Um þessar mundir er vinsælt að segjast hafa varað við hinu og þessu fyrirfram sem nú er alkunna. Ég ætla mér formlega að skipa mér í þann hóp.

Lengi vel talaði ég fyrir því að fjárframlög til stjórnmálaflokka ættu að vera öllum borgurum landsins sýnileg. Þetta má sjá til að mynda í þessum pistli, sem skrifaður var um svipað leyti og verið var að setja lög um þessi fjárframlög, og ákveðnir flokkar voru að keppast við að sanka að sér risastyrkjum í skjóli leyndarinnar, á meðan færi gafst enn á því (þetta síðara er reyndar nokkuð sem er nýlega komið fram).

Málið er hins vegar, eins og sjá má af málflutningi Heimdellinganna í þessum efnum, að pólitíkusarnir sjálfir voru ekki par hrifnir af þessari hugmynd. Ég leyfi mér að fullyrða að Sjálfstæðismenn hafi barist einna hatrammlegast gegn breytingum á þessu sviði.

Sú barátta nær langt aftur, líkt og lesa má um hérna. Þarna sést að á sínum tíma var helsta framlag formanns flokksins til umræðunnar sú að leggja til að fyrirtækjum yrði alfarið bannað að styrkja stjórnmálaflokka. Samt sem áður viðurkenndi hann í sömu andrá að hinir flokkarnir myndu líklegast aldrei fallast á slíkt fyrirkomulag, þar sem þeir gætu ekki rekið sig án þeirra (og afstaða Heimdellinga hvað þessi mál varðar fáeinum árum síðar bendir til þess að þessi hugmynd hefur væntanlega ekki heldur notið hljómgrunns innan alls Sjálfstæðisflokksins sjálfs). Til að færa ‘sönnur’ á að Sjálfstæðisflokkurinn þægi ekki framlög í óhóflegum mæli benti hann á að Sjálfstæðisflokkurinn gæti hins vegar vel rekið sig án framlaga frá fyrirtækjum.

Þetta er sami flokkur og fékk um 330 milljónir króna í slíkum framlögum á fimm ára tímabili (til aðalskrifstofunnar eingöngu, eins og sjá má hér – enn er nokkuð á huldu hversu mikið vantar þarna inn í til að tölurnar séu fyllilega samanburðarhæfar við tölurnar frá Samfylkingu og Framsóknarflokki). Allt undir skjóli þeirrar leyndar sem Davíð Oddsson og Heimdellingarnir vörðu með kjafti og klóm. Þá er það stóra spurningin – af hverju var flokkurinn að þiggja svona gríðarháa styrki fyrst hann gat vel rekið sig án þeirra?

Fyrir liggur nú á Alþingi nýtt frumvarp um fjölmiðla. Frumvarpið er ítarlegt mjög, og ekki er ætlunin í þessum pistli að gera þeim tæmandi skil. Ætlunin er þvert á móti einungis sú að tæpa á pistli nokkrum eftir fjölmiðlaspekúlantinn Óla Björn Kárason, þar sem hann bölsóttast út í valdar greinar frumvarpsins. Gömlu vinir hans, smáfuglarnir á AMX, taka síðan upp söng hans hér.

Eitt smávægilegt atriði virðist Óla Birni hins vegar hafa yfirsést. Nú er það nefnilega svo, að með þessu nýja frumvarpi er meðal annars verið að leggja niður hin gömlu útvarpslög, en um leið færa margt af því sem í þeim er yfir í nýju lögin. Skemmtilegt nokk þá eru þau atriði í nýja frumvarpinu sem Óli Björn kýs að agnúast út í, og nefna sem dæmi um hættulega forræðishyggju, í langflestum tilfellum tekin beint, eða nánast beint, úr gildandi útvarpslögum. Eftirfarandi samanburðarrannsókn, þar sem allar tilvitnanir Óla Björns í frumvarpið eru bornar saman við útvarpslög, ætti að vera upplýsandi.

