Löngum hefur það verið haft fyrir satt að fólk sé almennt pólitískt róttækt í æsku en að slíkt rjátli af því eftir sem það eldist. Því er hins vegar öfugt farið með mig; ég hef orðið sífellt róttækari með aldrinum og ekki síst undanfarin ár, í kjölfar efnahags- og stjórnmálahruns sem að mínu mati kallar einmitt á ansi róttæka endurskoðun á samfélagsgerðinni. Róttæka í þeim skilningi að hún þarf að ná niður í rætur og byrja með hverjum og einum en getur ekki komið að ofan frekar en allar aðrar alvöru breytingar.

Ég tel að ein nauðsynlegasta róttæka breytingin sé sú að almenningur landsins láti sig stjórnmál meira máli skipta og að hinum almenna borgara verði færður ríkari sjálfsákvörðunarréttur í þeim efnum, einmitt af því að fólk missir áhuga á stjórnmálum ef það telur sig lítið geta haft um þau að segja. Valdeflingu almennings og beint lýðræði sé ég sem leiðina fram á við – en sú leið hefur hingað til verið vörðuð ríkum hagsmunum rótgróinna valdablokka sem gera breytingum erfitt um vik að festa rætur sín á meðal.

Af þessum sökum er mikilvægt að auka róttæknina í valdakerfinu sjálfu, þar með töldu flokkakerfinu. Því eru stjórnmálahreyfingar á borð við Pírata nákvæmlega það sem ég tel að Ísland þurfi á að halda núna. Stuðningur Pírata við réttindi hins almenna borgara er afdráttarlaus og í raun aðalástæða þess að Píratahreyfingin er til yfir höfuð. Píratar eru með einfalda grunnstefnu sem er grundvölluð á borgaralegum réttindum. Þessi réttindi eru vissulega lögbundin, en róttæknin felst í þeirri nálgun gagnvart þeim að verja þau með virkum hætti og efla getu hins almenna borgara til að standa vörð um þau á öllum sviðum lífs síns. Í þeirri viðleitni vilja Píratar draga úr miðstýrðu valdi, efla beina lýðræðið, auka gegnsæi stjórnsýslunnar og auðvelda aðkomu einstaklinga að málum sem þá varða.

Síðan má heldur ekki gleymast að alvöru róttækni snýst ekki bara um stjórnmál eins og þau birtast í lagasetningu og afskiptum (eða afskiptaleysi) hins opinbera heldur verða borgaraleg réttindi aldrei tryggð að fullu nema fólk njóti þeirra í raun og veru í sínu daglega umhverfi. Þannig vilja Píratar til dæmis með öllum leiðum (sem ekki brjóta gegn grunnstefnunni) berjast gegn hvers konar ójafnréttiofbeldiheftandi staðalmyndum og öðru því sem sem skerðir frelsi fólks til að njóta sín að fullu sem það sjálft. Þessi barátta fer ekki bara fram á hinu hefðbundna pólitíska sviði heldur í öllu samfélaginu. Ekki þarf að skipa opinbera nefnd fólks á launum úr ríkissjóði til að taka þátt í henni – þar geta einstaklingar og hagsmunahópar hæglega lagt sitt af mörkum ef tækifærin gefast til þess, í því sem svo réttilega er kallað grasrótarstarf. Einmitt af þessum sökum fjalla stefnumál Pírata meira um gildi og markmið en nákvæm útfærsluatriði. Þau eru vörður á leiðinni en ekki leiðin sjálf. Tækifæri til útfærslu má finna mjög víða og þegar eitthvað verður að stefnumáli Pírata þýðir það að Píratar munu berjast fyrir því hvar sem því verður við komið og efla getu allra sem áhuga hafa á slíkri baráttu til að taka þátt í henni.

Þetta er líklega hið allra róttækasta í nálgun Pírata á stjórnmálin; sú hugsun að stjórnmál snúist ekki um patentlausnir sem eru matreiddar ofan í kjósendur heldur gildi sem stjórnmálamenn standa fyrir og halda á lofti. Ef gildin eru á hreinu koma lausnirnar út frá þeim og Píratar fagna öllum framlögum til þeirra, hvaðan sem þau koma. Með þessu er tryggður grundvallarréttur hvers og eins til að taka fullan þátt í stjórnmálum, í víðum skilningi. Með lagasetningu og stjórnarathöfnum stendur hið opinbera vörð um borgaralegu réttindin en þegar kemur að því að efla þau þurfum við almennir borgarar fyrst og fremst að gera það sjálfir, í okkar nærumhverfi. Pólitíkin þarf þá að vera nálægt okkur og við þurfum að vera viss um að getum haft áhrif.

Ég hef fulla trú á að framtíð stjórnmálanna felist í því að stjórnmálamenn minnki við vald sitt en hjálpi í staðinn almenningi að auka sitt eigið vald – og þess vegna styð ég Pírata.

Ég lenti í homma þegar ég var 15 ára. Hann bauð mér inn, lokaði hurðinni, stakk lyklinum í vasann, læsti og sagði þessi orð: „Eigum við ekki að rúnka okkur, vinur?“ Þá vissi ég strax að hann væri hommi. Og ég rotaði hann, fór í vasann hans og náði í lykilinn, fór á löggustöðina og sagðist ætla að kæra, enda hefði hann ætlað að nauðga mér. En þeir sögðust ekki taka skýrslu af drukknum manni.

Svo segir Gylfi Ægisson frá atviki sem henti hann sem ungan dreng í viðtali á Beinni línu DV. Hann talar þar einnig um aðra sem ekki voru jafn heppnir og hann og lentu í nauðgunum af hálfu annarra karlmanna. Allt þetta nefnir hann að því er virðist sem mótrök við þeirri kenningu sem hann segir suma vera með um að hommar ‘geri þetta aldrei’. Samt verður að teljast furðulegt að hann dragi þetta fram í umræðu þar sem hann situr fyrir svörum vegna fordómafullra viðhorfa sinna gagnvart samkynhneigðum og er í raun þráspurður um hvað hann hafi eiginlega á móti þeim. Að manni læðist óneitanlega sá grunur að honum þyki það bara ekkert rosalega sniðugt eða þægilegt almennt að til séu karlmenn sem leita í eða á aðra karlmenn og sér í því hættur sem ber að vera á varðbergi gagnvart. Ekki síst af því hann orðar söguna sína þannig að hann hafi ‘lent í homma’.

Stundum hefur verið gantast með þá meiningu að hommafælni hjá karlmönnum stafi af ótta þeirra við að aðrir karlmenn komi fram við þá eins og þeir sjálfir koma fram við konur. Það er kannski fullósanngjörn fullyrðing en þó er mögulega sannleikskorn í því að því leyti að samkvæmt almennum þjóðfélagsnormum er það þannig að karlmenn ganga á eftir konum og þá þykir jafnvel sumum töff að vera dálítið djarfur og láta reyna á hvar mörk liggja.

Karlmenn sem horfast í augu við þann möguleika eða jafnvel veruleika að þurfa að eiga við einhvern sem reynir með þessum hætti á þeirra eigin mörk, uppfullir af því viðhorfi að þeir eigi ekki að þurfa að sitja undir slíku þar sem þeirra mörk eru á kristaltæru varðandi það að öll athygli frá öðrum karlmönnum sé óæskileg, getur þá auðvitað orðið heitt í hamsi yfir þessum ‘grófa viðsnúningi’ á normunum. Samt væri þeim hollara og lærdómsríkara að stara djúpt inn í þennan hálfgerða spéspegil af sjálfum þeim.

Fjöldi þeirra stúlkna og kvenna sem svipaðar sögur hafa að segja úr sínu lífi og Gylfi fór með er óhuggulegur. Auðvitað geta líka margir drengir og karlmenn sagt hið sama en vegna þess að gagnkynhneigðir karlmenn eru fleiri en samkynhneigðir og vegna ofangreindra norma þess efnis að það sé karlmaðurinn sem reynir á mörkin er þetta mun ríkari þáttur í reynsluheimi kvennanna. Það er það sem reynsluheimur hóps X þýðir; reynsla sem hópur X þekkir almennt betur en einhver annar hópur.

Það er ekki ríkur liður í reynsluheimi stúlkna og kvenna að þær roti mann sem læsir sig inni einhvers staðar með þeim og hefur uppi kynferðislega tilburði gagnvart þeim. Bæði vegna líkamlegs munar á kynjunum og annars samfélagslegs norms, sem er það að stúlkum og konum beri að sýna viðleitni til að ganga á mörk þeirra ákveðið umburðarlyndi. Gefa því smá svigrúm því þetta sé að vissu leyti viðbúið og eðlilegt. Stelpu-Gylfa hefði tæplegast einu sinni dottið í hug að reyna að leysa úr aðstæðum sínum með hnefahöggum (Hins vegar hefði hún mun frekar lent í því sama og stráka-Gylfi þegar kæmi að því að reyna að kæra atvikið, en það er önnur og sorglegri saga). Það eru ákveðin forréttindi stráka-Gylfa sem hann getur þakkað fyrir, þó reyndar deila megi um hvort ofbeldi hafi þarna verið besta lausnin. Þetta var þó allavegana möguleiki sem honum stóð til boða og hann greip í. Það er það sem forréttindi hóps X þýða; möguleikar sem standa hópi X frekar til boða en einhverjum öðrum hópi.

