Ég fór með bílinn í skoðun í dag, og hann var ekki alveg fyllilega í lagi, greyið. Það helsta sem var að honum var að stykki hafði brotnað undan hægra framhjólinu, líklega við það að ég keyrði honum einu sinni smá spöl á meðan dekkið þar var sprungið. Ástæða þess var sú að ég hafði lagt mikið á mig við að rölta eftir kvoðu til að dæla í dekkið, sem síðan virkaði alls ekki. Héðan í frá set ég frekar aumingjadekk undir jálkinn, sem og ég gerði síðast þegar dekk sprakk. Þá hafði ég reyndar góða hjálp við atriði eins og að finna tjakkinn, og reyndar bara allt ferlið.

Miðað við hversu mikla þekkingu og færni ég hef á sviðum á borð við forritun er ótrúlegt hversu fatlaður ég er þegar kemur að bílum. Ég gæti eins verið fimm ára krakki hvað vit mitt á þeim varðar.

Því mun ég einfaldlega fara með skoðunarblaðið á verkstæði á morgun og biðja kallana þar að leysa þetta mál. Vonandi virkar það.

Ég fer í mitt fyrsta atvinnuviðtal í um það bil tvö ár á morgun. Þetta er frekar spennandi allt saman. Um er að ræða stórt, þekkt, og gamalt fyrirtæki í bransanum. Það gæti verið áhugavert að prófa að vinna í slíku umhverfi, svo lengi sem því er vel stjórnað. Eitt það versta sem til er, samkvæmt minni reynslu, er nefnilega illa stjórnað fyrirtæki. Það eru fá takmörk fyrir þeim ömurleika sem skapast af því.

Hvernig getur maður annars komist að því hvort fyrirtæki er vel stjórnað áður en maður hefur störf þar?

Dularfullt

Í morgun vaknaði ég við það að mér heyrðist í svefnslitrunum að farsíminn minn væri að hringja einhvers staðar í íbúðinni. Ég vaknaði, og heyrði þá hann ekki lengur hringja, en fann hann ekki inni í svefnherbergi. Ég skrapp því inni í stofu, þar sem ég fann símann. Hins vegar bar hann þess engin merki að hann hafi verið að hringja. Mig hefur þá líklega dreymt það. Stórmerkilegt alveg hreint.

Úbbs

Ég var að fikta áðan og skemmdi ‘stylesheetið’ fyrir þessa bloggsíðu allillilega. Því miður var ég ekki með afrit af því, þannig að ég þurfti að skrifa sitthvað upp á nýtt. Það var þó ekkert svakalega mikið, sem betur fer.

Ég notaði tækifærið og endurbætti athugasemdagluggann. Ég held að notendaupplýsingar sem fólk setti þar inn hafi ekki haldist inni, en það á alla veganna að virka núna.

P.S. Ef þið hafið eitthvað við útlit eða virkni þessarar síðu að athuga megið þið endilega tjá ykkur um það. Ég ét ykkur varla fyrir það.

Mér finnst einstaklega bjánalegt þegar fólk notar einkabílnúmer til að fá sér eldgamla númerið sem það var einu sinni með. Þetta er alveg einstaklega mikil sóun á peningum.

Og af hverju eru það svo oftast leigubílstjórar sem gera þetta?

Sundkisinn

Algrímur fylgir mér venjulega eftir eins og skugginn þegar ég er heima. Þess vegna verður hann pirraður þegar ég fer í sturtu, því að þá verður hann að húka hjá sturtunni og bíða þess að ég ljúki mér af. Annað tilhlökkunarefni fyrir hann er að þegar sturtunni lýkur verður eftir smá vatn í baðkarinu sem hann getur lapið af. Því miður kom það honum illa í morgun að óvenju mikið vatn hafði safnast saman; mig grunar að smávegis stífla hafi myndast í niðurfallinu, en það er önnur saga. Algrímur var sum sé fljótur að stökkva til og ofan í baðkarið, beint ofan í vatnið.

Það skondasta við þetta var að hann gerði ekkert í þessu. Hann stóð bara með lappirnar í vatninu þangað til ég sá aumur á honum og tók hann þaðan. Ég hef einu sinni áður séð kött detta ofan í baðkar, og þá var eins og hann hefði aldrei snert vatnsyfirborðið – hann rauk bara strax í burtu á einhvern yfirnáttúrulegan hátt. Algrímur virðist hins vegar hafa orðið fyrir svo miklu áfalli að hann gat sig hvergi hrært. Nema þá að honum finnist gaman að busla í vatni, en miðað við fyrri athuganir mínar er það ólíklegt.

Ljóta Google

Er einhver með haldbæra skýringu á því af hverju þetta er sú síða sem birtist fyrst þegar maður leitar að ‘Þarfagreinir’ á google?

Ég fékk mér nýtt lén í dag, og kann ég Gvendi skrýtna góðar þakkir fyrir að hafa bent mér á góðan hýsingarkost.

Það er auðvitað bráðnauðsynlegt fyrir alla sanna njerði að hafa sitt eigið lén. Hér get ég líka gert ýmislegt, eins og að fikta í PHP og MySQL. Mjög gaman.

Það versta er þó að ekki er hægt með góðu móti að flytja bloggfærslur af Blogger Beta yfir á WordPress, sem ég er að nota hérna. Ég sé mikið eftir því að hafa skipt yfir í Blogger Beta, þar sem ég nota enga fítusa þaðan, og það er ekki hægt að fara til bara í gamla Blogger. Svo er það þetta. Vonandi verður innan skamms boðið upp á að flytja með einföldum hætti á milli. Best væri auðvitað ef það væri hægt að flytja út úr Blogger Beta með XML eða einhverju álíka.

O jæja.