1) „Fjölmiðlaþjónustuveitendur sem miðla myndefni í línulegri dagskrá skulu kosta kapps um að meiri hluta útsendingartíma sé varið í dagskrárefni frá Evrópu.“

Í útvarpslögum stendur:

„Sjónvarpsstöðvar skulu kosta kapps um að meiri hluta útsendingartíma sé varið í íslenskt dagskrárefni og annað dagskrárefni frá Evrópu.“

Í nýju lögunum er ekki tekið fram sérstaklega að íslenskt efni fellur undir efni frá Evrópu, væntanlega af því það er heldur augljóst.

2) „Fjölmiðlaþjónustuveitendur sem miðla myndefni í línulegri dagskrá skulu, eftir því sem unnt er, sjá til þess að minnst 10% af útsendingartíma, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 33. gr., á ári hverju eða minnst 10% af árlegu dagskrárfé sé varið til evrópskra verka sem framleidd eru af sjálfstæðum framleiðendum.“

Í útvarpslögum stendur:

„Sjónvarpsstöðvar skulu, eftir því sem unnt er, sjá til þess að minnst 10% af útsendingartíma, sbr. 2. mgr. 7. gr., á ári hverju eða minnst 10% af árlegu dagskrárfé sé varið til evrópskra verka sem framleidd eru af sjálfstæðum framleiðendum. Sjónvarpsstöðvar skulu leggja áherslu á að svo stór hluti af verkum sjálfstæðra framleiðenda sem unnt er sé sýndur innan fimm ára frá því að gerð þeirra lauk.“

3) „Aðili sem telur að lögmætir hagsmunir hans, einkum æra hans eða orðspor, hafi beðið tjón af því að rangt hafi verið farið með staðreyndir í fjölmiðli hefur rétt til andsvara í viðkomandi miðli eða til annarra jafngildra úrræða.

….“

Í útvarpslögum stendur:

„Þeir aðilar, einstaklingar, félög eða stofnanir, sem telja að lögmætir hagsmunir þeirra, einkum orðspor og mannorð, hafi beðið tjón af því að rangt hafi verið farið með staðreyndir í útvarpsdagskrá, hafa rétt til andsvara á viðkomandi útvarpsstöð eða til annarra jafngildra úrræða. Andsvör skulu send út innan hæfilegs tíma frá því að rök voru færð fyrir beiðninni og á þeim tíma og með þeim hætti sem hæfir þeirri útsendingu er beiðnin tekur til.“

Fjallað er um andsvararétt í nokkuð lengra máli í nýju lögunum en þeim gömlu, en eftir stendur að andsvararéttur er tryggður fyrir í útvarpslögum – og Óli Björn setur einmitt einna helst í þessu samhengi út á það að löggjafinn sjái ástæðu til að tryggja hann með lögum yfir höfuð.

3) „Viðskiptaorðsendingar [auglýsingar] og fjarsala skulu þannig gerðar að ekki valdi börnum siðferðilegum eða líkamlegum skaða. Í viðskiptaorðsendingum og fjarsölu er óleyfilegt að:
a. hvetja börn til þess að kaupa vöru eða þjónustu með því að notfæra sér reynsluleysi þeirra eða trúgirni,
b. hvetja börn til þess að telja foreldra sína eða aðra á að kaupa vöru eða þjónustu sem auglýst er,
c. hvetja börn til neyslu á matvælum og drykkjarvörum sem innihalda næringarefni og efni sem hafa næringar- og lífeðlisfræðileg áhrif og ekki er mælt með að séu í óhóflegum mæli hluti af mataræði, einkum fitu, transfitusýrur, salt/natríum og sykur,
d. notfæra sér það sérstaka trúnaðartraust sem börn bera til foreldra, kennara eða annars fólks, eða
e. sýna börn að tilefnislausu við hættulegar aðstæður.“

Í útvarpslögum stendur:

„Útvarpsauglýsingar skulu þannig gerðar og fluttar að þær valdi ekki börnum siðferðilegum eða líkamlegum skaða. Í útvarpsauglýsingum er óleyfilegt að:
a. hvetja börn til þess að kaupa vöru eða þjónustu með því að notfæra sér reynsluleysi þeirra eða trúgirni,
b. hvetja börn til þess að telja foreldra sína eða aðra á að kaupa vöru eða þjónustu sem auglýst er,
c. notfæra sér það sérstaka trúnaðartraust sem börn bera til foreldra, kennara eða annars fólks eða
d. sýna börn að tilefnislausu við hættulegar aðstæður.“