Nú þegar ég hef notað mér hann Gylfa greyið (og hugsanlega líka óhóflegar einfaldanir einhvers staðar og biðst ég þá forláts á þeim) til að skilgreina tvö lykilhugtök eru það í stuttu máli ákveðin forréttindi karla að geta hundsað reynsluheim kvenna. Við þurfum að leggja það á okkur sérstaklega að skilja hann. Rétt eins og gagnkynhneigðir þurfa að leggja það á sig sérstaklega að skilja reynsluheim samkynhneigðra. Í báðum tilfellum gengur þetta auðvitað í báðar áttir. Nákvæmlega af þessum (og reyndar ótal fleirum) ástæðum er fjölbreytnin svo frábær. Hún neyðir marga til að huga að forréttindum sínum og reynsluheimi annarra sem án fjölbreytninnar hefðu hugsanlega getað liðið í gegnum lífið rænulausir. Nú veit ég ekki mikið um hversu mikið Gylfi hefur neyðst til að horfast í augu við reynsluheim kvenna þegar kemur að áreitni og nauðgunum, en hitt veit ég að fyrir mitt leyti veit ég allt of mikið um þann reynsluheim til að geta litið á sögur hans sem einhver dæmi um hommavandamál. Þær eru dæmi um vandamál sem varða heilbrigð mörk milli fólks og slíkt kemur kynhneigð ekkert við.

Þó, og þó, er eðli málsins samkvæmt tiltölulega auðvelt fyrir ungan dreng sem lendir í kynferðisofbeldi af hálfu karlmanns að heimfæra það bara á ‘hommana’ og láta þar við sitja, sérstaklega í samfélagi þar sem þeir eru litnir hornauga hvort eð er og eru ekki áberandi. Þannig er hægt að spara sér það ómak að þurfa að spá í hvaða hommar séu nú ‘í lagi’ og hverjir ekki. Þessi drengur býr sumsé við forréttindi sem ungar stelpur sem lenda í því sama búa ekki við; að vera laus við það erfiða verkefni að þurfa að læra að treysta karlmönnum almennt upp á nýtt.

Já, hommar nauðga alveg líka og níðast á börnum. Stundum. Það þýðir samt ekki að aðrir karlmenn hafi eitthvað að óttast frá þeim almennt, ekki frekar en að konur hafi eitthvað að óttast frá körlum almennt. Hins vegar mætti Gylfi alveg skoða að hvort viðhorf hans til homma séu kannski eitthvað ómaklega lituð af æskureynslunni ógeðfelldu og taka sér til fyrirmyndar hinar fjölmörgu stelpu-Gylfur sem hafa lent í svipuðu en elska samt karla.

Ég er með flókna og hugsanlega mikla miðjumoðsafstöðu gagnvart niðurhali á afþreyingarefni.

Auðvitað kemur það niður á þeim sem leggja vinnu í þetta að fólk horfi á það og hlusti algjörlega ókeypis og ef allir gerðu það væri enginn grundvöllur fyrir framleiðslu á þessu efni. Það er samt gríðarlega freistandi fyrir hvern og einn að gera þetta ókeypis af því það er svo hentugt; ég stenst til dæmis engan veginn þá freistingu alfarið.

Þeir sem eiga hins vegar alveg skilið að verða af tekjum eru milliliðirnir, sumsé þeir sem leggja í markaðssetningu og dreifingu. Netið gerir þá að miklu leyti óþarfa þar sem neytendur geta auðveldlega nálgast upplýsingar um efni sem og efnið sjálft milliliðalaust á netinu. Allir tilburðir til að halda uppi úreltu milliliðafyrirkomulagi með uppskálduðum landmærum og svæðaskiptingum eiga því engan rétt á sér að mínu mati. Ég ætti að geta keypt svona efni með greiðslukortinu mínu hvar sem er á netinu fyrir sama verð og fólk alls staðar annars staðar í heiminum, rétt eins og ég get keypt bækur eða annan varning. Öll lög og reglur sem taka af mér þann sjálfsagða rétt eru ólög að mínu mati.

Varðandi framleiðslukostnaðinn þá er langt í frá sjálfsagt að til sé hópur fólks sem er á ofurlaunum við að framleiða svona lagað, sama hversu vel það stendur sig í því. Ég er nokkuð viss um að það er til nóg af fólki sem hefur brennandi áhuga á þessu sem er alltaf tilbúið að vinna við það svo lengi sem það fær allavega mannsæmandi laun við það. Hið sama gildir um allan annan framleiðslukostnað; þessar listgreinar leggjast tæplega af þó að eitthvað dragi úr hagnaðnum.

Best væri ef það væri til hreinlega einhvers konar einfalt styrkjakerfi þar sem fólk leggur fram þær upphæðir til þeirra listamanna sem það vill, hvenær sem er, með einföldum músarsmelli. Það er þó kannski óraunhæfur draumur og á meðan hann er óuppfylltur þarf maður einhvern veginn að haga sér í samræmi við veruleikann. Eitt prinsipp sem ég er sjálfur með er að sækja mér ekki íslenskt efni (nema það sem er hæfilega gamalt) og styrkja íslenska framleiðslu eftir megni þegar ég fæ færi á því. Markaðurinn hér er lítill og íslenskumælandi fólk er fátt og þá ríður á að við styðjum ‘okkar’ afþreyingarefni.

TL;DR: Ég styð ekki Pírata bara af því ég er njörður sem hugsar í vandamálum og lausnum heldur líka af því mér þætti frábært ef það tækist að endurvekja aðeins hinn frjálslynda hippaanda kynslóðarinnar á undan minni í íslensku samfélagi og tel það góða leið til að bregðast við því hugmyndalegafræðilega hruni sem varð hér við bankahrunið 2008 (en ég var einmitt að vinna í banka þá og varð náttúrulega fyrir hálfgerðu andlegu áfalli sem hefur hins vegar verið mjög þroskandi fyrir mig til lengri tíma litið). ☮

Ég snæddi hádegismat með pabba mínum á hinum mæta veitingastað Asíu í gær. Það hefur lengi verið vikuleg hefð fyrir því að hann og við synir hans borðum þarna saman en í þetta skiptið vorum við bara tveir sökum lögmætra forfalla hinna tveggja sonanna.

Við ræddum meðal annars nýlega ákvörðun mína um að styðja Pírata formlega í kosningabaráttunni sem hann hafði margt áhugavert um að segja. Það sem mér þótti sérstaklega innsæisríkt var að hann lýsti Pírötum sem svona ‘hippahreyfingu, mínus ruglið’. Ég hafði nú ekki fyrir því að spyrja hvað hann ætti við með rugli, bæði af því ég var svo upptekinn við að hlæja að því hvað mér fannst þetta satt og af því að ég gat nú alveg gert mér sjálfur í hugarlund nokkurn veginn hvað hann átti við.

Ég er til dæmis hálfgerður hippi, mínus ruglið. Ég er stundum dálítill sveimhugi, alltaf friðelskandi og laðast að alls konar trúarbrögðum úr öllum heimshornum og tel kærleikann vera undirstöðu þeirra allra. Hins vegar er ég líka bara ansi jarðbundinn og samfélagslega ábyrgður, eins og það heitir nú víst á fínu máli. Í því sambandi má nefna að ég til dæmis tiltölulega nýhættur að drekka áfengi þar sem ég var farinn að finna að það hamlaði þroska mínum og getu til að taka þátt í samfélaginu á ábyrgan hátt. Svo hef ég bara allt of oft gert hluti drukkinn sem ég er ekki stoltur af þegar ég drekk – og hví þá að taka sífellt áhættu á að við það bætist? Kannabisið var ég búinn að láta sigla sinn veg áður af svipuðum ástæðum og vegna þess að það var farið að valda algjörri veruleikafirringu og flótta hjá mér. Ég viðheld samt ákveðnum hippaanda í viðhorfum mínum til þessa efna að því leyti að ég tel að fólk eigi að hafa sitt frelsi til að nálgast þau sem aðra hluti á sínum eigin forsendum og að fordæming hjálpi engum.

Í víðu samhengi skil ég þetta síðan þannig að þó svo að Píratar leggi áherslu á frjálslyndi, víðsýni og sjálfsþroska eru þeir ekki beinlínis á gömlu hippalínunni Turn on, tune in, drop out. Þvert á móti byggist hreyfingin þeirra einmitt á samfélagslegri ábyrgð og er ekki viðbragð við því sem þeir líta á sem óheilbrigt samfélag heldur þeirra leið til að láta gott af sér leiða innan heilbrigðs samfélags (sem þýðir alls ekki að hún vilji hundsa þau margvíslegu alvarlegu heilbrigðisvandamál sem því miður eru samt sem áður til staðar í samfélaginu á borð við vímuefnavanda, ofbeldi, misrétti, misskiptingu og neikvæðar staðalmyndir heldur alveg þvert á móti). Það má vel vera að hipparnir hafi á sínum tíma haft sínar algjörlega lögmætu ástæður til að hafna ‘borgaralegu samfélagi’ og standa utan þess. Ég held að þessi ‘læti’ í þeim hafi átt sinn þátt í því að Vestræn samfélög eru jafn frjálslynd og þau eru núna. Hins vegar hentar hverjum tíma sín aðferðafræði og aðferðafræði Pírata er viðleitni til að svara kalli nútímans í þeim efnum. Fyrir utan áhersluna á beint lýðræði og notkunar netsins í því augnamiði er hreyfingin til að mynda ekki sprottin upp frá sterkum hugmyndum um að alltaf sé best að láta einkaaðila sjá um alla hluti eða þá að ríkisrekstur sé frekar æskilegur sem slíkur. Áherslan er lögð á að hugsa út frá vandamálum og lausnum og öll stefnumál er hægt að endurskoða í ljósi nýrra upplýsinga og ábendinga; ekkert er alveg höggvið í stein enda lifa hugsjónir miklu betur í hjörtum fólks en á blaði.

