Löngum hefur það verið haft fyrir satt að fólk sé almennt pólitískt róttækt í æsku en að slíkt rjátli af því eftir sem það eldist. Því er hins vegar öfugt farið með mig; ég hef orðið sífellt róttækari með aldrinum og ekki síst undanfarin ár, í kjölfar efnahags- og stjórnmálahruns sem að mínu mati kallar einmitt á ansi róttæka endurskoðun á samfélagsgerðinni. Róttæka í þeim skilningi að hún þarf að ná niður í rætur og byrja með hverjum og einum en getur ekki komið að ofan frekar en allar aðrar alvöru breytingar.

Ég tel að ein nauðsynlegasta róttæka breytingin sé sú að almenningur landsins láti sig stjórnmál meira máli skipta og að hinum almenna borgara verði færður ríkari sjálfsákvörðunarréttur í þeim efnum, einmitt af því að fólk missir áhuga á stjórnmálum ef það telur sig lítið geta haft um þau að segja. Valdeflingu almennings og beint lýðræði sé ég sem leiðina fram á við – en sú leið hefur hingað til verið vörðuð ríkum hagsmunum rótgróinna valdablokka sem gera breytingum erfitt um vik að festa rætur sín á meðal.

Af þessum sökum er mikilvægt að auka róttæknina í valdakerfinu sjálfu, þar með töldu flokkakerfinu. Því eru stjórnmálahreyfingar á borð við Pírata nákvæmlega það sem ég tel að Ísland þurfi á að halda núna. Stuðningur Pírata við réttindi hins almenna borgara er afdráttarlaus og í raun aðalástæða þess að Píratahreyfingin er til yfir höfuð. Píratar eru með einfalda grunnstefnu sem er grundvölluð á borgaralegum réttindum. Þessi réttindi eru vissulega lögbundin, en róttæknin felst í þeirri nálgun gagnvart þeim að verja þau með virkum hætti og efla getu hins almenna borgara til að standa vörð um þau á öllum sviðum lífs síns. Í þeirri viðleitni vilja Píratar draga úr miðstýrðu valdi, efla beina lýðræðið, auka gegnsæi stjórnsýslunnar og auðvelda aðkomu einstaklinga að málum sem þá varða.

Síðan má heldur ekki gleymast að alvöru róttækni snýst ekki bara um stjórnmál eins og þau birtast í lagasetningu og afskiptum (eða afskiptaleysi) hins opinbera heldur verða borgaraleg réttindi aldrei tryggð að fullu nema fólk njóti þeirra í raun og veru í sínu daglega umhverfi. Þannig vilja Píratar til dæmis með öllum leiðum (sem ekki brjóta gegn grunnstefnunni) berjast gegn hvers konar ójafnréttiofbeldiheftandi staðalmyndum og öðru því sem sem skerðir frelsi fólks til að njóta sín að fullu sem það sjálft. Þessi barátta fer ekki bara fram á hinu hefðbundna pólitíska sviði heldur í öllu samfélaginu. Ekki þarf að skipa opinbera nefnd fólks á launum úr ríkissjóði til að taka þátt í henni – þar geta einstaklingar og hagsmunahópar hæglega lagt sitt af mörkum ef tækifærin gefast til þess, í því sem svo réttilega er kallað grasrótarstarf. Einmitt af þessum sökum fjalla stefnumál Pírata meira um gildi og markmið en nákvæm útfærsluatriði. Þau eru vörður á leiðinni en ekki leiðin sjálf. Tækifæri til útfærslu má finna mjög víða og þegar eitthvað verður að stefnumáli Pírata þýðir það að Píratar munu berjast fyrir því hvar sem því verður við komið og efla getu allra sem áhuga hafa á slíkri baráttu til að taka þátt í henni.

Þetta er líklega hið allra róttækasta í nálgun Pírata á stjórnmálin; sú hugsun að stjórnmál snúist ekki um patentlausnir sem eru matreiddar ofan í kjósendur heldur gildi sem stjórnmálamenn standa fyrir og halda á lofti. Ef gildin eru á hreinu koma lausnirnar út frá þeim og Píratar fagna öllum framlögum til þeirra, hvaðan sem þau koma. Með þessu er tryggður grundvallarréttur hvers og eins til að taka fullan þátt í stjórnmálum, í víðum skilningi. Með lagasetningu og stjórnarathöfnum stendur hið opinbera vörð um borgaralegu réttindin en þegar kemur að því að efla þau þurfum við almennir borgarar fyrst og fremst að gera það sjálfir, í okkar nærumhverfi. Pólitíkin þarf þá að vera nálægt okkur og við þurfum að vera viss um að getum haft áhrif.

Ég hef fulla trú á að framtíð stjórnmálanna felist í því að stjórnmálamenn minnki við vald sitt en hjálpi í staðinn almenningi að auka sitt eigið vald – og þess vegna styð ég Pírata.

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt.

You may use these HTML tags and attributes:

<a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>