4) „Viðskiptaorðsendingar og fjarsala skulu vera auðþekkjanlegar sem slíkar og vera skýrt afmarkaðar frá öðru efni með þeim hætti sem best hentar því formi miðlunar sem notað er hverju sinni.
Duldar viðskiptaorðsendingar eru óheimilar. Í hljóð- og myndsendingum í viðskiptaskyni skal ekki beita tækni til að hafa áhrif á fólk neðan marka meðvitaðrar skynjunar.
Viðskiptaorðsendingar og fjarsala skulu ekki:
a. skerða virðingu fyrir mannlegri reisn,
b. fela í sér nokkra mismunun á grundvelli kynferðis, kynþáttar eða þjóðernis, ríkisfangs, trúarbragða eða trúarskoðana, fötlunar, aldurs eða kynhneigðar,
c. hvetja til hegðunar sem er hættuleg heilbrigði eða öryggi, eða
d. hvetja til hegðunar sem er í áberandi andstöðu við umhverfisvernd.“

Í útvarpslögum stendur:

„Auglýsingar skulu vera auðþekkjanlegar sem slíkar og vera skýrt afmarkaðar frá öðru dagskrárefni með myndskilti eða hljóðmerki. Sama gildir um fjarsöluinnskot.
Duldar auglýsingar eru bannaðar, sem og dulin fjarsöluinnskot.
Í auglýsingum og fjarsöluinnskotum skal ekki beita tækni til að hafa áhrif á fólk neðan marka meðvitaðrar skynjunar.“

Þarna er upptalningin á því hvað auglýsingar mega ekki innihalda vissulega ný af nálinni, og því má Óli Björn vel eiga andúð sína á þeirri nýjung óáreittur.

Hvað andúðina í garð annarra þeirra atriða sem hann agnúast út í verður hins vegar að varpa fram spurningunni: Af hverju var Óli Björn svona lengi að átta sig á því böli sem forræðishyggja löggjafans á sviði fjölmiðlunar er?

Það er alltaf jafn grátbroslegt að sjá sannanir þess hvað umræðan hér á Íslandi vill snúast um mikil aukaatriði, frekar en kjarna hvers máls.

Í fyrradag barst okkur frétt um yfirheyrslur hollenskrar rannsóknarnefndar yfir fyrrum framkvæmdastjóra eftirlitsdeildar Seðlabanka Hollands. Haft var eftir honum að í hvert sinn sem seðlabankinn hollenski hafi viðrað efasemdir um Icesave hafi upphafist ‘hallelújakór’ úr Seðlabanka Íslands. Gekk hann jafnvel svo langt að kalla þetta lygar.

Nú, tveimur dögum síðar, er svo að sjá að umræðan um þessa frétt snúist nánast eingöngu um hvort það hafi verið SÍ eða FME sem ‘laug’ að Hollendingunum, og hvort ‘logið’ hafi verið yfir höfuð. Þetta má sjá meðal annars hér, hér og hér.

Athygli hlýtur að vekja að meginásökuninni er með þessu í engu svarað – en hún er þessi, að smáatriðum og gildishlöðnu orðalagi á borð við ‘lygar’ slepptum: Í hvert einasta sinn sem íslenskir eftirlitsaðilar voru spurðir út í Icesave, og efasemdir viðraðar um ágæti þess, var svarið alltaf í hallelújakórsstíl; hér þótti engin ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu Icesave, og blásið var á allar efasemdir.