Svo ég komi sjálfum mér aðeins aftur að þá vöktu þessi ummæli pabba míns, líkt og allar djúpar og innsæisríkar fullyrðingar, mun fleiri hugrenningar hjá mér og þá meðal annars um stjórnmál almennt. Mér varð til dæmis hugsað til þess þegar Stefán Ólafsson prófessor gerði góðlátlegt grín að Gunnlaugi Jónssyni frjálshyggjupostula fyrir að útlista það hvernig frjálshyggja er friðarhreyfing með því að kalla Félag frjálshyggjumanna Hippana í Hálsaskógi. Málið er nefnilega að mér fannst þeir báðir hafa nokkuð til síns máls. Gunnlaugur færði sum ansi sterk rök fyrir máli sínu en önnur veikari. Eitt sem höfðaði vel til mín persónulega var að hann tengdi taóisma og búddisma við frjálslyndi; nokkuð sem mér hafði ekki látið detta í hug sjálfum og kann ég honum þakkir fyrir það. Þetta hjálpaði til við að færa mig í frjálslyndisáttina þó málflutningurinn í heild sinni hafi nú ekki hvatt mig til að sjá ástæðu til að kalla mig frjálshyggjumann. Til að mynda finnst mér skrýtið að tala um ríkisafskipti sem ofbeldi. Ofbeldi er í mínum huga (og flestra held ég) þegar einhver veldur öðrum persónulegum skaða. Fjárhagslegur skaði eingöngu hefur hingað til aldrei verið kenndur við ofbeldi í íslensku máli. Til dæmis gætu allir væntanlega fallist á að ef einhver hefur af öðrum fé með því að hóta honum ofbeldi þá teljist það til andlegs ofbeldis, en fáum myndi detta í hug að kalla það ofbeldi ef einhver stelur seðlaveski sem er látið liggja á glámbekk. Það er bara hreinlega þjófnaður. Nú má deila um hvort fólki finnist skattheimta þjófnaður eða ekki, en það að kalla hana ofbeldi finnst mér ákveðin útþynning á tungumálinu og viðleitni til einföldunar í þágu hugmyndafræði. Auðvitað eru örugglega líka einfaldanir í minni eigin hugtakanotkun og það má ræða það allt saman ennþá frekar og jafnvel áfram endalaust, en fólk þarf samt að passa hugtakanotkun sína svo samræðurnar geti verið á sameiginlegum grundvelli.

Annað sem þarf síðan að passa er að bera virðingu fyrir öðru fólki og hlusta vandlega á hvað það hefur fram að færa óháð fyrirframgefnum hugmyndum um hvernig það er eða hvað það stendur fyrir. Hugtök vilja þvælast fyrir þessu þannig að það er þeim mun meiri ástæða til að fólk leggi svipaðan skilning í þau en taki þau ekki heldur of alvarlega. Það eru einmitt þannig samræður sem bæði ég sjálfur og Píratar vilja standa fyrir, samkvæmt minni mjög svo jákvæðu reynslu af því að tala við og starfa með Pírötum – sem er enn ein grundvallarástæðan fyrir því að ég lít á þá þetta sem mína hreyfingu. Hún rímar mjög vel við hvar ég stend sem einstaklingur og hvar ég stend í stjórnmálum og ég er mjög ánægður með að hafa loksins fundið mér alveg hárréttan stjórnmálavettvang fyrir mig, sem hef eiginlega aldrei viljað festa mig við einhver hugtök. Mér finnst ekki einu sinni bráðnauðsynlegt að kalla mig Pírata þó ég styðji hreyfinguna heilshugar. Stjórnmálastarf og hugsjónir eiga ekki að snúast um hugtök heldur um fólk. Ég er manneskja í samfélagi eins og við öll. Það nægir mér, þó mér finnist hippastimpillinn til dæmis nú eiginlega ekkert svo slæmur.

Ég vil enda þetta á viðeigandi lagi eftir mikinn meistara sem við pabbi fílum báðir í tætlur – og líka hann Kári bróðir minn sem er einmitt gríðarlegur hippi í anda:

Dómur Hæstaréttar í máli nr. 512/2012 hefur vakið hörð viðbrögð og töluvert umtal, sökum þeirrar lagatúlkunar meirihluta dómara að líta til tilgangs með einu því broti sem dæmt var fyrir. Þetta gerðu þeir sökum þess að ákæruvaldið taldi brotið varða 194. grein almennra hegningarlaga, og dæmt var í héraði samkvæmt því. Hæstaréttardómararnir töldu hins vegar að þar sem tilgangurinn með brotinu hafi (að þeirra mati) ekki verið sá að fá úr því kynferðislega fullnægju heldur að meiða væri ekki um ‘önnur kynferðismök’ að ræða í skilningi laga og því væri réttara að dæma brotið sem líkamsárás.

Einn hæstaréttardómari var þó ósammála því að þörf væri á að skoða með þessum hætti tilganginn með broti til að meta hvort 194. grein ætti við það og færði fyrir því rök í séráliti.

Nú í dag skrifar síðan Ragnheiður Bragadóttir grein þar sem hún tekur undir sjónarmið þess dómara og rekur í nokkuð ítarlegu máli hvers vegna lagatúlkun meirihlutans er að hennar mati röng – og gengur svo langt að segja niðurstöðu þeirra alvarleg mistök sem ekki geta haft fordæmisgildi. Þung orð frá konunni sem er höfundur frumvarpsins sem varð að þeim lögum sem sett voru árið 2007 til að færa kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga í núverandi horf.

Allt virðist þetta nokkuð sannfærandi hjá minnihlutadómaranum og frumvarpshöfundinum og enn hafa ekki komið almennileg rök frá lögfróðum fyrir því af hverju nauðsynlegt er að horfa til tilgangs brota til að 194. grein eigi við um þau, en þar með er ekki öll sagan úti. Málið virðist nefnilega eiga sér nokkra forsögu.

Með áðurnefndu frumvarpi sem Ragnheiður samdi fylgdu nefnilega ýmis skjöl, þar með talið svör hennar við umsögnum um lagafrumvarpið sem borist höfðu frá hagsmunaaðilum. Þar er (efst á bls. 9) minnst á dóm Hæstaréttar í máli nr. 472/2005, þar sem beitt var þeirri lagatúlkun að athöfn teljist ekki til ‘annarra kynferðismaka’ nema hún veitti (eða væri ætlað að veita) gerandanum kynferðislega fullnægju. Nákvæmlega eins og í dómnum í máli nr. 512/2012 sem hér er til meginumfjöllunar. Munurinn er hins vegar sá að í eldri dómnum var ákærði beinlínis sýknaður af hluta þess sem hann var dæmdur fyrir í héraði, og refsing milduð um helming, á grundvelli þessarar lagatúlkunar. Um hana segir Ragnheiður í svörum sínum:

Af dómi þeim sem [Ríkissaksóknari] vitnar til verður ekki dregin sú ályktun að sú háttsemi að láta tvo aðila hafa kynmök hvor við annan geti ekki fallið undir hugtakið önnur kynferðismök. Virðist sem sá tilgangur ákærða í því máli, að fá þolendur til þessara athafna í þeim tilgangi að ljósmynda þær hafi valdið því, að Hæstiréttur taldi að háttsemin félli ekki undir 3. mgr. 202. gr. sem önnur kynferðismök. Er það umdeilanleg niðurstaða.

Það er því lítil furða að mínu mati að Ragnheiður sjái fulla ástæðu til að skrifa grein til að deila á þessa þrálátu lagatúlkun dómara, sem vel er hægt, í einhverjum tilfellum, að beita til að sýkna sakborninga af brotum sem núgildandi lögum er hins vegar mjög greinilega ætlað að gera refsiverð. Það er vafalaust ástæðan fyrir því að Ragnheiður ítrekar þá afstöðu sína að þessi lagatúlkun geti ekki verið fordæmisgefandi. Holunni átti án efa að loka með nýjustu breytingunni á kynferðisbrotakaflanum en nú hafa dómarar opnað hana aftur.

Þar sem lögum var breytt bar dómurum væntanlega skylda til að á einhverjum tímapunkti fara yfir öll löggreiningargögn sem tilheyra lagabreytingunni, þar með taldar athugasemdir við lagafrumvarpið og önnur fylgigögn, og endurmeta út frá þeim afstöðu sína til þessarar lagatúlkunar. Það er mat mitt, sem og Ragnheiðar sjálfrar og ýmissa fleiri, að þau taka af allan vafa um það að umrædd lagatúlkun er með öllu ótæk samkvæmt núgildandi lögum og vilja löggjafans.

Það hlýtur að teljast frekar undarlegt að dómarar hafi í máli nr. 512/2012 ekki komið auga á að með lagabreytingunni 2007 var í raun tekinn af allur vafi um að sá verknaður að stinga fingrum í leggöng og endaþarm gegn vilja viðkomandi heyrir undantekningalaust undir 194. grein. Enn undarlegra yrði það ef þeir tækju sig ekki saman núna og lokuðu loksins holunni endanlega.

Þessi pistill um nauðganir og það sem mætti kalla nauðganamenningu hefur vakið töluverða athygli og farið víða um netheima. Það er fyllilega eðlilegt í ljósi þess að þarna er stungið á ákveðnum kýlum sem því miður er ekki nógu oft stungið á. Höfundur pistilsins sýnir mikið hugrekki með því að opna sig með þessum hætti og vekja þannig þarfa umræðu. Ég ætla að reyna að sýna samsvarandi hugrekki með því að tjá mig um þetta málefni af hreinskilni út frá karllægu sjónarhorni.

