver í áður, en hví að nota tvær viðbætur þegar önnur þeirra gerir það sama og hin?

 • Fasterfox

  Nett lítil viðbót sem hraðar á Eldrefnum. Lítið meira um það að segja.

 • Baggalútsviðbótin

  Þetta er viðbót sem býður Gestapóum upp á að gera alls konar sniðuga hluti eins og að setja upp sínar eigin sviðslýsingar og vista efni af síðunni. Mikil snilld, þó ég segi sjálfur frá. Ahem.