Nú hlýtur það að vera svo að ef til væru einhver gögn sem sýndu fram á hið gagnstæða, sumsé, að íslenskir embættismenn á allavega einhverju stigi stjórnkerfisins hafi verið duglegir við að taka undir áhyggjur af Icesave, þá hljóta þau nú þegar að hafa komið fram. Þar liggur jú mikið við. Hafa slík gögn komið fram? Öðru nær. Það litla sem almenningi hefur birst bendir til hins gagnstæða – til þess að nokkuð gæti vel verið til í ofangreindum hallelújakórsásökunum. Þar má einna helst nefna margtilvísað minnisblað á vegum Seðlabanka Íslands frá því í febrúar 2008. Eftirfarandi má lesa þar um Icesave sérstaklega:

Moody’s hafði með sama hætti áhyggjur af öllum bönkunum, en þó einna mest af einum þætti, sem snýr að Landsbanka Íslands, en þar er um að ræða hve hinn mikli innlánsreikningur Icesafe [svo] kunni að vera kvikur og háður trausti og trúnaði á markaði og íslenska bankakerfinu, og jafnframt hve samkeppni á þessum markaði færi nú harðnandi vegna lokunar annarra markaða. Seðlabankamenn fóru yfir þau rök sem væru gegn því að þessi innlánsreikningur væri jafn ótraustur og Moody’s hefði áhyggjur af, en ekki er líklegt að öllum efasemdum þeirra hafi verið eytt.

Erfitt er að lesa úr þessu annað en það að SÍ hafi þarna litið á það sem hlutverk sitt að verja Icesave og eyða efasemdum um það, frekar en að hlusta á áhyggjur Moody’s og bregðast við þeim. Er þetta ekki eitthvað aðeins annað meira en að gefa bara upp þær upplýsingar sem bankarnir gaukuðu að Seðlabankanum?

Þetta minnisblað sýnir, að ég tel, nokkuð svart á hvítu að lítið hafi verið hlustað á efasemdaraddir um Icesave að utan. Ég leyfi mér að slengja fram þeirri kenningu að þetta hafi verið línan á öllum stigum stjórnkerfisins – að Ísbjörg væri bókstaflega björg okkar, og því bæri að halda henni uppi með öllum mögulegum leiðum.

Er þetta ekki kjarni málsins? Tja, maður spyr sig …

P.S. Umræðan um að bankarnir hafi verið í því að ljúga að eftirlitsaðilum, og þeir hafi ekki gert neitt annað en að koma þeim röngu upplýsingum áleiðis til útlendinga í góðri trú er síðan kafli út af fyrir sig. Vel má varpa þar fram þeirri spurningu hvort hlutverk eftirlitsaðila sé einmitt ekki víðtækara en bara það að vera hlutlaus miðlari upplýsinga frá einmitt þeim sem þeir eiga að vera að fylgjast með.

Snemma árs 2007 byrjaði ég á gæluverkefni; tónlistarleik á vefnum þar sem spurningarnar áttu að vera búnar til á handahófskenndan hátt út frá upplýsingum af last.fm.. Ég eyddi nokkrum mánuðum í að skrifa kóðabúta sem sóttu upplýsingar þaðan, unnu úr þeim, og settu í gagnagrunn. Svo datt mér í hug að samkeyra þetta við upplýsingar af Wikipedia líka, þar sem oft eru upplýsingar um tónlistarflytjendur settar fram á stöðluðu formi þar, sem auðvelt er fyrir tölvukóða að lesa úr.

Annað skref var að skrifa gagnagrunnsskipanir og lógíkkóða til að velja spurningar af handahófi. Þar var að mörgu að huga, þar sem notendur áttu að geta stillt hvernig spurningar þeir vildu fá; síað bæði eftir vinsældum flytjenda og tónlistarstefnum.

Þessi skref tókust bæði bærilega, þó þó hafi auðvitað verið töluverð tímafrek.

Þriðja skref var að búa til boðlegt viðmót ofan á þetta allt saman. Þar strandaði ég. Það má líka vera að ég hafi bara verið útkeyrður og hafi þurft á hvíld frá þessu að halda. Engu að síður leið skammarlega langur tími þar til ég ákvað að draga þetta verkefni upp úr skúffunni og klára það; það var ekki fyrr en fyrir um það bil 2 – 3 vikum sem ég lét loksins af því verða. Árangurinn lét ekki á sér standa – mér tókst að yfirstíga tregðu mína til að setja upp viðmót, sem og bætti við virkni og endurbætti sitthvað sem ég gerði í skrefum 1 – 2. Afraksturinn er nú kominn á vefinn.