Sæunn talar um ‘hákarla’, sem er afar frjó samlíking. Sannleikurinn er nefnilega sá að líkt og hún bendir á, þá hálfpartinn elur samfélag okkar á hákörlum. Hákarlinn er þessi kaldi töffari sem nálgast heiminn í heild sinni, og sér í lagi konur, líkt og bráð sem þarf að veiða og sigrast á. Í sinni öfgafyllstu og ógeðfelldustu mynd er þetta nauðgari og hrotti, en sá hákarl sem er nánast samfélagslega viðurkenndur er sá sem fær útrás fyrir hákarlseðlið innan ramma laga og félagslegra viðmiða. Hann bakar sér kannski ekki endilega vinsældir allra í kjölfarið, en hann nýtur sannarlega virðingar innan ákveðinna kreðsna. Barney Stinson úr sjónvarpsþáttunum How I Met Your Mother er til að mynda hinn erkitýpíski hákarl; maður sem notar konur eins og gólfmottur og er lafhræddur við allt sem svo mikið sem nálgast það að heita skuldbinding. Í því samhengi er reyndar mjög áhugavert að kafa aðeins ofan í persónuna og átta sig á því að forsaga hans er sú að eitt sinn var hann einstaklega ljúfur og auðsveipur maður, en í kjölfar þess að verða fyrir vonbrigðum í ástum ákvað hann að snúa blaðinu algjörlega við, herða sig upp, og skapa sér hákarlsímynd. Innst inni á hann sér þó enn sínar viðkvæmu hliðar og hefur efasemdir um gildi lífernis síns, eins og farið er yfir af þónokkurri lagni í þáttunum. Í gegnum Barney eru þannig skoðaðar öfgar í tvær áttir. Annars vegar mjúki og væmni bangsinn sem lætur vaða algjörlega yfir sig, og hins vegar harði og svali hákarlinn sem lokar á tilfinningar sínar af ótta við að vera .særður eða álitinn veikgeðja.

Það er nákvæmlega milli þessara öfga sem nútímakarlmanninum hættir til að sveiflast, og mörgum okkar líður oft eins og við séum í þessum efnum hálfpartinn milli steins og sleggju. Það er hið minnsta algjörlega víst að mér hefur sjálfum oft liðið þannig. Í mínum dekkstu stundum hef ég fyllst vonleysi yfir því finnast ég engan veginn geta uppfyllt þær kröfur sem samfélagið og konur gera til mín sem karlmanns, og meira að segja fundist það mér vera algjörlega á huldu hverjar þessar kröfur eru. Stundum hefur þetta leitt til þess að ég hef heillast af hákarlshlutverkinu, en ég hef sem betur fer aldrei fundið mig almennilega í því.

Það er auðvitað mjög í tísku að kenna ‘feðraveldinu’ um þau samfélagslegu mein sem leiða til krísna af þessu tagi, en ég held engu að síður að í slíkum málflutningi felist sannleikskorn. Líkt og Sæunn kemur inn á tíðkast í vestrænu nútímasamfélagi ákveðin dýrkun á ‘strákamenningu’, og það er slík menning sem held að einkenni feðraveldið öðru fremur. Feðraveldið elur ekki af sér fullþroska og ábyrga karlmenn, heldur stráka í karlmannslíkömum. Strákar verða einmitt alltaf strákar en ekki karlmenn, og djúpt undir hrjúfum hákarlsskrápi stráksins sem aldrei náði að vaxa almennilega úr grasi grassera sálarmeinin, og brjótast út í sínum verstu myndum í hegðun á borð við þá sem Sæunn lýsir í pistli sínum. Það er nokkuð til í því sem foreldrar okkar sögðu okkur margir hverjir þegar við lentum í því að vera strítt sem krakkar, að þeir sem koma illa fram við aðra gera það af því þeim líður sjálfum illa. Ég get vissulega einungis talað fyrir sjálfan mig, en fyrir utan óöryggi með kynhlutverk mitt hefur mitt helsta sálarmein í gegnum árin verið meðvirkni; mjög lúmskt og ætandi mein sem lítið sem ekkert ekkert skilur eftir andlega. Það hjálpar ekki heldur beinlínis til að réttlætingarnar fyrir því að vera hákarl má finna afskaplega víða. Þeir sem heillast af vísindahyggju geta til að mynda fundið sig í erfðafræðihugmyndum, þar sem skipa má körlum og konum þröng hlutverk. Karlinum er til að mynda sagt eðlislægt að vilja ‘dreifa fræjum’ sínum sem víðast, en ekki bindast neinum tilfinningaböndum, og hákarlinn sagður sú manngerð sem allar konur vilja innst inni. Þarna vill gleymast að út frá nákvæmlega sömu forsendum er alveg jafn hæglega hægt að réttlæta allt öðruvísi kynhlutverk. Ég held að í þessum efnum, sem svo mörgum öðrum, lesi fólk það út úr staðreyndum sem það vill lesa út úr þeim.

Öll erum við jú viti bornar verur og hljótum að bera ábyrgð á sjálfum okkur, okkar viðhorfum og okkar gjörðum. Fyrsta skrefið í átt að því að breyta samfélaginu er að breyta sjálfum sér, og í því hef ég unnið ötullega, og og hyggst halda því áfram svo lengi sem ég lifi. Þar tek ég mér meðal annars til fyrirmyndar Barney Stinson, sem vissulega nær að þroskast og vitkast eftir því sem á þættina líður, og hrista aðeins af sér hákarlsbúninginn. Fyrirmyndirnar finnast nefnilega hér og þar, þegar að þeim er leitað. Í flóknu og á köflum firrtu nútímasamfélagi þarf bara því miður stundum að leita frekar lengi að þeim.

Öll búum við yfir hæfileika sem kalla má innsæi. Þetta er getan til þess að finna á sér hvaða hlutir eru sannir og merkingarríkir. Þessihæfileiki er kominn frá hinum innsta kjarna okkar, sem veit mun meira um heiminn en við vitum meðvitað sjálf – ekki síst um andlegar víddir hans. Lög andans eru rituð í hjörtum okkar, og með því að fylgja ávallt hjartanu getum við verið nokkuð viss um að rata réttan veg í lífinu. Ekki er þar með sagt að rökhugsun eigi ekki fullan rétt á sér; hún er þarfur þjónn, en að sama skapi er hún harður húsbóndi. Hinar andlegu hliðar tilverunnar er aldrei nokkurn tímann hægt að uppgötva með rökhugsuninni einni saman. Þær spretta þvert á móti upp úr tilfinningum; flæða frá hjartanu, sé þeim er leyft að flæða. Jesús Kristur orðaði þessa staðreynd svo: „Sá sem trúir á mig, frá hjarta hans munu renna lækir lifandi vatns, eins og ritningin segir.” Rökhugsunin þekkir aðeins aðgreiningar og flokkanir, en hjartað sér heiminn sem órofna og gullfallega heild. Þar sem rökhugsunin sér tvo hluti, sér hjartað sem tvær hliðar á sama peningi; fyrir því er allt í raun eitt þegar allt kemur til alls.

Þetta eina litla atriði, að sjá undirliggjandi tengingu milli hluta sem virðast ólíkir á yfirborðinu og sameina þar með andstæður, mætti jafnvel kalla aðallykilinn að andlegum þroska. Þannig sér hinn andlega þroskaði einstaklingur lítinn mun á meðvitund sinni og undirmeðvitund, eða þá á sjálfum sér og heiminum sem hann skynjar – og um leið veit hann að allt sem hann skynjar í sjálfum sér skynjar hann í heiminum, og öfugt. Hann skynjar hina heildrænu fegurð heimsins, og þar með hina heildrænu fegurð í sjálfum sér.

Með því að tengjast hjartanu má þannig öðlast ákveðna ófrávíkjanlega sjálfselsku. Sjálfselska er orð sem hefur því miður öðlast frekar neikvæða merkingu; flestir tengja það við sjálfhverfu – en samt sem áður eru þetta tveir aðskildir hlutir. Það að elska sjálfan sig getur aldrei verið neikvætt, heldur er það þvert á móti algjört lykilatriði í lífinu. Jesús Kristur sagði okkur að elska náunga okkar eins og sjálfa okkur, en það er auðvitað ekki hægt nema með því að elska sjálfan sig til að byrja með – og það er ekki nema þegar sjálfselskan er á kostnað ástar á náunganum sem hún snýst upp í sjálfhverfu.. Það að litið er á hugtakið sjálfselsku sem neikvætt fyrirbæri segir kannski allt sem segja þarf um hversu mjög fólk hefur misst sjónar á þessu atriði. Kannski væri best að taka hreinlega upp annað og ferskara orð til þess að lýsa ást á sjálfum sér; það kæmi til að mynda sjálfsást til greina. Það er nákvæmlega þannig skynjun á sjálfinu, og um leið heiminum, sem andleg vakning miðar að.

Sönn sjálfselska er hins vegar mjög erfið – ekki síst vegna þess að í flestum okkar búa hlutir sem við erum ekki beinínis stolt af. Hér er fróðlegt að leita í smiðju sálfræðingsins Carls Gustavs Jungs. Hann taldi að hver hefði bókstaflega sinn djöful að draga; skuggann eins og hann kallaði fyrirbærið. Að hans mati var hin helsta hindrunin á hinni andlegu þroskabraut sú að horfast óttalaust í augu við þennan skugga og sætta sig við hann. Of mörgum hættir hins vegar til að hatast út i þennan skugga, og jafnvel bæla hann niður. Skugginn er þó alltaf til staðar með einum eða öðrum hætti, þannig að þegar hann er bældur fer fólk að sjá hann í öðrum; verður mjög upptekið af því að sjá lesti í fari annarra í stað þess að horfast í augu við nákvæmlega sömu lesti í sjálfum sér. Jesús Kristur talaði um að sjá flísina í auga bróður síns, en ekki bjálkann í manns eigin auga, sem er mjög skemmtileg leið til að orða þetta. Í trúarlegu samhengi virkar þessi sálfræði gjarnan þannig að fólk verður mjög upptekið af djöflinum og hrætt við hann; sér hann alls staðar og rígheldur í trú sína í sífelldum ótta við að ef það sleppi af henni tökunum að hinu minnsta leyti muni djöfullinn ná til þeirra. Þetta er auðvitað bara enn ein leið til að flýja sjálfan sig, og því miður geta trúarbrögðin verið öflugt tæki til þess, rétt eins og þau geta verið öflugt tæki til sjálfsskoðunar þegar gengið er út frá því að það sem kallað er djöfull er fyrst og fremst ákveðnar kenndir innra með okkur sjálfum.

Hér er sumsé strax komin ákveðin þversögn, eins og svo algengt er þegar tekist er á við andlegar áskoranir. Hvernig er hægt að elska sjálfan sig algjörlega, sætta sig við sjálfan sig alveg eins og maður er, þegar í manni býr svo margt illt? Þetta er spurning sem allir hinir mestu andlegu meistarar sögunnar hafa tekist á við, og svar þeirra er alltaf hið sama: Aðeins með óttalausri og ódómharðri sjálfsskoðun er þetta mögulegt. Aðeins með því að kafa algjörlega ofan í hið illa í sjálfum sér er hægt að sætta sig við það, og þar með yfirstíga það. Þetta er það sem í austrænum hefðum á borð við taóisma og búddisma er kallað að sigra sjálfan sig, og í þeim hefðum er það talið margfalt ríkari uppspretta valds og visku en það að sigrast á öðrum.

Hver er þá leiðin til sjálfsskoðunar? Þar eru margar aðferðir mögulegar, en ein mjög hagnýt og fljótleg leið til að gera þetta er hreinlega að setjast niður og skrifa. Gera nákvæma útttekt á öllum sínum kostum og göllum; setja hvora fyrir sig á lista, og skilja þar ekkert eftir. Ekki er nóg að hugsa bara um þessi atriði, því að með því að setja hluti niður á blað verða þeir raunverulegri fyrir manni. Við mannfólkið erum útbúin frá náttúrunnar hendi þannig að við gefum öllu því sem er í ytra umhverfi okkar sérstakan gaum, þannig að með því að setja hluti niður á blað og horfa á þá erum við í raun að vissu leyti að neyða sjálf okkur til að horfast algjörlega í augu við þá. Hugsanir og tilfinningar eru hverfular, en það sem stendur á blaði er það ekki.

Hér er líka best að skrifa í fyrstu persónu; setja efst á hvorn lista fyrir sig „Ég er …”, og síðan t.d. gáfaður/gáfuð, frekar en að skrifa niður ópersónulegri hugtök á borð við ‘gáfur’. Munurinn á þessu tvennu blasir kannski ekki endilega við, en þetta atriði skiptir samt sem áður töluverðu máli upp á hvernig maður horfir á þessa eiginleika sína. Með því að skrifa í fyrstu persónu er maður að eigna sér þá algjörlega, en með því að skrifa í hugtökum er hættara við að maður sé að halda eiginleikunum í ákveðinni fjarlægð frá sér.

Gott er að byrja á kostunum, og þegar maður er viss um að þeir séu allir komnir á blað má snúa sér að því að lista upp gallana – en þetta skiptir ekki öllu máli, og vinnan við listana getur þess vegna farið fram samhliða. Allt fer það eftir því hvað hverjum og einum þykir henta betur.

Þegar gallarnir eru settir á blað þarf að gæta sérstaklega að því að sumir þeirra gætu verið bældir og því ómeðvitaðir – en hvernig má komast að einhverju sem maður veit ekki af meðvitað? Hér er hjálplegt að hafa í huga tilhneiginguna til að varpa hinum ómeðvituðu löstum manns yfir á aðra. Eftir að hinir meðvituðu lestir hafa verið skrifaðir niður er því gott að skrifa líka niður annan lista yfir lesti í fari annars fólks sem fara í sérstaklega í taugarnar á manni (sumsé, vekja mjög sterk tilfinningaleg viðbrögð hjá manni), því líklegt er að þetta séu einmitt þeir lestir sem maður er að bæla hjá sjálfum sér. Til að binda enda á þá bælingu þýðir ekkert annað en að kafa virkilega vel ofan í þessa lesti; skoða allt lífshlaup sitt og sálarlíf í ljósi þeirra, og gæta að því hvort þar sé ekki eitthvað að finna sem gefur sterkar vísbendingar um að maður sé einmitt haldinn þessum löstum. Í hvert sinn sem maður uppgötvar með þessum hætti meðvitað að einhver af þessum löstum sem pirra mann í fari annarra er löstur sem maður hefur verið að bæla hjá sjálfum sér skal setja hann á listann yfir manns eigin lesti.

Líkt og öll önnur vinna sem tengist undirmeðvitundinni getur þetta ferli tekið tíma, og hér er því best að gefa sér nægan tíma og reyna ekki að þvinga neitt fram áður en maður er tilbúinn að takast á við það, heldur frekar að láta innsæið ráða og stýra ferlinu, og leyfa hlutunum að síast inn í meðvitundina á sínum eðlilega hraða.

Að öllu þessu loknu er komið að skemmtilegasta hlutanum. Listinn yfir lestina er tekinn fram, og fyrir hvern löst er samsvarandi kostur færður á listana yfir kostina. Ef einn lösturinn á lastalistanum er til dæmis ‘latur’, þá skal setja kostinn ‘duglegur’ á kostalistann. Af hverju? Jú, af því þessar andstæður lastanna búa í okkur rétt eins og lestirnir. Það kann að liggja djúpt á þeim, en þeir eru allir þarna einhvers staðar. Þetta er í raun fullkomlega rökrétt; ef við vitum hvað það er að vera latur þá vitum við líka hvað það er að vera duglegur – rétt eins og við getum ekki þekkt hið illa nema að þekkja hið góða líka.

Þetta er annað dæmi um hvernig andlegur þroski snýst að miklu leyti um að þekkja andstæður, og hvernig þær eru algjörlega nauðsynlegar í heiminum. Í heimi þar sem allt er til dæmis algott myndi enginn þekkja hið góða sem gott, og engin sérstök dyggð væri í því að vera góður. Enginn gæti heldur upplifað þá gleði sem fylgir því að breyta rétt. Í raun er erfitt að ímynda sér heim af þessu tagi út frá mannlegum forsendum, því með honum væri til að mynda nánast gert út um þann frjálsa vilja sem við eigum að venjast.

Í taóisma er talað um yin og yang, sem venjulegast er túlkað sem hið kvenlega og hið karllega – en yin og yang táknar líka allar aðrar andstæður sem fólk getur ímyndað sér. Taóið, sem er samsett af yin og yang, er táknrænt fyrir heiminn í heild sinni og hvernig hann verður til út frá mýgrút af andstæðum sem styðja hvor aðra. Því hefur verið haldið fram að ef maður skilji þetta atriði fullkomlega, þá skilji maður í raun allt annað – en það er kannski hægara sagt en gert! Það má þó alltaf reyna, og einn liður í þeirri viðleitni er að sjá hvernig andstæður takast á í manns eigin sálarlífi og eru í raun nauðsynlegar; án þeirra væri maður ekki mannlegur. Rétt eins og erfitt er að ímynda sér algóðan heim er erfitt að ímynda sér algóðan mann, því hið góða í manninum sprettur ekki síst af því að þekkja hið illa í sjálfum sér, en hafa vit og visku til að forðast það eftir fremsta megni.

Hér sést því hvernig lestirnir eru í raun yfirstignir með því að kafa nógu rækilega ofan í þá. Vissulega hverfa þeir aldrei alveg, en með því að skilja að þeir eru gildi á skala andstæðna og sætta sig við þá sem slíka finnst leið til að minnka þá – einblína á andstæður þeirra, kostina, og stefna að því að uppfylla þá í sjálfum sér. Hér sést skýrt og greinilega hvernig andlegur þroski snýst um að sameina andstæður og yfirstíga þær. Í þessari viðleitni er því gott að hengja kostina upp einhvers staðar þar sem maður sér þá reglulega, til að minna sig á þá stöðugt – aftur út frá þeirri mjög mikilvægu forsendu að það sem er í ytra umhverfi manns hefur mikil áhrif á hvað maður hugsar, og hvernig.

Einnig ætti að vera ljóst að með ítarlegri sjálfsskoðun af þessu tagi er maður líka að kafa ofan í hið sammannlega, og uppgötva það að maður á kannski meira sameiginlegt með öðru fólki en maður gerði sér grein fyrir. Þeir lestir sem pirra mann í fari annarra reynast vera lestir sem maður er að bæla hjá sjálfum sér, og þeir kostir sem maður telur sig ekki búa yfir og sér einungis í fari annarra búa reynast líka vera í manni sjálfum. Þannig minnkar hinn sýnilegi munur á manni sjálfum og öðru fólki, sem er enn ein sameining andstæðna.

Auðvitað er síðan ekkert sem bannar það að endurtaka þetta ferli hvenær sem þörf þykir á því, og jafnvel laga það að því sem manni þykir best henta og bæta við það. Í raun eru einu bráðnauðsynlegu forsendurnar þær að þetta sé gert af fullri hreinskilni og vilja til að skilja sjálfan sig fullkomlega og bæta sig þar með, sem og það að gera þetta ekki bara í huganum, heldur í ytri heiminum. Það má nota ýmsar aðrar leiðir en orð til að minna sig á kostina; til dæmis myndir og tónlist – og þeir sem hafa listræna hæfileika geta meira að segja skapað sér eitthvað sjálfir í þessa veru sem hefur sérstakt persónulegt gildi. Sjálfur hef ég til dæmis mjög gaman af því að hlusta á tónlist, og styrki því sjálfan mig reglulega með þeim hætti að spila einhverja tónlist í tölvunni sem mér finnst hafa sjálfsstyrkjandi gildi, og skoða myndir af sjálfum mér um leið. Í þessum efnum líkt og mörgum öðrum er ímyndunaraflið í raun það eina sem takmarkar möguleikana.