Ég veit ekkert um hversu vinsælt þetta verður, og svo sannarlega býst ég ekki við að græða neitt á þessu, en ánægjan af því að hafa klárað þetta eru svo sem góð verðlaun í sjálfu sér. Þar sem áður var ekkert er nú til þessi síða. Forritun er sköpun. Þess vegna heillar hún mig svo.

Á leið minni til vinnu í morgun keyrði ég framhjá illa förnum og yfirgefnum bíl sem stóð úti í vegkanti, nánar til tekið undir brú. Hann hafði væntanlega lent í árekstri og verið skilinn eftir í kjölfarið. Þessi sjón minnti hinn tiltölulega nývaknaða mig á senu úr ‘post-apocalyptic’ vísindaskáldskap; einhvers konar ámátlegar leifar af horfinni siðmenningu.

Eins og við var að búast var hræið hins vegar horfið þegar ég keyrði undir hina sömu brú á leiðinni heim aftur síðar um daginn. Útsendarar uppbyggingar og reglu hafa ekki verið lengi á staðinn til að fjarlægja þessa leiðu áminningu um þau niðurrifsöfl sem stöðugt eru að verki í alheiminum (samanber til að mynda annað lögmál varmafræðinnar).

Þetta tel ég þörfa áminningu. Íslenskt þjóðfélag er ekki það illa á sig komið að umhverfi okkar sé farið að drabbast niður að ráði. Reyndar eru auðar byggingar hér og þar (sem sumar hverjar hafa verið látnar vísvitandi standa auðar í annarlegum tilgangi) ákveðin teikn um að hér drjúpi ekki endilega smjör af hverju strái, en að flestu öðru leyti gengur tilveran sinn vanagang, og enn höfum við jú efni á að hreinsa upp eftir okkur mestan skítinn. Heimurinn er ekki hruninn, og við þurfum ekki að slást við stökkbreytinga milli þess sem við rótum í ruslinu eftir nytsamlegum forngripum sem ekki lengur eru framleiddir.

Jæja, ég viðurkenni það bara – ég spilaði Fallout allt of mikið á sínum tíma, og stundum ímynda ég mér að skemmtilegt væri að búa í sundursprengdum og óreiðukenndum heimi þar sem lögmál frumskógarins gilda ein. Þegar sá hamur kemur yfir mig man ég samt alltaf fyrr eða síðar eftir risasporðdrekunum, og slíkar rómantíseraðar vangaveltur hverfa þá sem dögg fyrir sólu.

Your result for The What Type of Human Are You? Test …

Philosopher

You scored 55% Do Gooder, 48% Drive, and 75% Intellect!

„To be or not to be?“ You’ve probably pondered that before, as well as a million other things. You are well-read and intelligent. You can solve math problems or correct grammatical errors. You’re also generally a nice person…but not nice to a fault which is good. I like a little bit of self-preservation. You are, however, a bit on the lazy side. You may know how to do things, when to do them, and why, but you don’t really like doing them. You’d rather just sit back and observe life as it goes on around you. With more drive, you could be a rather great human being indeed, but the world needs its philosophers, too.

All human being categories are: Lazy SOB, Rebel w/out a Cause, Evil Mastermind, Henchman, Criminal, Dictator, Frat Boy, Socialite, Philosopher, Stunt Double, Upstanding Citizen, Teacher, Cheerleader, Sister Mary DoGood, Benefactor, Loyal Sidekick, Candy Striper, Goody Two-Shoes.

Þetta passar bara nokkuð sæmilega við mig.

Prófið má annars taka hér.

Spurning

Kæri lesandi,

Hvað er því til fyrirstöðu að besta augnablik lífs þíns sé nákvæmlega núna?

Eins og margir ættu að kannast við þá er í kínversku til svohljóðandi bölvun: Megir þú lifa á áhugaverðum tímum.

Það er fyrst núna sem maður gerir sér fulla grein fyrir því hversu skelfileg bölvun þetta er.

Tímarnir núna eru nefnilega helst til of áhugaverðir.