Önnur aðferðafræði sem er mjög gott að tileinka sér er að skoða sjálfan sig í núinu – sumsé að vera stöðugt meðvitaður um það sem hrærist innan í manni, og þannig koma sér upp leið til að geta horft á sjálfan sig utan frá og gripið inn í og stöðvað allar óæskilegar hugsanir og tilfinningar sem spretta upp. Þetta er hins vegar bersýnilega hægara sagt en gert – því ef þetta væri auðvelt myndum við flest eða jafnvel öll hafa fullkomna stjórn á sjálfum okkur, og það er deginum ljósara að svo er alls ekki. Af hverju reynist okkur sjálfsstjórn svona erfið? Það er vegna þess að sálarlíf okkar er þess eðlis að því meira sem við streitumst á móti einhverju í okkar fari, þeim mun sterkara verður það! Hér er því komin önnur þversögn og andleg áskorun – hvernig er hægt að stjórna sjálfum sér þegar allar tilraunir til að beita viljanum til að stjórna sjálfum sér eru í raun dæmdar til að mistakast, og jafnvel hafa þveröfug áhrif þegar upp er staðið? Þetta erfiða vandamál hefur verið eitt af hinum helstu viðfangsefnum trúarbragðanna. Páll Postuli orðaði þetta til að mynda svo í Rómverjabréfinu: „Hið góða, sem ég vil, gjöri ég ekki, en hið vonda, sem ég vil ekki, það gjöri ég. En ef ég gjöri það, sem ég vil ekki, þá er það ekki lengur ég sjálfur, sem framkvæmi það, heldur syndin, sem í mér býr. Þannig reynist mér það þá regla fyrir mig, sem vil gjöra hið góða, að hið illa er mér tamast. Innra með mér hef ég mætur á lögmáli Guðs, en ég sé annað lögmál í limum mínum, sem berst á móti lögmáli hugar míns og hertekur mig undir lögmál syndarinnar í limum mínum.”

Aftur hafa hér allir hinir mestu andlegu meistarar sögunnar fundið svarið, og aftur felst svarið í óttalausri og ódómharðri sjálfsskoðun – að viðurkenna djöfulinn innra með sér og horfast kyrfilega í augu við hann, í stað þess að streitast á móti honum. Neikvæðum hugsunum og tilfinningum er algjörlega leyft að koma fram, þær viðurkenndar án dómhörku sem hluti af okkur sjálfum – og þá hverfa þær svo gott sem af sjálfu sér. Í Bókinni um veginn eftir Laó Tse, grundavallarriti í taóismanum, er þetta orðað svo: „Gefðu hinu illa ekkert til að streitast á móti, og það mun hverfa af sjálfu sér.” Það er í þessu augnamiði sem iðkanir á borð við hugleiðslu og jóga urðu til; með hjálp þeirra þjálfar fólk sig í að skoða sálarlíf sitt án dómhörku, róa hugsarnir sínar, og mýkja viljann sem hættir til að streitast sjálfkrafa á móti öllu hinu neikvæða í okkar fari, með þeim afleiðingum að sálarlíf okkar verður tvískipt.

Jesús Kristur þekkti ekki til agaðra sjálfsskoðunarhefða af þessu tagi, þannig að við vitum ekki hvað honum hefði fundist um þær. Hér hjálpar heldur ekki til að hann hafði í raun ekki margt að segja beint út um sjálfsskoðun yfir höfuð, heldur einblínti hann þeim mun meira á hvaða augum fólk ætti að líta náungann. Þó sagði hann til að mynda þetta þegar hann talaði um flísina og bjálkann: „Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns.“, en hérna lét hann alveg ósagt hvernig mætti ná þessu fram. Það er því harla skrítið að þetta vandamál hafi orðið Páli Postula að umfjöllunarefni, en hans leið til að takast á við það var ekki beinlínis heilbrigð; hann skipti manninum upp í líkama og sál, og lýsti líkamann sem óhjákvæmilega syndugan: „Ég veit, að ekki býr neitt gott í mér, það er, í holdi mínu. […] Ég aumur maður! Hver mun frelsa mig frá þessum dauðans líkama?” Síðar átti kristnin eftir að þróast út á brautir hatrammrar baráttu gegn syndinni á nákvæmlega þessum grundvelli, að svo lengi sem við búum á þessari Jörð getum við aldrei yfirstigið syndina og verðum því að streitast á móti henni og jafnvel hatast út í allt það sem holdlegt er – sem er langt í frá líklegt að hafi verið markmið Jesúsar Krists sjálfs með boðskapi sínum. Aftur ber hér að impra á því að andlegur þroski snýst um að sameina andstæður, og því er skipting af þessu tagi á hinu holdlega og hinu andlega upp í algjörar og ósamræmanlegar andstæður tæpast gott upp á andlegan þroska. Þetta er einungis enn ein leiðin til að forðast að horfa í augu við sjálfan sig.

Það er líklegast best að árétta strax í upphafi að þetta er ekki venjuleg bloggfærsla. Reyndar er það úrdáttur – nærri lagi væri að segja að þetta sé óvenjulegasta bloggfærsla sem ég hef skrifað hingað til – og líka sú sem einna erfiðast er að skrifa.

Málið er nefnilega að þessari færslu er ætlað að segja frá stórmerkilegri reynslu sem ég varð fyrir nýlega; reynslu sem gjörbylti heimsmynd minni. Hér þvælist þó eitt vandamál fyrir, sem er það að reynslan er svo óvanaleg, margþætt og flókin að engin ein bloggfærsla gæti nokkru sinni gert henni tæmandi skil. Hún stendur reyndar enn yfir, og mér finnst líklegt að hún muni halda áfram að standa yfir með einhverjum hætti allt fram til dauðadags míns.

Samt sem áður verður maður víst að byrja einhvers staðar, og það er líklegast best að byrja bara á byrjuninni – og byrjunina er víst að finna í því hvernig reynslan hófst.

Þetta hófst þegar ég las bók sem heitir Aldrei aftur meðvirkni í íslenskri þýðingu. Þetta er bók eftir Melody Beattie sem heitir á frummálinu Codependent No More. Ég rakst á hana fyrir liðlega mánuði í bókabúð þegar ég var að kaupa afmælisgjöf handa vinkonu minni, og þar sem ég hafði lengi vel verið áhugasamur um þetta fyrirbæri, meðvirkni, og talið mig hrjást af því, þá ákvað ég að kaupa hana handa sjálfum mér. Þetta reyndist stórmerkileg bók sem mér fannst lýsa ansi nákvæmlega mínum helstu kvillum og göllum. En, eins og ég segi þá gerðist um leið eitthvað annað og mun dýpra. Ég breyttist, nánast á einu augabragði. Kvíði minn áhyggjur, og þráhyggjur hurfu út um gluggann. Hugur minn varð skarpari og ég hafði aukna andlega og líkamlega orku til að gera hvað sem ég vildi. Ég fann mun betur fyrir líkama mínum og þörfum hans og breytti því gjörsamlega um mataræði og lífstíl almennt. Ég varð meðvitaðri um umhverfi mitt og þörfina á því að hafa það hreint og snyrtilegt – sem og tæknilega getu, þolinmæði og áhuga til að sinna þeim verkum sem þarf til að halda því þannig.

Í raun má í stuttu máli segja að það er eins og meðvitund, undirvitund og líkami hafi runnið saman hjá mér í heildstæðari einingu – eða það er allavega ein leið til að lýsa þessu. Áhrifin voru eins og ég segi mjög snögg og að því er virðist varanleg; ég er allavega ekki dottinn enn aftur í gamla farið, og sé í raun ekki hvernig það væri mögulegt þegar ég hef kynnst þessari glænýju hlið á mér.

En sögunni lýkur ekki hér. Langt í frá. Þessari persónulegu breytingu fylgdu mjög sérkennilegar upplifanir sem ég ætla nú ekki að fara út í smáatriðum hér; kannski ekki síst af því ég geri mér fulla grein fyrir að margt af þessu hljómar hálfklikkað. Engu að síður er ég algjörlega heill á geði, og í raun miklu heilli en ég var – enda er ég já, heill almennt. Heilbrigði er einmitt það að vera heill; óskiptur. Þó ég fari ekki út í smáatriði að þessu sinni verð ég þó víst að segja eitthvað. Grunnpunkturinn er líklegast mér fannst þessar upplifanir gefa mér ákveðin og sterk skilaboð um eðli tilverunnar í heild sinni. Samt sem áður má sennilegast ekki kalla þær yfirskilvitlegar; þær voru einungis í formi undarlegra ’tilviljanna’, sem og mjög óvanalegra en sterkra tilfinninga innra með mér.

Líklegast er best að hreinlega telja upp hvaða skilaboð um eðli tilverunnar mér finnst að hafi verið innprentuð (smátt og smátt) í heila minn hingað til í gegnum þessa reynslu alla:

– Lífið er ekki tilgangslaust; það er samofin heild þar sem allar lífverur, ekki síst mannverur, eru samtengdar á mjög djúpan hátt. Í raun er allur heimurinn órofin heild; flókinn vefur þar sem vitundin spilar lykilhlutverk. Í raun er kannski óvitlaust að halda því fram að heimurinn sé í raun vitund. Hið allra minnsta er vitundin miklu mikilvægari hluti af heiminum en hörðustu efnishyggjumenn telja hana vera.

– Tilviljanir eru ekki til, eða allavega fátíðari en margur gæti haldið. Vefur tilverunnar er uppfullur af uppákomum sem hafa mikla og ríka merkingu ef maður er vakandi fyrir þeim og les rétt í þær.

– Persónuleg upplifun er lykilatriði í tilverunni. Þó til séu ákveðnar hlutlægar staðreyndir, og hin vísindalega aðferð virki stórvel til að leiða þær í ljós, þá er það endanlega alltaf undir einstaklingnum komið hvernig hann túlkar staðreyndir. Þess fyrir utan er afar, afar margt í tilverunni sem engin leið er til að smætta niður í hlutlægar staðreyndir. Tilfinningar og reynsla hafa raunverulega tilvist og verða vel líklega aldrei skýrðar að fullu með því að krukka í hinu efnislega.

– Í þessum vefi tilverunnar er innifalinn undirliggjandi, djúpur veruleiki sem erfitt er að átta sig á – og í raun eru til margar túlkanir og lýsingar á honum. Mér líst þó einna best á túlkun Carls Jungs (mikils meistara sem ég hef lengi haft mætur á); hann kallaði þetta Unus mundus. Ég er ekki síst hrifinn af þessu af því hugtakið hljómar svo svalt.

– Innsýn í ofangreindar staðreyndir er rótin að trúnni. Sú staðreynd að trúin finnur sér mismunandi farveg í mismunandi heimshlutum er menningarlegs eðlis, en rótin er sú sama – og vissulega er öll þessi fjölbreytni auðvitað líka hreinlega hlutur af vef tilverunnar. Þessir farvegir eru þó að mínu mati misgóðir; þeir lýsa þessum vef tilverunnar misvel, og eru líka misuppbyggilegir. Einna verst er þegar trúin verður hluti af valdakerfi og notuð til að halda fólki niðri og kúga. Í gegnum söguna finnast þess mýmörg dæmi, og því miður nýleg jafnt sem gömul. Hættumerkin sjást í því þegar einhver hópur fólks tekur upp á því að gerast sérlegir túlkendur trúarinnar og brjóta niður tækifæri fólks til að öðlast djúpar og persónulegar trúarupplifanir. Þetta gerðist til að mynda með kristnina, sem í upphafi var notuð til að brjóta niður rotið valdakerfi Rómarveldis, en varð síðan gerð að valdakerfi sjálf – og það er þróun sem enn hefur ekki verið undið ofan af. Þetta tel ég þó sögulega nauðsyn, og einnig órofa hluta af vef tilverunnar.

– Sú sögulegu trúarbrögð sem einna næst hafa komist því að lýsa þessum vef tilverunnar eru austræn, til að mynda Búddismi. Í Búddisma er talað um að hægt sé að ná svokallaðri uppljómun, sem gefur manni djúpa innsýn í eðli veruleikans. Eftir að hafa kynnt mér það fyrirbæri í þaula og borið saman við mína eigin reynslu er ég ekki fjarri því að þetta hafi hent mig, og það þá algjörlega án þess að ég hafi stefnt af nokkru því líku! Þetta er þó vissulega sagt í töluverðri varfærni, þar sem ég er hógvær maður – en staðreyndirnar er erfitt að hundsa. Þess fyrir utan breyta mismunandi mögulegar túlkanir á þessari reynslu minni engu um það að hún er raunveruleg, og stórkostleg.

Eins og fram hefur komið þá gæti ég skrifað miklu, miklu meira um þetta stórmerkilega mál – og mun án efa gera það síðar. Þetta læt ég þó gott heita í bili, þar sem þetta er örugglega feykinóg fyrir lesendur að melta. Það er allavega næsta víst að þetta er mjög stór biti fyrir mig sjálfan að melta!

Líklegast hefur það ekki farið framhjá mörgum að Björgólfur Thor Björgólfsson hleypti nýverið af stokkunum vefsíðu þar sem hann leitast við að útskýra viðskiptaferil sinn hérlendis út frá sinni eigin hlið. Strax frá upphafi var ljóst að þetta framtak væri tvíeggjað sverð, og að halda yrði mjög fimlega á því sverði til að það yrði Björgólfi og ímynd hans til gagns fremur en skaða.

Af þessum sökum þykir mér með hreinum ólíkindum að sjá á þessari síðu jafn augljósar rangfærslur og blasa við í umfjöllun um Icesave og innstæðutryggingar:

Þegar í ljós kom að viðbrögð stjórnvalda við falli Glitnis í lok september 2008 leiddu til þess að hæfismat á öllu íslenska bankakerfinu var lækkað og sá möguleiki varð ljós hjá þeim sem næst málum stóðu að íslensku viðskiptabankarnir gætu fallið vöknuðu spurningar um tryggingar innlána. Björgólfur Thor Björgólfsson veit að bankastjórar Landsbankans og sérfræðingar þeirra litu svo á þann 6. október 2008, – á síðasta starfsdegi sínum, að innistæður viðskiptavina bankans væru á ábyrgð bankans og þær fyrst og fremst tryggðar með eignum hans. Ekki var þannig litið á að íslenska ríkið væri ábyrgðaraðili innistæðna, hvorki í útibúum á Íslandi né erlendis og þá heldur ekki í dótturfélögum.

Það er ekki alls kostar rétt að spurningar um tryggingar innlána í íslenskum bönkum hafi ekki vaknað fyrr en Glitnir féll í september 2008. Hið rétta er að innstæðutryggingar höfðu verið í umræðunni meira og minna allt árið, ef ekki lengur. Það er allavega morgunljóst að þegar breska ríkið tók yfir bankann Northern Rock í febrúarmánuði, þá olli það töluverðri ókyrrð meðal breskra sparifjáreigenda, sem eðlilega óttuðust að fleiri bankar gætu fallið í kjölfarið, og vildu því hafa á hreinu hvernig innstæðutryggingum hjá hinum ýmsu bönkum þarlendis væri háttað. Þetta ætti að vera það augljóst atriði að ég tel mig ekki einu sinni þurfa að birta heimildir fyrir því – enda mun ég koma að þessu að nokkru leyti síðar í pistlinum hvort eð er.

Annað sem má setja stórt (jafnvel enn stærra) spurningamerki við úr þessari tilvitnun er sú fullyrðing að innan Landsbankans hafi menn verið með það alveg á hreinu við fall bankans að íslenska ríkið bæri ekki ábyrgð á innstæðum sparifjáreigenda hjá Landsbankanum. Þetta stangast nefnilega á við það sem þegar hefur komið fram í hinni ágætu skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, nánar til tekið kafla 18.2.3. Þar er til að mynda fjallað um fund bankastjóra Landsbankans og bankastjóra Seðlabankans þann 31. júlí 2008:

Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis var Halldór J. Kristjánsson nánar spurður út í fyrrgreindan fund með bankastjórn Seðlabankans. Halldór viðurkenndi að þá Davíð Oddsson hefði greint á um ábyrgð Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Um þetta sagði Halldór: „Ég var alltaf þeirrar skoðunar að við einhvers konar „normal“ aðstæður að þá væri „Evrópudírektívið“ þjóðréttarlegar skuldbindingar, svona „hobbí-lögfræðingur“ eins og ég, mér fannst það blasa við, að á bak við þessar tuttugu þúsundir. En ég er algjörlega sammála þeim í þessu sem segja að það megi draga mjög í efa hvort hún eigi við þegar kerfishrun verður og ég man eftir því að það var eitthvað sem hollenski seðlabankastjórinn hélt fram við okkur þegar við töluðum við hann að svona sjóður væri til að taka á einstökum áföllum en ekki kerfishruni. Ég var hins vegar á þeirri skoðun að samkvæmt lögunum um Tryggingarsjóðinn hefur Tryggingarsjóðurinn heimild til að taka lán, sem er nýtt til þess að greiða og ég leit þess vegna þannig á að miðað við þjóðréttarlega stöðu tilskipunarinnar þá bæri sjóðnum að taka slíkt lán og reyna að uppfylla skuldbindingar sínar. Og þegar menn eru að reyna að velta fyrir sér, þegar reynir á svona sjóð, þá eru menn náttúrulega aldrei að gera ráð fyrir altjóni, heldur að það sé eitthvert endurheimtuhlutfall, vonandi sem allra mest. En það var nú bara þessi „debatt“ sem við tókum um eðli þessara ábyrgða og Seðlabankinn og sérstaklega formaður Seðlabankastjórnarinnar hafði þennan skilning og mér fannst hann fullþröngur hjá honum, þótt ég viðurkenndi alveg meginsjónarmiðið.“

Sérstaklega er athyglivert að bankastjóri Landsbankans segist þarna alltaf hafa verið þeirrar skoðunar að innstæðutryggingar fælu í sér þjóðréttarlegar skuldbindingar. Þetta er afar erfitt að samræma við þá fullyrðingu að bankastjórar Landsbankans hafi ekki verið í neinum vafa um það þann 6. október 2008 að ríkið bæri enga ábyrgð á nokkrum innstæðum bankans. Þess fyrir utan er ögn síðar í skýrslunni sagt frá bréfi sem Landsbankamenn sendu Fjármálaeftirlitinu þann 17. ágúst 2008, þar sem þeir virðast telja að óvissa um ríkisábyrgð á innstæðutryggingum sé nokkuð sem sé einungis (og ómaklega) til staðar erlendis, og að réttast væri að hérlend stjórnvöld lægðu öldur með því að árétta að ríkið bæri ábyrgð á skuldbindingum tryggingarsjóðsins:

Loks segir í bréfinu: „Eitt þeirra atriða sem Landsbankinn verður var við og sem fyrst kemur upp í umræðu erlendis er vantrú aðila á íslenska innlánstryggingarsjóðinn sem (vegna skorts á eignum) er talinn ótrúverðugur. Það væri mjög til bóta fyrir kerfið í heild ef tekinn væri af allur vafi um ábyrgð ríkisins á skuldbindingum sjóðsins og myndi auðvelda bönkunum mjög að verjast þeirri ósanngjörnu gagnrýni sem núverandi óvissa býður upp á. Ef til [vill] ætti ábending FME.til stjórnvalda í þessa veru rétt á sér.“

Hér er því að dragast upp frekar greinileg mynd sem er í beinni andstöðu við það sem haldið er fram á vefsíðu Björgólfs Thors. Fleira má tína til, svo sem þessa frétt um bréf frá 23. september 2008, þar sem bankastjórar Landsbankans fögnuðu því að íslensk stjórnvöld höfðu einmitt tekið sig til og áréttað hlutverk og skuldbindingar ríkisins varðandi innstæðutryggingarnar.

Við þetta bætast skýrar heimildir um að Landsbankamenn hafi verið iðnir við það, í kjölfar áðurnefndra áhyggna breskra sparifjáreigenda um innstæðutryggingar, að árétta að Icesave væri algjörlega öruggt og vel varið af íslenska ríkinu. Ein sú magnaðasta er þessi hér, frá því í apríl 2008, þar sem ónefndur talsmaður Icesave ‘útskýrir’ málið:

“Icelandic banks pay into a fund which is set aside to be paid out for compensation should it be needed – the UK scheme doesn’t have this and could therefore technically take longer than the Icelandic scheme!” (Note from Martin: The UK scheme is set up to call money in if needed, rather than work on a pot of money system).

All talk of compensation schemes is purely hypothetical because they have never been used, but given the above, there is no reason to assume that the Icelandic scheme would be any more complicated or take longer.

In the extremely unlikely event that the Icelandic government wasn’t in a position to meet all claims, all the Nordic countries have an arrangement where they will step in and help any one of the participating countries that are in trouble so there is an additional layer of reassurance and cover.

If you could make it clear that Icesave customers are fully protected up to £35k the same as customers of any UK bank and that they will be paid as quickly I’d be very grateful!”

Hér virðist enginn vafi ríkja á ábyrgð ríkisins; einungis er talað um þann (gríðarlega ólíklega!) möguleika að íslenska ríkið gæti ekki borgað allar innstæðutryggingar, en því greinilega tekið sem gefnu að því bæri að gera það. Vissulega er þetta svar ekki beint frá stjórnendum bankans komið, en hins vegar er mjög erfitt að ímynda sér að hinn ónefndi starfsmaður bankans sem það skrifaði hafi ekki gert það í samræmi við einhverja almenna línu sem lögð var innan bankans um hvernig ætti að svara fyrirspurnum um innstæðutryggingar.

Eina ályktunin sem má með góðu móti draga af gögnunum er því þessi: Stjórnendur Landsbankans brugðust við efasemdum sem upp komu um innstæðutryggingar snemma árs 2008 með því að ‘árétta’ það fyrst sjálfir gagnvart viðskiptavinum sínum að innstæður þeirra væru að fullu tryggðar af íslenska ríkinu, en svo þegar það virkaði ekki nógu vel til að lægja öldur vildu þeir fá hérlend stjórnvöld til að taka þátt í að ‘árétta’ þetta atriði í eitt skipti fyrir öll. Þetta var væntanlega liður í því að verja bankann falli og bæta ímynd hans erlendis með því að reyna að fá íslensk stjórnvöld til að gerast bakhjarl hans með eins mörgum leiðum og menn gátu upphugsað.

Ofangreindar staðreyndir eru í hrópandi ósamræmi við það sem fullyrt er á vefsíðu Björgólfs Thors, þar sem í veðri er látið vaka að stjórnendur Landsbankans hafi verið með það á tæru að ríkið bæri ekki ábyrgð á innstæðum bankans, og að stjórnvöld hafi upp úr hruninu gert ríkið ábyrgt fyrir bankainnstæðum nánast í óþökk stjórnenda bankans, eða hið minnsta algjörlega án þeirra atbeina (þessi vitleysa er nánar reifuð hér).

Ekki er því annað að sjá en að í þessum efnum sé á síðu Björgólfs Thors reynt að fegra hlut Landsbankans verulega á kostnað stjórnvalda með bíræfnum rangfærslum. Vissulega ógildir þetta ekki sjálfkrafa allt sem á síðunni stendur – en þetta gefur svo sannarlega tilefni til að skoða það allt saman með afar gagnrýnum huga.

Prófessor Hannes Hólmsteinn Gissurarson ritaði í gær pistil um efni sem mér hefur lengi verið hugleikið (og þar eru heimatökin það hæg að nóg er að benda hreinlega á síðustu færslu þessa bloggs), sem er styrkir til stjórnmálaflokka. Í niðurlaginu kallar hann eftir mótrökum, og það sjálfsagt að verða við þeirri bón.

Meginröksemd prófessorsins er einföld – að það sé ‘eðlilegt’ að hlutafélög styrki flokka sem eru hlynntir viðskiptafrelsi (hvað varðar Ísland vill prófessorinn meina að þetta eigi við um Sjálfstæðisflokkinn einn flokka), en ‘óeðlilegt’ að þeir styrki flokka sem eru minna hlynntir viðskiptafrelsi. Ástæðuna segir hann þá að það þjóni hagsmunum hluthafa fyrirtækjanna að í valdastöðum séu aðilar sem vinna að viðskiptafrelsi, en þegar hlutafélag styrkir aðila sem ekki vinna að viðskiptafrelsi, þá sé verið að falast eftir óeðlilegri fyrirgreiðslu.

Hér er sitthvað athugavert.

Það sem einna helst stingur í augun er notkunin á hugtökunum ‘eðlilegt’ og ‘óeðlilegt’. Einhverra hluta vegna telur prófessorinn ‘eðlilegt’ að stjórnendur hlutafélags vinni að hagsmunum hluthafanna með því að stuðla að góðu viðskiptalífi almennt, en ‘óeðlilegt’ að þeir vinni að hagsmunum hluthafanna með því að stuðla að því að félagið fái einhverja sérmeðferð. Reyndar segir hann stjórnendurna í síðari tilfellinu vera að vinna gegn hagsmunum hluthafanna með því að styðja þá sem eru fjandsamlegir atvinnulífinu, en hann útskýrir í engu hvers vegna téðir stjórnendur ættu þá að taka ákvarðanir af þessu tagi. Jú, það hlýtur einmitt að vera vegna fyrirgreiðslunnar; stjórnendurnir meta það sem svo að heildarhagsmunum félagsins sé best borgið, njóti hennar við. Þess vegna hlýtur í báðum tilfellum að vera um nokkuð ‘eðlilegan’ gjörning að ræða, út frá sjónarhorni stjórnendanna (ef þeir fylgja því boði Friedmans að eina siðferðisskylda þeirra eigi að vera að hámarka arð til hluthafanna) – sem er í raun eina sjónarhornið sem prófessorinn athugar.

Þá komum við einmitt að öðru sem er athugavert; hinu þrönga sjónarhorni prófessorsins almennt. Hann tekur til dæmis enga afstöðu til þess hvort að það sé ‘eðlilegt’ út frá lýðræðis- og réttlætissjónarmiðum að í óþvinguðu umhverfi (sbr. það umhverfi sem flokkar og fyrirtæki bjuggu við hérlendis fram að árslokum 2006) dæli hlutafélög frekar fjármagni í þá flokka sem eru almennt ‘fyrirtækjavænir’, en hinir flokkarnir þurfi þá að svelta. Þar sem hann gagnrýnir þetta fyrirkomulag í engu (og þar sem ég man ekki til þess að hann hafi nokkurn tímann gagnrýnt það yfir höfuð) er freistandi að álykta sem svo að prófessorinn sjái ekkert athugavert við það í sjálfu sér; að fyrst og fremst vaki fyrir honum að sýna fram á að styrkir til Sjálfstæðisflokksins í gegnum tíðina hafa að mestu verið ‘eðlilegir’, en styrkir til Samfylkingarinnar ‘óeðlilegir’. Þegar maður hugsar kenninguna hins vegar í víðara samhengi rifjast óhjákvæmilega upp fyrir manni hugtak úr eldri pistli prófessorsins, en það er auðræði, eða plútókratía. Í Wikipediagreininni um það fyrirbæri segir meðal annars: „The influence the wealthy minority of the population has over the political arena includes campaign contributions …“. Hvort sem ætlunin er að kaupa sér pólitíkusa sem eru hlynntir viðskiptafrelsi, eða pólitíkusa sem veita fyrirtækinu fyrirgreiðslu, þá hlýtur að vera nokkuð ljóst að í báðum tilfellum eru stjórnendur fyrirtækis að nota auð fyrirtækisins til að hafa áhrif á hið pólitíska landslag. Á velli hinnar frjálsu samkeppni hugmynda er vandséð hvaða rúm er fyrir slíka feitra bitlinga einnar hugmyndafræði til handa, nema menn hafi ekki meiri trú á lýðræðinu en svo, að þeir telji að halda verði ákveðinni hugmyndafræði uppi með auðvaldi í skjóli hömluleysis og leyndar. Þó má nú segja að þetta sé allt saman í raun mjög í anda frjálshyggjunnar; svo lengi sem allir hafa óheft frelsi til athafna (í þessu tilfelli frelsi til að halda uppi ákveðnum flokkum með leynd – gleymum eitt augnablik að frjáls samkeppni hugmynda er að sama skapi skert með þessu, sem og frelsi kjósenda til að taka upplýstar ákvarðanir) er ekki hægt að setja út á það, þó niðurstöðurnar af því séu óréttlátar.

Mun fleira mætti segja um pistilinn og það sem er athugavert í honum, en einhvers staðar verður að láta staðar numið. Eitt þó að lokum. Prófessorinn ritar meðal annars eftirfarandi, þegar hann reynir að draga mörkin á því hvað eru óeðlilegir styrkir til hægriflokka, og hvað ekki: „Þótt styrkir fyrirtækja til Sjálfstæðisflokksins og sjálfstæðismanna séu rökréttir, á sama hátt og þeir eru órökréttir til vinstri flokka og vinstri manna, er annað mál, að slíkir styrkir mega auðvitað ekki verða svo háir, að einstakir aðilar öðlist úrslitaáhrif, eignist menn með húð og hári.“ Í þessu sambandi er áhugavert að skoða til að mynda tengsl sjávarútvegsfyrirtækja við Sjálfstæðisflokkinn, líkt og lesa má um t.d. hér. Hér er vel hugsanlega um sértækt dæmi um ívilnun í hið frjálsa markaðstorg hugmyndanna að ræða – þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur löngum staðið dyggan vörð um núverandi kvótakerfi í sjávarútvegi, þá má vel ímynda sér að tilgangur sjávarútvegsfyrirtækja með því að styrkja flokkinn sé ekki síst að halda því kerfi uppi með tilstilli auðmagnsins, og þá á kostnað lýðræðislegra leikreglna og frjálsrar samkeppni hugmynda.